05.05.1972
Efri deild: 76. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1395 í B-deild Alþingistíðinda. (1104)

38. mál, gjaldþrotaskipti

Frsm. (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. Allshn. hefur athugað og rætt þetta frv., sem hér er til umr. og fjallar um breytingu á lögum um gjaldþrotaskipti. Þessi löggjöf er orðin 43 ára gömul, er að stofni til frá 1894, en hefur fylgt nokkuð ákvæðum þeim, sem um sama efni gilda á hinum Norðurlöndunum. Nefnd var kjörin á sínum tíma til þess að endurskoða dómaskipun landsins og meðferð dómsmála yfirleitt. Hún fékk til athugunar lagareglur um dómstólameðferð á gjaldþrotamálum. Áður hafði Verzlunarráð Íslands vakið athygli dómsmrn. og saksóknara ríkisins á vandkvæðum við meðferð þessara mála og sérstaklega, hversu alvarlegur dráttur væri oft á afgreiðslu þeirra, sem raskað hefði mjög verulega oft og tíðum hagsmunum skuldheimtumanna gjaldþrota aðila.

Prófessor Theódór B. Líndal samdi upphaflega á vegum nefndarinnar drög að frv. um þetta efni. Síðar tók þessi nefnd aftur til yfirvegunar þessi drög, sem prófessorinn hafði samið, og enn fremur Dómarafélag Íslands. Á þessari leið málsins voru ýmsar aths. gerðar og þær flestar teknar til greina. Þannig hefur þetta frv. verið undirbúið mjög rækilega, einmitt af þeim aðilum, sem gerst þekkja til slíkra mála og ekki sízt þá til framkvæmdar þeirra. En ekki er með þessu frv. stofnað til heildarbreytingar í þessum málaflokki, heldur einkum tekin til meðferðar þau ákvæði laganna, sem varða rannsóknir eða sakamálsrannsóknir í sambandi við gjaldþrot, og réttarfarsreglur að því lútandi.

Nú vil ég leyfa mér að drepa á helztu ástæður til breytinganna, sem gerðar eru í frv. frá núgildandi lögum. Samkv. ákvæðum laganna, sem nú gilda, á að hefja tafarlausa sakamálsrannsókn á hendur gjaldþrota manni, hvernig sem á stendur. Það ber vissulega æðioft við, að um misferli af hálfu gjaldþrota manns eða gjaldþrota aðila er að ræða í sambandi við gjaldþrot, en það er engan veginn og fráleitt að ætla, að það sé alltaf. En sú almenna regla gildir í réttarfari okkar, að eigi skuli hefja sakamálsrannsókn nema því aðeins, að rökstuddur grunur sé um misferli eða meint misferli, og þessi regla hefur hlotið staðfestingu í lögum um meðferð opinberra mála frá árinu 1961 og þykir sjálfsagt að fylgja henni einnig í gjaldþrotamálum. Frv. gerir því ráð fyrir þeirri breytingu, að þetta ákvæði laganna falli niður. Nú er það alkunna, að sakamálsrannsóknir eru kostnaðarsamar mjög og fyrir þrotamann til óþæginda, svo að ekki sé nú fastara að orði kveðið. Það er því fullkomlega ljóst, að ekki eigi að stofna til slíkra aðgerða, nema sérstaklega gefist til þess tilefni, sbr. þá reglu, sem ég drap á áðan. Nú er það svo, að eldri löggjöf um sakamálameðferð hefur breytzt mjög á gildistíma gjaldþrotaskiptalaganna, sem eru eins og ég sagði, frá 1929. T.d. hefur sjálfstætt ákæruvald komið til, þ.e. saksóknari ríkisins, og ákvæði í frv. eru einmitt færð til samræmis við þá meginbreytingu. Eitt er það ákvæði núgildandi laga, sem segir m.a., að sakborningi sé skylt að svara og knýja megi hann til játningar, jafnvel með frelsisskerðingu. Þess konar regla er alls ekki lengur viðurkennd í íslenzkum rétti almennt, og því þykir sjálfsagt að fella ákvæði af þessu tagi niður. Það verður að telja, að hinar almennu réttarfarsreglur séu fullkomlega viðhlítandi við rannsóknir þrotamála eins og annarra mála. Að vísu er það, að þrotamál eru oft af stærri gerðinni, en það þykir ekki hlýða, að sams konar meðferð sé ekki á þeim málum og öllum öðrum af þessari tegund. Svo eru æskilegar breytingar á löggjöfinni, sem mættu leiða til þess, að hraðað yrði meðferð mála og greiðari gangur yrði til fullnaðarafgreiðslu þeirra, og í raun og veru má segja, að það gildi ekki aðeins um gjaldþrotamál, heldur almennt um dómsmál, og eins og við vitum öll, hefur verið lengi kvartað yfir því, að gangur dómsmála sé ekki nægilega greiður, og það er töluvert mikið til í því og koma þar margar orsakir til. Því er stefnt að því í frv. að koma þessum málum betur og hraðar fram en verið hefur. Þannig er það og hefur verið samkv. lögum, að skiptaráðandi, sem fer með gjaldþrotamál, fer með allar upphafsgerðir, kynnir sér hag búsins, sér um, að hagsmunir þess verði sem bezt tryggðir, því að við meðferð gjaldþrotamála eru það í raun og veru fyrst og fremst hagsmunir viðskiptamanna, sem hafðir eru fyrir augum, að þeir fái sem mestu af sínum kröfum, réttmætu kröfum framgengt. En vissulega hefur skiptaráðandi líka í huga hugsanlegt saknæmt misferli og við ítarlegar upphafsathuganir má það nú oft verða, að slíkt misferli liggi nokkurn veginn í augum uppi, þó að það sé engan veginn alltaf.

Skiptaráðandi hefur á hendi allar frumrannsóknir og einnig rannsókn fyrir dómi, og hefur skiptaréttur þær skyldur og þau réttindi sem sakadómur væri. Þetta er breyting frá fyrri löggjöf, því að áður hefur sakadómari haft slíka rannsókn með höndum, þ.e. sakamálshliðina. Þessi breyting, að skiptaréttur taki við þessari frumrannsókn, þessari sakamálsrannsókn úr hendi sakadóms, þykir sjálfsögð m.a. vegna þess, að skiptaráðandi hefur frá upphafi öll gögn málsins í hendi, eða a.m.k. hefur tækifæri til að afla þeirra og fylgjast með þeim. eftir því sem þau kunna fram að koma, hefur þannig kynnt sér allar aðstæður og haft það samband við skuldheimtumenn utan réttar og innan, sem leiða má bezt í ljós, hvernig háttum gjaldþrota manns er komið. Það verður því að teljast mjög eðlileg breyting, að þessi háttur sé hafður á, að skiptaráðandi og hans menn hafi með sakamálsrannsóknina að gera allt til loka.

Ef ekkert kemur upp af því, sem saknæmt misferli mætti telja, þá lýkur skiptum af hálfu skiptaráðanda, en við það er að bæta, að skuldheimtumenn þurfa að sjálfsögðu að samþykkja slík skiptalok. En leiði rannsókn skiptaráðanda í ljós, að um saknæmt misferli sé að ræða, sendir hann samkv. ákvæðum í frv. öll gögn málsins til saksóknara ríkisins og þá kemur tvennt til, frekari rannsóknar er ekki talin þörf eða í annan stað, að saksóknari sendir skiptaráðanda málið aftur og honum er falið að halda fram rannsókn enn frekar. Þegar skiptaréttur fer með mál af þessu tagi, rannsóknarmái. nefnist hann ekki lengur skiptaréttur, heldur rannsóknardeild skiptaréttar. Og þessi rannsóknardeild lætur fram fara bókhaldsrannsókn, ef henni sýnist svo. Áður var það, að dómari eða sakadómur hafði með þau mál að gera, bókhaldsrannsókn o.s.frv.

Þegar svo rannsóknardeildin hefur að hennar áliti gengið til fulls frá rannsókn málsins, þá er það enn sent til saksóknara ríkisins. Hann ákveður svo síðan, hvort út verði gefið ákæruskjal og sakamál höfðað á hendur þrotamanni. Og ef það er ákvörðun saksóknara að höfða mál, þá fer málið yfir í hendur viðkomandi sakadómara, sem fer með það og að sjálfsögðu þá aðallega, að hann dæmir í málinu eftir þeim gögnum, sem þegar hafa komið fram í rannsóknardeild skiptaréttarins.

Þetta eru í raun og veru höfuðbreytingar. Aðrar breytingar eru af hreint tæknilegu tagi, og ég mun ekki fara út í það mál. En þessi breyting að taka frumrannsókn úr hendi sakadómara og fá hana í hendur skiptarétti eða rannsóknardeild skiptaréttar felur það m.a. í sér og er til mikils hagræðis að koma í veg fyrir margs konar tvíverknað, sem oft og iðulega hefur átt sér stað og ekki sízt, að sakadómari hefur bara ekki haft þá aðstöðu til endurskoðunar á málinu, sem skiptaráðandi eða skiptaréttur hefur aflað sér frá öndverðu. Hins vegar hefur svo sakadómur eða sakadómari, þegar til saksóknar sjálfrar kemur, mun meiri reynslu á sviði þessara mála, þ.e. sakamála, heldur en skiptaráðandi, sem fjallar að mestu, svo sem kunnugt er, um verkefni á einkamálaréttarsviði. Þetta á að sjálfsögðu einkum við Reykjavík og um nágrenni Reykjavíkur, þar sem verkaskipting er. Hins vegar er ekki um slíka verkaskiptingu að ræða víðast hvar um land, þar sem sami embættismaðurinn er hvort tveggja skiptaráðandi og sakadómari. En gjaldþrotamál eru svo sem alkunna er langflest í Reykjavík og á svokölluðu Stór-Reykjavíkursvæði.

Ég hef þá í sem stytztu máli reynt að gera grein fyrir þeim efnisbreytingum, sem frv. þetta gerir ráð fyrir. Þær eru allar líklegar til þess, að komið verði á meira samræmi við nútíma réttarfarsreglur og auk þess með þeim stefnt að því, að öllu fljótvirkari meðferð þessara mála eigi síður en annarra dómsmála komi til og hraðinn verði mun meiri á allri afgreiðslu. Hitt er svo allt annað mál, að mörg fleiri atriði í hinum gömlu gjaldþrotaskiptalögum krefjast íhugunar, og í raun og veru eru það margir, sem eru þeirrar skoðunar, að þessi löggjöf þurfi að endurskoðast í heild og þá ekki sízt sú hliðin, sem snýr að aðstöðubótum í þeim embættum, sem með þennan ört stækkandi málaflokk fara. En þessi atriði verða að bíða annars og betri tíma og frekari athugunar.

Allshn. hefur shlj. lagt til að mæla með samþykkt frv. eins og það liggur fyrir.