05.05.1972
Neðri deild: 71. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1617 í B-deild Alþingistíðinda. (1478)

270. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1972

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal ekki verða langorður, enda vil ég eins og aðrir stuðla að því, að þetta mál geti komizt til n. á þessum fundi. Ætlun mín er heldur ekki að ræða hér almennt um þá framkvæmdaáætlun, sem fyrir liggur. En ég vil byrja á því að þakka hæstv. fjmrh. fyrir þá yfirlýsingu, sem hann gaf, að fjármál Byggðasjóðs mundu verða tekin til nánari athugunar síðar á árinu. Á því hygg ég, að sé full þörf, að það verði gert, og í því sambandi vil ég minna á það, að í lögum um Framkvæmdastofnun ríkisins hefur Byggðasjóður heimild til 300 millj. kr. lántöku á árinu eða sem því svarar með ríkisábyrgð og þarf að líkindum fyrirgreiðslu til þess að afla sér þess fjár. En aðalerindi mitt hingað í ræðustólinn var að beina til hv. fjhn., sem fær þetta mál til meðferðar, tveim atriðum í sambandi við þetta mál sem ég vil biðja hana að taka til athugunar.

Í 6. gr. frv. er gert ráð fyrir, að varið verði til vatnsorkurannsókna 15 millj. kr. af lánsfé. Um þetta segir í grg., með leyfi hæstv. forseta:

„Til viðbótar þeim hluta fjárveitingar til Orkustofnunar, er gengur til vatnsorkurannsókna, er hér gert ráð fyrir að afla 15 millj. kr. lánsfjár. Eru þá einkum höfð í huga sérstök stór rannsóknarverkefni, svo sem á Þjórsár- og Hvítársvæði.“

Í þessu sambandi vildi ég rifja það upp til athugunar fyrir hv. n., að hæstv. raforkumálaráðherra hefur nú fyrir nokkru gefið yfirlýsingu um það, að unnið verði að gerð fullnaðaráætlunar um virkjun Dettifoss í Jökulsá á Fjöllum, og gert ráð fyrir, að þessari fullnaðaráætlun verði lokið á næstu tveimur árum, 1972 og 1973. Nú sakna ég þess, að í þessari grg. skuli ekki sérstaklega að því vikið, að bróðurpartinum af þessu fé verði varið til fullnaðaráætlunar um virkjun Dettifoss, og vil ég biðja n. að athuga það mál sérstaklega, hvort ekki þurfi að víkja að þessu í nál., að séð verði fyrir því, að framkvæmd verði yfirlýsing hæstv. ráðh. um þetta mál.

Hitt atriðið, sem ég vil leyfa mér að beina til n., er varðandi þá fjárupphæð, sem ætluð er til Norðurlandsáætlunar, sömuleiðis í 6. gr., sem gert er ráð fyrir, að verði 100 millj. kr. Ég vil aðeins um þetta segja það og biðja n. að athuga, að miðað við þau gögn, sem fyrir liggja um framkvæmdaþörf í landshlutunum, þá er hér um allt of lága upphæð að ræða og hlýtur að minni hyggju að byggjast á vangá. Ég skal ekki fara fleiri orðum um það. Ég hef rætt þetta efni nú nýlega við hæstv. samgrh., og að sjálfsögðu verður þetta nánar rætt við umr. um vegáætlunina, sem bráðum fer fram, en hér þarf að gera leiðréttingu á. Annars vil ég vekja athygli n. á því, að í raun og veru hefur verið um að ræða tvær Norðurlandsáætlanir, það, sem kalla má eiginlega Norðurlandsáætlun, sem er áætlun um vegamál í Norðlendingafjórðungi, og hins vegar það, sem kalla mætti Norðurlandsáætlun hina meiri, þar sem tekinn er til viðbótar hluti af Vestfjörðum, þ. e. Strandasýsla, og nyrzti hluti Norður-Múlasýslu. Um þetta hvort tveggja eru til áætlanir um framkvæmdaþörf. Ég vil gera ráð fyrir því, að þessi upphæð eigi aðeins við Norðurlandsáætlun hina minni, þ. e. Norðlendingafjórðung. En jafnvel þó að svo væri, þá sýnist mér, að hér sé um of lága upphæð að ræða. Þessu vil ég nú beina til n., en ekki ræða að öðru leyti um Norðurlandsáætlunina. Það kann að gefast tækifæri til þess síðar og þá að gera grein fyrir þeim rökum, sem ég tel vera fyrir hendi um þetta efni.