14.02.1972
Efri deild: 46. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1383 í B-deild Alþingistíðinda. (1069)

169. mál, lagmetisiðja ríkisins í Siglufirði

Jón Árnason:

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð við þessa umr., sem ég vildi segja um þetta mál, sem hér er til umr. Mér finnst t.d. vanta í þetta frv., að þar sé tiltekið eitthvert ákveðið kjörtímabil, sem væntanlegir stjórnendur eða stjórn verksmiðjunnar ættu að sitja. Ég sé hvergi í þessu frv., að annað sé ákveðið, heldur en það, að kjósa eigi með vissum hætti ákveðna menn, en hversu lengi þeir eiga að sitja í stjórn, því hef ég ekki tekið eftir. Og ef svo er, að þetta vanti, þá finnst mér það náttúrlega sjálfsagt, að slíkt ákvæði þyrfti að koma inn í þetta frv., að það væri tiltekið kjörtímabil eða tímabil, sem þeir, sem væru kjörnir, sætu þarna, en ekki ævilangt, ef svo væri þá.

Það er talað um það, að það þurfi að vera nauðsynlegt fjármagn til stækkunar verksmiðjunnar. Nánar er ekkert tilgreint þar um. Í tilefni af því vildi ég spyrjast fyrir um það, hvort það sé ekki ætlunin, að framlag ríkissjóðs verði háð fjárveitingum í fjárl. eins og venja er um slíkar framkvæmdir, en ríkisstj. hafi ekki algerlega óbundnar hendur um það að verja fjármagni í þessa framkvæmd eftir sínum eigin geðþótta og án frekari afskipta Alþ. Ég mundi telja, að það væri eðlilegt, að Alþ. hverju sinni, annaðhvort sérstaklega eða þegar fjárlagaafgreiðsla ætti sér stað, kvæði á um, hve miklu fjármagni skyldi verja hverju sinni. Það er algengt, að enda þótt ríkið leggi fjármagn til einna og annarra framkvæmda, þá sé kveðið á um það, að það skuli vera eftir því, sem fjármagn er veitt til á fjárl. eða á annan hátt. Annars mundi ég telja, að þetta væri of laust og óeðlilega laust og ekkert æskilegt heldur fyrir ríkisstj. að hafa slíkar heimildir, hvorki í þessu tilfelli né öðrum hliðstæðum.

Hæstv. ráðh. talaði um afkomu þessarar verksmiðju, að hún hefði gengið allvel hin síðari ár, mun betur heldur en áður, og hagnaður verið af rekstrinum. Ég vildi því spyrjast fyrir um það, hver hagnaðurinn hefði verið af rekstrinum á síðasta ári. Það er okkur kunnugt öllum. að það er hæði með þessa verksmiðju og aðrar hliðstæðar, sem starfræktar eru hér í þessu landi, að það hefur skort verulega á það, að þær hafi nægilegan markað til þess að vinna fyrir og sölu fyrir sínar framleiðsluvörur. Nú hygg ég, að það skorti ekki á í dag hjá Siglóverksmiðjunni, að sá tækjabúnaður og sá vélakostur, sem þegar er búið að leggja í kostnað við við þessa verksmiðju, geri það fullkomlega kleift að verksmiðjan hafi getað framleitt nægilegt magn. Hins vegar er það staðreynd, að hún, eins og aðrar sambærilegar verksmiðjur, hefur ekki getað náð markaði í markaðslöndunum fyrir sína framleiðslu, nema að mjög takmörkuðu leyti. Hæstv. ráðh. talaði um það, að nú á þessu ári væri búið að tryggja eða kaupa um 120 tonn af síld, kryddsíld, til framleiðslunnar, og ég vil í því sambandi spyrjast fyrir um það, hvað liggja fyrir miklir sölusamningar um niðurlagða gaffalbita eða niðurlagða kryddsíld í þeim viðskiptalöndum, sem hefur verið samið við. Mér er kunnugt um, að það náðist samningur um nokkurt magn við Sovétríkin, eftir að lengi hafði staðið í þófi um þá samninga, a.m.k. tveggja, þriggja mánaða tímabil, og því miður hygg ég, að sá samningur sé, þegar tillit er tekið til þess, að það munu vera þrjár verksmiðjur í landinu sérstaklega, sem hafa lagt sig fram um það að búa sig út til þess að framleiða niðurlagða síld, þá sé þessi samningur, sem mér er kunnugt um, að náðist við Sovétríkin, mjög lítill og allt of lítill til þess að komið sé til móts við það magn, sem hér er þó rætt um, sem er engan veginn mikið, 12 þús. tunnur. Þegar við lítum svolítið til baka og vitum, hve mikil hefur verið síldarframleiðslan, þegar ekki hafa verið neitt sérstaklega mikil síldarár, hér áður fyrr a.m.k., þegar saltaðar voru 200–300 þús. tunnur, sjáum við af því, að hér er ekki um stórfellt magn að ræða, en þó væri það verulegur árangur, ef hægt væri að tryggja, þótt ekki væri meira magn af þessari vöru, tryggja sölu á þessu eða svipuðu magni af þessari vöru.

Þá vil ég að lokum minnast á það, sem fram kom í ræðu hæstv. ráðh., að til stæði, að á Alþ. yrði á næstu dögum lagt fram frv. í sambandi við sölumál niðursuðuiðnaðarins. Mér var kunnugt um það, að nokkru fyrir þinghlé taldi sú nefnd, sem falið var að vinna að undirbúningi frv. um sölumál niðursuðuiðnaðarins, sig hafa lokið störfum og kallað til fundar við sig þá framleiðendur í landinu, sem hafa verið að ræða um fyrirkomulag og hugsanlegt sölusamlag á þessari vöru með það fyrir augum að koma einhverju svipuðu formi á það og á sér stað hjá öðrum sjávarútvegsgreinum okkar, hæði hraðfrysta fiskinum, saltfiskinum, skreiðinni og öðrum þeim vörutegundum, og okkur var þá tjáð, að það væri meiningin að leggja þetta frv. fyrir Alþ. áður en þinghlé hæfist. En svo varð þó ekki, og nú er liðinn nokkur tími síðan Alþ. hóf störf að nýju og ekki hefur þetta frv. enn séð dagsins ljós hér í sölum Alþ. En eftir því sem hæstv. ráðh. tjáði okkur áðan, er þess að vænta, að það komi fyrir þingið núna einhvern næstu daga, og ég vil fagna því, því að ég tel, að þetta sé eitt af þeim málum í sambandi við okkar útflutningsframleiðslu, sem sé mjög brýn nauðsyn á að taka föstum tökum og reyna að vinna að með verulegum úrbótum á skipulagningu í sambandi við sölumál niðursuðuiðnaðarins.