15.05.1972
Neðri deild: 80. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1517 í B-deild Alþingistíðinda. (1317)

209. mál, Sölustofnun lagmetisiðnaðarins

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Ég hafði nú talið mér trú um það, að þm. almennt væru mjög hlynntir þeirri stofnun, sem hér er ætlunin að setja á laggirnar, og hefðu trú á því, að hún yrði til framdráttar iðnaði, sem allt of lengi hefur verið á mjög frumstæðu stigi hér á landi. En ég verð að segja það, að málflutningur hv. þm. Matthíasar Bjarnasonar og tilraunir hans til þess að tefja málið hér á lokastigi bera ekki vott um það, að hann hafi áhuga á framgangi þessa máls.

Ég ætla ekki að fara að efna hér til neinna meiri háttar umr., vegna þess að ég hef mikinn áhuga á því, að hægt verði að koma þessari stofnun á laggirnar á þessu þingi og þar geti tekizt sú góða samvinna á milli ríkisvalds og framleiðenda, sem ég geri mér ekki aðeins vonir um, heldur tel mig hafa örugga vitneskju um, að muni verða afleiðing af þessari lagasetningu. En hv. þm. beindi til mín nokkrum fsp., sem ég skal leitast við að svara.

Í þeirri nefnd, sem samdi frv., komu fram þrenns konar sjónarmið um stjórn stofnunarinnar. Eins og menn hafa séð, er gert ráð fyrir, að ríkissjóður leggi fram allt stofnfjárframlag eins og það leggur sig, og á þeim forsendum kom fram sú hugmynd hjá einum nm., Ragnari Arnalds, að samvinnan yrði í því formi til frambúðar, að ríkið færi með meiri hl. í þessari stofnun. Hjá öðrum nm., Steingrími Hermannssyni, kom fram sú hugmynd, að þarna yrðu þrír fulltrúar framleiðenda en tveir fulltrúar ríkisins. Hjá þriðja nm., Ólafi Hannibalssyni, kom svo fram sú miðlunartill., sem felst í þessu frv., og á hana var fallizt af hinum aðilunum og um hana er svo full samstaða innan ríkisstj. Þannig gekk þetta fyrir sig og þetta er ekkert dularfullt á neinn hátt. Þetta er ósköp eðlilegt, að þegar koma fram mismunandi sjónarmið, þá reyna menn að aðlaga sig hver öðrum og það er það, sem hefur gerzt í þessu máli.

Till. hv. þm. um, að þessi skipan breytist eftir þrjú ár er í sjálfu sér algerlega órökrétt nema hann flytji þá hliðstæða brtt. við 5. gr., þ. e. um það, að fjárframlög ríkisins standi ekki nema í þrjú ár. Ef hv. þm. er reiðubúinn til að bera fram slíka brtt., þá tel ég, að hann sé hér með rökrétta afstöðu, en með því að fara fram á einhliða fjárframlög frá ríkinu í fimm ár, þá getur hann ekki komið með þessa till. sína um, að einkaaðilarnir fái meiri hl. í stjórninni eftir þrjú ár. Hitt má vel vera, að þessi hv. þm. hafi ekki hug á því, að þarna komi þau ríkisframlög, sem boðin eru fram, a. m. k. virtist mér það í sambandi við afar neikvæð orð, sem hann lét falla um 6. gr. Mér virtist, að það væru allt önnur sjónarmið en áhugi á gengi niðursuðuiðnaðarins, sem réð þeim málflutningi, sem þar var uppi hjá þessum hv. þm.

Upphaflega var gert ráð fyrir því í 6. gr., að þarna yrði um að ræða útflutningsgjöld af miklu fleiri vörum en niðursoðnum og niðurlögðum sjávarafurðum og söltuðum grásleppuhrognum, þ. e. að þarna yrðu tekin útflutningsgjöld af öllum hráefnum, sem hægt væri að nota hér innanlands. Það var upphaflega till. En þessu var breytt í meðförum Ed. einmitt af þeim ástæðum, sem hv. þm. minntist á, að þarna er um að ræða sjóð, sem greiðir vátryggingargjöld af fiskiskipum og sá sjóður er févana. En engu að síður var þessi hugmynd alveg rökrétt að sporna gegn því, að hráefni séu flutt óunnin úr landi og reyna að tryggja það, að þau séu í staðinn unnin hér innanlands og láti þannig þjóðarbúinu í té miklu meiri verðmæti.

Hv. þm. spurði mig einnig að því, hvernig ætti að leysa vanda þessa sjóðs, sem stendur undir vátryggingu fiskiskipa. Þetta er nú einn liðurinn í þeirri hrollvekju, sem núv. stjórn tók við. Hún tók við galtómum sjóðum á ákaflega mörgum sviðum, og þ. á m. var þessi sjóður galtómur eftir ráðsmennsku fyrrv. ríkisstj., ráðsmennsku, sem þessi hv. þm. ætti að vita mjög vel um, vegna þess að hann er nátengdur einmitt þessum tryggingamálum. Og mér finnst, að hann hefði átt að taka það mál upp við sína flokksbræður í fyrrv. ríkisstj., áður en hún skilaði af sér þessum galtóma sjóði. En eins og hv. þm. gat um, þá hefur verið unnið að undirbúningi þessa máls og það er í athugun hjá ríkisstj. og auðvitað verður að leysa þennan vanda. Það er okkur gersamlega ljóst. En það lendir á öðrum heldur en flokksbræðrum þessa hv. þm. að leysa hann, því að þeir höfðu auðsjáanlega ekki neina fyrirhyggju til þess að gera það.