02.02.1972
Neðri deild: 37. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1373 í B-deild Alþingistíðinda. (1040)

11. mál, stöðugt verðlag

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég skal láta liggja á milli hluta umr. um staðfestingu þessara brbl., sem þegar hafa haft sitt gildi, eins og þeim var ætlað, og þess vegna er verið að framfylgja formsatriðum með því að leggja þau fyrir þingið, eins og lög gera ráð fyrir. En mér þykir skörin vera farin að færast upp í bekkinn, þegar hæstv. forsrh. kemur hér og gefur það í skyn, að eiginlega hafi hann nú ekki fullkomna þekkingu á því, hvaða reglur gildi um vísitölu og vísitöluútreikning. (Forsrh.: Ekki eins mikla og hv. 7. þm. Reykv.) Ekki eins mikla og ..., nú. Nei, þetta er alvörumál og ekkert til að hlæja að, því að vísitalan er atriði, sem mælt er eftir kaup almennings í landinu, og ég vil minna hæstv. forsrh. á það, að frá því í júlímánuði í sumar, sem yfirmaður Efnahagsstofnunarinnar, og enn, þar sem stofnunin, þessi nýja, Framkvæmdastofnunin heyrir undir ríkisstj., ber honum skylda til að kunna fullkomlega skil á útreikningi vísitölu og öllu, sem í sambandi við hana er. Og það er mikil léttúð að koma hér fram fyrir þingheim og gera því skóna, að hann hafi ekki sömu vitneskju um það eins og aðrir, það þýðir m.ö.o., að hann skorti einhverja vitneskju í þessu sambandi.

Ég álít hins vegar einnig, að það sé ekki rétt hjá hæstv. forsrh., að sjálfstryggingin á bifreiðunum sé bara umferðarmál. Það getur blandazt umferðarsjónarmið inn í þetta mál, en það er enginn efi á því, að það, sem réð úrslitum í þessu, voru áhrifin, sem ríkisstj. sjálf taldi, að þetta mundi hafa á vísitöluna, ef iðgjöldin hækkuðu. Og það er að mínu áliti alveg nauðsynlegt að grandskoða þessa löggjöf, þessa bráðabirgðalöggjöf, þessi ákvæði, sem sett hafa verið, og hvort það getur haft sína þýðingu sem umferðarmái. enda þótt sjálfstrygging sé einhver. En það er engan veginn mín sannfæring, að það hafi verið ratað rétta meðalhófið hér að hafa sjálfstrygginguna 7500 kr., og ég tel, að það hafi verið gengið of langt til móts við tryggingafélögin í þessu sambandi. Og ég álit einnig, að það geti haft sín skaðlegu áhrif fyrir umferðina í landinu, að sjálfstryggingin er svona há, það örvi menn til þess að reyna að hlaupast frá því tjóni og sköðum, sem þeir gera í umferðinni og koma sér undan þeirri ábyrgð, sem á þeim hvílir, og þetta atriði verður einnig að athugast. Ég álít, að þarna sé enn eitt dæmi um fljótfærnislega afgreiðslu hæstv. ríkisstj. á þýðingarmiklum málum, bæði almennum málum í stjórnsýslunni og þeim, sem hér hafa komið fyrir Alþ.

Hæstv. forsrh. segir, að lækkun á kostnaðarliðum, sem ganga inn í kostnað manna við heimilishald sitt, ja, þeir valdi lækkun vísitölunnar, eigi að valda lækkun vísitölunnar, eins og hækkunin valdi hækkun vísitölunnar. En hér er enn einu sinni haldið áfram að stagast á sömu blekkingunum, að það hafi verið felld niður almannatryggingagjöldin og sjúkrasamlagsgjöldin. Þau voru ekki felld niður. Almenningur í þessu landi á að borga þessi gjöld og hann á að borga hærri upphæð en áður, vegna þess að iðgjöldin hefðu þurft að hækka, vegna þess að tryggingarnar eru hækkaðar. Þetta leiðir af eðli málsins. En það eru aðrir aðilar, sem borga, heldur en áður borguðu, þegar það var nefskattur. Hins vegar hefur verið sýnt fram á það af prófessor í viðskiptadeild Háskólans, að einmitt tryggingagjöldin, niðurfelling þeirra eða réttara sagt tilfærsla úr nefskatti yfir í tekjuskatt valdi því, að heimilisfeður með tvö börn verði í langflestum tilfellum, hafi þeir þær tekjur, þessir aðilar, sem eru 86% af skattgreiðendunum í landinu, verði að borga meira en áður var, kjör þeirra versni við þær breytingar, sem hér hafa verið gerðar á almannatryggingalögunum, að færa nefskattana yfir í tekjuskattana, þegar dæmið er reiknað eins og hann reiknaði út. Og ég hef ekki séð enn, að þessu hafi verið hnekkt, þó að það hafi verið sett fram á opinberum vettvangi. Þegar þetta er haft í huga, þá er auðvitað ekki verið að fella niður eða lækka gjöldin, sem byggja upp vísitöluna, heldur er verið að færa þau til, en hins vegar er löggjöfin þannig, að tekjuskattarnir gengu ekki inn í vísitöluna. Það er ekki hægt að koma hér og segja í heilagri einfeldni: Ríkisstj. hefur ekkert með þetta að gera. Kauplagsnefndin ákveður vísitöluna. Ef svona tilfærslur eiga sér stað, sem sýnilega leiða af sér ranglæti gagnvart öðrum mönnum í landinu, þá veit ríkisstj. væntanlega enn, að hún hefur löggjafarvaldið með meiri hl. á Alþ. Og það má þá breyta ákvæðunum um kauplagsnefndina, þannig að hún eigi að taka tillit til slíkra hluta, færa tekjuskattana inn í framfærsluvísitöluna, sem voru einu sinni inni í framfærsluvísitölunni, en hafa verið teknir út, og svo eru almannatryggingagjöldin tilfærð úr nefskatti og inn í tekjuskattana vitandi það, þegar það er gert, eins og hæstv. fjmrh. sagði

hér í heilagri einfeldni, að það verði til þess að lækka vísitöluna og við getum lækkað niðurgreiðslurnar.

Þetta er einn aumasti blekkingarvefur gagnvart almenningi, sem fram hefur komið í viðkvæmustu málum almennings, og alveg sérstaklega hjá mönnum, sem fjargviðruðust yfir því ekki alls fyrir löngu, að þáv. ríkisstj. frestaði greiðslum í 6 mánuði á tveimur vísitölustigum. Þetta er alvarlega hliðin á þessu máli, en ekki sú formshlið, þó að þetta frv., sem sennilega fer í n. og sofnar þar, af því að það er búið að ganga sér til húðar, valdi hér meiri eða minni umr.