21.04.1972
Neðri deild: 64. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1581 í B-deild Alþingistíðinda. (1427)

259. mál, jöfnun á námskostnaði

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Hv. 5. þm. Austf. taldi mig hafa farið hér með öfugmæli í ræðustóli áðan. Ég man nú ekki nákvæmlega, hvaða orð ég viðhafði, en sé það rétt, sem hv. þm. segir, að ég hafi talið fráfarandi ríkisstj. hafa haft forustu í þessu máli, þá vil ég segja það, að enda þótt búið hafi verið að ræða þetta mál á ýmsum vettvangi, áður en aðgerðir hófust, þá er það óumdeilanlegt, að fyrrv. ríkisstj. tók fyrstu skrefin í því máli að rétta hlut þeirra nemenda, sem í strjálbýli búa, og ef það er ekki forusta um aðgerðir, þá veit ég ekki, hvað það er.

Hins vegar er það rétt, að undir forustu þeirrar ríkisstj. náðist ekki fullur jöfnuður, og það tók ég einnig fram. Ég vænti þess, að með því skrefi, sem væntanlega er verið að stíga með samþykkt þessa frv., þá fari svo, að sá jöfnuður náist, sem ekki hafði tekizt að hrinda að fullu í framkvæmd á fyrri árum. Það er engin nýlunda, að fyrstu aðgerðir, sem gerðar eru í einstökum málum til þess að rétta hlut þessa aðila eða hins í þjóðfélaginu, verði ekki til þess, að fullur jöfnuður náist. Það er jafnan svo, að það þarf að þreifa sig áfram í málum og rekast kannske á ýmsa agnúa — atriði, sem sigla þarf fram hjá, og kanna þarf, með hvaða hætti bezt er að hrinda máli í framkvæmd. Og það var svo með þetta mál að það varð ekki gert í einu vetfangi, sem stefnt er að. Með því að nú hefur fengizt reynsla í þessum efnum af tveggja til þriggja ára starfi, þá er þess að vænta, að á grundvelli þeirrar reynslu megi byggja aðgerðir, sem megi verða til þess, að fullur jöfnuður náist, og þá verðum við væntanlega báðir ánægðir, ég og hv. 5. þm. Austf.