02.02.1972
Neðri deild: 37. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1371 í B-deild Alþingistíðinda. (1039)

11. mál, stöðugt verðlag

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Það er nú mikil hæverska hjá hv. 7. þm. Reykv. að fara að spyrja mig um þessi atriði, því að ég efast ekki um, að hann er mér miklu fróðari um alla vísitöluútreikninga og allar reglur, sem um það efni gilda, enda virtist mér hann svara sér nokkuð sjálfur í sinni ræðu.

Ég skal aðeins víkja að þessum atriðum, sem hann minnist á, lítillega. Í fyrsta lagi að því er snertir nafnið á þessu frv. eða lögum, þá er nú það tekið í arf frá fyrrv. ríkisstj. Þessi lög hétu nú þessu einkennilega nafni, lög um stöðugt verðlag og atvinnuöryggi. Ég hef aldrei haldið, að það hafi verið alveg nákvæmt réttnefni. En í brbl. þótti ekki ástæða til þess að vera að breyta þessu heiti.

Hv. þm. vék í leiðinni að ábyrgðartryggingum bifreiða og þeirri breytingu, sem gerð hefur verið í því efni, þar sem gert er ráð fyrir því, að hver bifreiðareigandi, sem tjóni veldur, beri sjálfsábyrgð, sem getur orðið allt að 7500 kr. fyrir hvert tjón. Það er alveg rangt að nefna þetta mál í sambandi við allar vísitölur. Þetta er umferðarmál. Markmiðið með þessu, að lögleiða sjálfsábyrgð að þessu leyti, er að reyna að gera tilraun til að hamla á móti eða draga úr umferðarslysum. Og ég býst við því, að það verði enginn ágreiningur um það hér á hv. Alþ., að það sé þörf á að gera þvílíkar tilraunir í þá átt.

Það er að sjálfsögðu rétt, að þetta leggst á þá bifreiðaeigendur, sem tjóni valda. En hins vegar er það fullyrðing hjá hv. þm., að það verði ekkert tillit tekið til þess í vísitölu. Ég hygg, að hann viti það betur en ég, að einmitt sú nefnd, sem hann nefndi, kauplagsnefnd heitir hún víst, hefur heimild til þess, það er alveg á hennar valdi að meta það, hvort hún tekur tillit til þessa við útreikning á vísitölu eða ekki. Ég get ekkert sagt um það eða fullyrt um það, hvort hún gerir það eða ekki. Ríkisstj. getur engin áhrif haft á það. Það er algerlega undir hennar mati komið.

Viðvíkjandi því, sem hv. fyrirspyrjandi sagði um verð á landbúnaðarvörum og hækkanir, sem hann færði þar fram, þá vil ég fyrst segja það, að ég held, að þar hafi í einu og öllu verið farið eftir þeim reglum, sem í gildi hafa verið. Þar út af fyrir sig um verðlagningu þeirra hefur ekki orðið nein breyting á. Að vísu hafa verið gerðar breytingar á niðurgreiðslum. En ég held, að það sé enginn vafi á því, að þær verðbreytingar, sem verða á þeim vörum, af hverju sem þær stafa, koma inn í vísitölu eða ég hef a.m.k. gert ráð fyrir því, að kauplagsnefnd tæki tillit til þess, eins og ég hygg, að hafi verið gert. Hitt er svo annað mál, sem hann kom að líka varðandi vísitöluna, að það virðist nú mega segja um þessa vísitölu, að hún virðist að áliti sumra manna vera geysihagleg geit. Ég hef nú alltaf litið á vísitöluna þannig, að hún ætti að mæla vissa kostnaðarliði. Ef það verður hækkun á víssum kostnaðarliðum, þá hækkar vísitalan. En ef það verður lækkun hins vegar á sömu eða tilsvarandi liðum, þá lækkar vísitalan. Og ég hef nú haldið svona almennt talað, að þá ættu menn að standa nokkurn veginn jafnréttir eftir. Ég veit vel, að þessi vísitöluútreikningur er allur flókinn og ég vil ekki segja, að hann sé endilega svona neitt sígildur eða þyrfti að verða eilífur. Ég hygg, að það mætti haga honum á ýmsan annan veg og það megi haga honum á ýmsa vegu. En það hefur ekki verið gerð nein breyting á því, hvernig þessir útreikningar fara fram, þannig að kauplagsnefnd hefur alveg sama mælikvarða eftir að fara eins og áður. Og þess vegna er þetta á hennar valdi. Og ég get ekki annað séð en alveg eins og menn fá það uppi borið, ef liðirnir, sem eru inni í vísitölunni, hækka með hækkaðri vísitölu og hækkaðri kaupgreiðslu, þá verði menn að sætta sig við það, ef liðirnir, kostnaðarliðirnir, sem eru inni í vísitölu, lækka og kaupgreiðslurnar eða vísitölugreiðslurnar lækka, þá get ég ekki séð annað en menn verði að sætta sig við það.

Hvort það sé stefna ríkisstj., eins og hv. fyrirspyrjandi orðaði það, eitthvað á þá lund, að launþegar eigi að bera þá hækkun á landbúnaðarvörum, sem á þessu ári hafa orðið. Ég held nú, að ég sé búinn að svara því, að það er allt uppi borið. Það, sem hv. fyrirspyrjandi er með í huganum, er það, hvort niðurfelling nefskatta, sem reyndar er ekki enn orðin að lögum og menn hafa enn þá tækifæri til þess að hverfa frá, ef þeim sýnist þar farið inn á rangar brautir, hvort hún eigi að koma til lækkunar á vísitölu. Ég verð bara að svara þessu einfaldlega eins og hv. fyrirspyrjandi svaraði sjálfum sér, að það er algerlega á valdi kauplagsnefndar, hvernig hún metur þetta. Ríkisstj. hefur ekki nokkurn skapaðan hlut um það að segja, hvernig kauplagsnefnd lítur á þetta atriði. Ég skal ekkert fullyrða um það. Það er hugsanlegt, að hún líti þannig á, að það eigi ekki að koma alveg til lækkunar. Ég skal ekkert fullyrða um það. Ég veit ekki betur en það sé algerlega á valdi kauplagsnefndar, og ég veit ekki til þess, að ríkisstj. hafi þar nokkuð um að segja. Hún hefur ekki minnsta skipunarvald gagnvart þessari kauplagsnefnd. Hún er algerlega sjálfstæður aðili. Og ef það hefur átt að felast í fsp., hvort ríkisstj. mundi reyna að hafa einhver áhrif á kauplagsnefnd í þessu efni, þá get ég svarað því til, að ég held, að mér sé óhætt að fullyrða það, að ríkisstj. muni láta það alveg afskiptalaust. Hún mun að sjálfsögðu fylgja þeim háttum í þessu efni, sem farið hefur verið eftir áður af fyrrv. ríkisstj.