13.05.1972
Neðri deild: 77. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1637 í B-deild Alþingistíðinda. (1489)

270. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1972

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég kvaddi mér ekki hljóðs til að ræða þá framkvæmdaáætlun almennt, sem fyrir liggur nú til 2. umr. En við 1. umr. málsins gerði ég þá aths. við 6. gr. frv., að ég teldi þá upphæð, sem væri ætluð til Norðurlandsáætlunar, um 100 millj. kr., allt of lága miðað við þau gögn, sem fyrir liggja, og það, sem annars staðar hefur verið gert á sama sviði.

Ég beindi til hv. n. ósk um það, að þetta yrði sérstaklega tekið til athugunar. Nú sé ég, að hv. n. leggur til að þessi upphæð til Norðurlandsáætlunar sé hækkuð um 20 millj. kr., þannig að heimilt verði að taka aukalán sem því svarar. Og vil ég þakka n. fyrir þá till. Hins vegar tel ég enn, að upphæðin sé þrátt fyrir þessa viðbót ekki í samræmi við þau gögn, sem fyrir liggja, en mun geyma mér að ræða það mál þangað til vegáætlunin kemur til umr., væntanlega í næstu viku.