17.05.1972
Efri deild: 85. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1653 í B-deild Alþingistíðinda. (1503)

270. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1972

Frsm. 1. minni hl. (Jón Árm. Héðinsson):

Herra forseti. Eins og fram kom hér áðan hjá frsm. meiri hl., varð ekki samstaða í fjhn. d. um frv. Við skilum þó ekki brtt., eins og hann gat um, og mun ég koma að því nánar. Hins vegar kemur fram í áliti okkar, að við munum ekki greiða atkv. á móti frv. og munu stuðningsflokkar hæstv. ríkisstj. bera einir ábyrgð á afgreiðslu þess. Ég ætla nú með nokkrum orðum að fjalla um þetta, en því sleppti ég, er frv. var til 1. umr.

Þetta er í annað sinn núna á þessu hálfa ári, sem hæstv. ríkisstj. leitar eftir mjög stórum heimildum til að selja spariskírteini. Hún lagði fyrst fram frv. nr. 71 á s. l. ári, í des. að því er mig minnir, og leitaði þá eftir heimildum fyrir 200 millj. kr. Það urðu alllangar umr. í sambandi við þetta frv. og bentum við þá á það, að á öllum valdatíma hinnar slæmu viðreisnarstjórnar, eins og hún var títt nefnd þá af þáv. stjórnarandstöðu en núv. stjórnarflokkum, voru á árunum 1964–1971 alls gefnar út heimildir til að selja skuldabréf fyrir 787 millj. og mest í einu 1970, 132 millj. kr. Þeir eru miklir afreksmenn, núv. ráðh., og er ekki nema gott um það að segja. Þetta eru hraustir menn og vilja halda þessu áfram og eflast mjög, því að salan gekk vel og er komin upp í 500 millj. Næsta skref gæti þannig orðið mikið á annan milljarð með næstu haustdögum, ef stefnan verður óbreytt.

Hvað sem þessu líður er gaman að geta framkvæmt mikið og gert mikið á stuttum tíma. Allir eru ánægðir með það. En því miður fylgja stundum þeirri gleði, sem verður af framkvæmdum, smáannmarkar og vaxtarverkir og ég held, að flestar ríkisstj., sem hafa ráðizt í mikið á Íslandi, hafi fundið fyrir slíkum vaxtarverkjum. Þessir vaxtarverkir eru fyrst og fremst verðbólga og spenna á launamarkaði, sem hefur orðið flestum ef ekki öllum ríkisstj. erfið í skauti og fellt sumar, og þarf ég ekki að rekja þá sögu nánar.

Það kom fram í útvarpsumr. og á því var tæpt hér áðan, að við værum heldur litlir karlar í stjórnarandstöðunni að geta ekki bent á neitt til sparnaðar, fyrst við værum svona hræddir við miklar framkvæmdir. Nú ráðum við ekki gerð fjárlaga, stefnu í fjárlögum eða ráðstöfun þess fjármagns, sem hér er verið að leita heimilda til að ráðstafa. Hins vegar leyfi ég mér, af því að hæstv. fjmrh. er líka landbrh., að benda á, að sú stefna að halda áfram miklum útflutningsuppbótum á landbúnaðarafurðir getur verið hættuleg auk mikils stuðnings við framkvæmdir í því sambandi. Ekki svo, að ég ætli að fara að fjalla hér sérstaklega um landbúnaðinn og það megi misskilja orð mín þannig, að ég sé á móti honum, öðru nær, en það er með landbúnaðinn eins og aðra starfsemi, að það er heilbrigðast, þegar til lengdar lætur, að hann standi undir sjálfum sér, en sé ekki á mikilli ríkisframfærslu. Þetta veit ég, að forsvarsmenn landbúnaðarins eru mér sammála um, en svo mikil umsvif eru í landbúnaði hér á Íslandi og framkvæmdaþörf, að við höfum allir verið sammála um það, að rétt sé að hafa góð stofnlán í landbúnaði og veita líka framkvæmdastyrki. Hins vegar deilum við nokkuð um þá stefnu að veita mörg hundruð milljónir í beina útflutningsstyrki á umframframleiðslu. Á það hefur nú ekki verið hlustað, sem við segjum um það efni í Alþfl., og get ég sleppt þeim kafla í sambandi við þetta.

Varðandi till. um sparnað má benda á, að það þarf að skoða ráðstöfun þessa fjármagns og þarfir hinna einstöku framkvæmdaliða í heild, þá fyrst er hægt að gera till. Það, sem ég óttast fyrst og fremst, er það, að eftirspurn eftir vinnuafli vegna mjög mikilla framkvæmda geti orðið það mikil, að vissir þættir framleiðslunnar verði í erfiðleikum, og það hefur þegar bryddað á því á þessu vori. Nú er gleðilegt, að við þurfum ekki að kvíða atvinnuleysi, og má ekki blanda því saman út af fyrir sig. Ef það er rétt hermt t. d., að framkvæmdir miklar á Keflavíkurflugvelli þurfi fleiri tugi manna og það sé leitað eftir góðu vinnuafli og það sé vinna á vöktum dag og nótt, þá verða þessir menn, sem þeirra framkvæmda njóta, með vinnu sinni örugglega miklu, miklu launahærri heldur en margir við sjávarsíðuna og í vélsmíðum, og eftir þessu vinnuafli er sótzt. Það sögðu mér tveir menn, sem reka stórar vélsmiðjur, önnur vélsmiðjan hefur hátt í 40 manns í vinnu núna og hin rúmlega 20, að þeir væru búnir að auglýsa eftir vinnuafli dag eftir dag. Það er ekki aðeins, að þeir hafi misst menn, sem ætla að fást við hluta af þessum framkvæmdum þarna, að því er þeir tjá mér, og vera á vinnuvélum, heldur fá þeir enga menn, og það er þessi hætta við framkvæmd á verkunum, sem við erum að gagnrýna fyrst og fremst. Og sama kemur í ljós við sumar vegaframkvæmdir. Þær eru boðnar út. Við munum fá í Sþ. bráðum endanlegar till. fjvn. í því sambandi og er þar miklu fjármagni ráðstafað. Við erum allir sammála um nauðsyn á stórkostlegum framkvæmdum fyrir þjóðfélagið, en það skiptir jafnan miklu máli, og er sama hvaða ríkisstj. á í hlut, að vel takist til um framgang þeirra, það sé ekki uppboð á vinnumarkaðinum. því að þegar dæmið verður endanlega gert upp, þá getur það orðið viðkomandi ríkisstj. erfitt og dýrt. Það sýnir reynslan.

Eins og kemur fram í nál. mínu, hefur það oft komið fram hér á hæstv. Alþ., að allar framkvæmdir nú eiga að vera afar vel skipulagðar. Svo vel eiga þær að vera skipulagðar, að allt, sem hefur verið gert hér áður, bliknar eða á að blikna, samanber orð stjórnarherranna. Nú er ég svo ákveðinn í nál., að ég dreg í efa, að þetta sé rétt, og hef ekki enn fundið og séð, að mikil breyting hafi orðið hér á frá fyrri stefnu og þeirri uppbyggingu, sem hefur átt sér stað í því sambandi varðandi áætlanagerð. Framkvæmdastofnunin er ung að árum og á vonandi eftir að sýna getu sína í því efni að raða niður framkvæmdum af skynsemi og kaldri rökhyggju. eftir þörfum og nauðsyn, þannig að atvinnulífið verði í jafnvægi og sá ótti, sem við berum í brjósti um of mikla spennu og uppboð á vinnumarkaðinum, sé ástæðulaus. Það væri gott, ef slíkt tækist, en því miður er ekkert enn komið fram, sem bendir til þess, að slíkt muni vera á döfinni.

Þessi lánsheimild upp á 500 millj. er með sama hætti og verið hefur undanfarin ár. Það er hér gerð grein fyrir því í frv., hvernig á að ráðstafa þessu fjármagni, og það þarf meira í viðbót. Spariskírteinin verða gefin út á nafn, en þau eru eins og verið hefur undanfarin ár ekki framtalsskyld og hefur það oft verið gagnrýnt og var mjög hart gagnrýnt af fyrrv. stjórnarandstæðingum, en þeir treysta sér enn ekki til að fylgja sínum orðum eftir og hafa þau framtalsskyld. Ég skal ekki fara að munnhöggvast við þá um það atriði, en þegar svona miklar fjármagnshreyfingar eiga sér stað í þjóðfélaginu, fer nú ekki að verða óeðlilegt, ef áfram heldur á þessari braut? Kemur ekki að því, að það sé rækilega athugað, hvort þetta skuli framtalsskylt eða almennt sparifé á móti þessum spariskírteinum fái sérstaka viðurkenningu? Ég held, að það sé kominn tími til þess, að það sé alvarlega athugað. Það sé ekki aðeins það fólk, sem kaupir þessi spariskírteini fyrir sparifé sitt, eða aðrir lífeyrissjóðir, sem fái verðtryggingu, það þarf að koma til almennt séð. Sjálfsagt eru ýmsir örðugleikar í þessu sambandi, en ég vil beina því til hæstv. ráðh., að hann hugleiði mjög alvarlega möguleika á þessu. Það yrði sannarlega afrek, sem munað yrði eftir.

Svo er annað atriði í sambandi við sölu á svona hárri upphæð spariskírteina á stuttum tíma, en það er fjármagnshreyfingin úr viðskiptabönkunum. Hvort sem mönnum líkar það betur eða verr þá kemur það niður á bönkunum eitthvað misjafnlega, en á sumum áreiðanlega mjög mikið. Auðvitað er tilgangurinn með því að selja svona háa upphæð spariskírteina í skyndi að vissu marki sá að draga úr verðþenslunni og gera viðskiptabönkunum erfiðara fyrir að þjóna vissri þjónustu, víxlasölu eða fjármagnsfyrirgreiðslu varðandi kaup á ýmsri neyzluvöru. Út af fyrir sig getur það verið eðlileg ráðstöfun miðað við þá þenslu, sem á sér stað í dag, mikla eftirspurn eftir vörum og innflutningi, en þetta þyrfti að gerast í meira samhengi, vera betur skipulagt fram á við, þannig að bankarnir kippi ekki að sér höndum alveg fyrirvaralaust gagnvart almenningi í landinu, sem nemur stórum fjárhæðum í sölu víxla eða kaupum á víxlum, því að það kemur mörgum illa og það kemur mörgum mjög illa einmitt, sem hafa staðið í að fá sér íbúðarhúsnæði, vegna þess að það er sagt, að mjög erfitt sé að fá vissu fyrir afgreiðslu lána til húsbygginga núna hjá húsnæðismálastjórn vegna fjármagnsvöntunar þar, en menn hafa getað fengið stutt lán út á fasta afgreiðslu hjá þeirri stofnun. Nú getur það verið nauðsynlegt að draga úr húsabyggingum, en það er líka jafnhættulegt að gera það í einu vetfangi. Það ber sem sagt að sama brunni, að heildarstjórn á þessum málum er nauðsynleg, þegar til lengdar lætur. Vissar hreyfingar munu alltaf eiga sér stað innbyrðis. Þær eru tengdar árferði. Vertíðin er nú þannig í vetur, að afli er að vísu svipaður og verið hefur undanfarin ár, en dreifing aflans er miklum mun jafnari um landið en hefur verið undanfarin ár og það mun segja til sín í eftirspurn eftir ýmsri neyzluvöru. Hér á þessu þéttbýlissvæði er afli verulega lítill. en þó nokkuð jafn á bátana, 350–450 tonn og rétt yfir það, en á Vesturlandi og Norðurlandi hefur afli verið nokkuð góður og sums staðar ágætur, þannig að dreifing er mun meiri á vetrarvertíð, sem ég tel mjög jákvætt og mun stuðla að því, að ekki verður eins geysileg eftirspurn eftir vinnu og þjónustu á þessu þéttbýlissvæði, en jafnari um allt land.

Ráðstöfun á þessu fjármagni, eins og ég sagði áðan, er hér sundurliðuð í þskj. og þarf ég ekki að fjalla um það sérstaklega. Hluti fer til beinna framkvæmda, einnig á að taka sérstakt erlent lán til fjármögnunar á mikilvægum framkvæmdum og svo fer auðvitað nokkur hluti til greiðslu á eldri lánum, þ. e. til spariskírteina frá fyrri ríkisstj., og er þetta í stórum dráttum sundurliðað á þskj.

Að lokum vil ég aðeins segja, að það er ósk mín, að þó að sala þessara skírteina gangi mjög vel og framkvæmdir geti hafizt eins og gerð er grein fyrir í frv., þá verði niðurröðun framkvæmda, því að það er orðið vinsælt að tala um slíkt í dag, niðurröðun framkvæmda verði þannig, að það trufli framleiðslustarfsemina sem allra minnst. Það er höfuðatriði og það mun verða jákvætt að geta komið hlutunum þannig fyrir, vegna þess að fari framleiðslustarfsemin til lands og sjávar mjög úr skorðum vegna aukinnar eftirspurnar á vinnuafli og margs konar þjónustu annarrar, sérstaklega ríkisframkvæmda, þá er öruggt mál, hvað sem hver segir, að það mun auka á þenslu og spennu í þjóðfélaginu og verða verðbólguvaldandi. En verðbólgan er þessari ríkisstj. augsýnilega erfið sem mörgum ríkisstj. áður.