26.04.1972
Neðri deild: 66. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1672 í B-deild Alþingistíðinda. (1523)

10. mál, erfðafjárskattur

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Menn geta sjálfsagt, eins og fram hefur komið hér í máli sumra, litið á þetta mál frá tvennu sjónarmiði, annars vegar má líta á þetta sem lítið mál, en hins vegar stórt mál. Ef menn líta aðeins á þá fjáröflun, sem hér er á döfinni, þá er málið ekki stórt, þar sem um er að ræða, að heildarfjáröflunin nemi 30–40 millj. kr., sem er ekki há upphæð á okkar mælikvarða nú í dag. Hitt er svo annað mál, hvernig menn líta á erfðafjárskatt sem slíkan, og það er miklu stærra mál. Það hefur verið mjög ríkt í fari Íslendinga alveg frá fornu að bera mikla virðingu fyrir erfðum og hefur komið einnig fram í okkar löggjöf fyrr og síðar. Og það er rétt, að erfðafjárskatturinn hefur yfirleitt verið mjög lágur hér og er það vissulega, það skal ég viðurkenna. Hann er ekki hár í þeim till., sem hér eru gerðar af hæstv. ráðh. En hins vegar finnst mér, að mál eins og þetta verði að ræðast frá því sjónarmiði, að þm. geri sér efnislega grein fyrir því, hvað um er að ræða, og meti réttilega forsendur fyrir því, af hverju málið er svona, en ekki hinsegin.

Það er sjálfsagt erfitt að hafa áhrif á skoðanir þm. í þessu máli, þó að maður stígi hér í ræðustólinn. Það er við svo fáa að sakast. En því miður kemur fram í þessu mikill misskilningur, sérstaklega hjá hv. 3. landsk. þm., og skoðanir, sem ég tel nokkuð svona handahófslegar, kannske út í bláinn, e. t. v. alls ekki meintar. Því miður koma slíkar skoðanir líka fram hjá hæstv. ráðh. Hæstv. ráðh. leggur áherzlu á það, að erfðafjársjóðurinn, sem hv. 12. þm. Reykv. taldi réttilega, að ætti frekar að heita endurhæfingarsjóður, þurfi að fá aukið fé og þess vegna þurfi að hækka erfðafjárskattinn. Hv. 11. landsk. þm. gerði alveg ljósa grein fyrir því, að hér á milli er í raun og veru og á ekki að vera neitt samband eðli málsins samkvæmt. Það er rétt, að einum ágætum þm. hugkvæmdist það hér á sínum tíma að efla velferðarmál eins og endurhæfingarmálin með því að marka tekjur eða erfðafjárskatt. Það hefur verið misjöfnum augum á það litið fyrr og síðar, hinar einstöku og sérstöku markanir á vissum tekjustofnum ríkisins. En það, sem minni hl. gerir grein fyrir í sínu nál., er þetta: Við viljum sjá endurhæfingarsjóði, sem svo ætti að heita, fyrir nægjanlegu fjármagni. En það er í raun og veru óraunhæft að segja, að það fjármagn eigi að fara eftir því, hve mikið erfðafé leggst til á hverju ári og hve mikill erfðafjárskatturinn af þessum arfi er á hverjum tíma. Og auðvitað verður þetta áberandi augljóst mál nú í dag, þegar hér er verið að tala um, að tekjurnar hefðu verið óbreyttar, ef allt annað væri óbreytt, fasteignamat og annað, rúmar 10 millj., og þetta eigi að hækka upp í 36 millj. þ. e. 26 millj. kr. aukning til endurhæfingar í landinu. En þegar hæstv. heilbrmrh. er hér fyrir nokkrum dögum að tala um frv. um heilbrigðisþjónustu í landinu, og ekki var sérstaklega gerð grein fyrir fjáröflun, sem til þyrfti, vegna þeirra till. og ráðagerða, sem uppi væru, þá var hann að tala um þúsund millj. kr. Hvað er endurhæfingin annað en bara ein grein af heilbrigðisþjónustunni í landinu? Og þess vegna bendir minni hl. á, að það á að vera auðvelt verk — og við viljum leggja okkar hlut til þess, segir minni hl.. — að afla raunverulegum endurhæfingarsjóði nægjanlegs fjármagns, og það er ekkert, sem liggur fyrir um það, engin grg. liggur fyrir um, að þó að þessi hækkun verði á erfðafjárskattinum, þá nægi það endurhæfingarsjóði. Þess vegna eigum við að slíta þetta í sundur og sameinast um það í öllum þingflokkum að afla nægjanlegs fjár til endurhæfingarsjóðs og endurhæfingarstarfsemi í landinu. En á þessari grundvallarhugsanaskekkju byggist nú frv. engu að síður, og það er fyrst og fremst og kemur greinilega fram í grg. fyrir frv., að til þess að fullnægja endurhæfingarmálunum verður að afla, ef lög þessi um endurhæfingu frá 1970 eiga að ná markmiði sínu, verður að afla aukins fjár til endurhæfingarmála. M. ö. o.: Það verður að auka tekjur erfðafjársjóðs. Þessi hugsanagangur og þessi röksemd fær ekki staðizt. Það er alveg rétt fram að þessu: Það verður að afla aukins fjár til endurhæfingarmála, en það er ekki nóg að segja bara, að auka skuli tekjur erfðafjársjóðs. Í raun og veru væri miklu eðlilegra, að erfðafjárskatturinn gengi til ríkisins, eins og aðrir skattar ríkissjóðs, og ríkissjóður sæi svo endurhæfingarmálunum fyrir nægilegu fjármagni, eins og öðrum þáttum í heilbrigðismálunum. Við eigum ekki að móta afstöðu okkar til málsins út frá þessu sjónarmiði. Á þetta lagði hæstv. ráðh. ríka áherzlu og það villir hugann í raun og veru, vegna þess að hver vill ekki vera með í því að afla fjár til endurhæfingarmálanna, og það er rangt, að það geti orðið röksemd fyrir því, hvort erfðafjárskattur á að vera hærri eða lægri.

Hv. 3. landsk. þm. sagði alveg berum orðum, að það væri ekki hægt að reka velferðarþjóðfélag nema til kæmi hár erfðafjárskattur. Velferðarþjóðfélag teljum við okkur nú hafa rekið hér á undanförnum árum. Þó var erfðafjárskattur eitthvað 10 millj. kr. af öllum tekjum ríkissjóðs. Nú eru tekjur ríkissjóðs 15 eða 16 þús. millj. á fjárlögum og mikill hluti þess fjár fer til ýmissa velferðarmála, heilbrigðismála, félagsmála, skólamála og annars slíks, sem er talinn þáttur í því að byggja upp velferðarþjóðfélag. En við sjáum bara, að erfðafjárskatturinn hefur engu áorkað í þessu sambandi, ekki hinu minnsta. Það er búið að skattleggja þessa blessaða menn, þegar þeir deyja, þ. e. a. s. áður en þeir deyja, og þess vegna hefur verið hægt að verja fé úr ríkissjóði fyrr og síðar, ekki aðeins í tíð þessarar ríkisstj., heldur allra annarra ríkisstjórna, til ýmissa velferðarmála. En sem sagt, það verður að viðurkennast, að þetta er ekki ýkjamikill munur á milli till., og ég held, að það sé einnig rétt að viðurkenna, að það getur orkað nokkurs tvímælis, hvernig tekjubilin eru, eins og þau eru í frv. eða eins og þau eru eftir till. minni hl. Það segir í frv. að greiða verði 5% af fyrstu 200 þús. kr., en 3% af fyrstu 500 þús. kr. eftir till. minni hl. Og svo er nokkur stigsmunur á þessu, þannig að samkv. frv. er hámarkið í 1. erfð 10%, þegar komið er yfir 1 millj., en í till. minni hl. er hámarkið 7%, þar sem erfðafé fer yfir l millj.

Ég er alveg sammála því, að við eigum að afgreiða þetta frv. á þessu þingi, og hæstv. ráðh. lagði á það áherzlu, sagði fljótt og vel. Ég verð að segja, að héðan í frá skiptir ekki máli, hvort það verður afgreitt fljótt, því að það er búið að liggja fyrir þinginu frá því í haust og nú er komið fram á vor, en ég tek undir það, að við eigum að afgreiða það vel. Og þá er mér efst í huga, hvort menn gætu ekki orðið sammála um að athuga svolítið betur tekjubilin, sem þá yrði helzt ekki gert nema með því að fresta umr. og athuga það betur í n., –hvort ekki mætti samræma þau eða fara milliveg á tekjubilum minni hl. og frv., því að í frv. eru tekjubilin og prósentan ekki miðuð út frá erfðafjárskattasjónarmiði. Þetta munar sáralitlu að vísu, eins og ég hef sagt. En hún er miðuð út frá því sjónarmiði að afla endurhæfingarstarfseminni tekna. Og það getur vel verið, að eitthvert mark þarna á milli væri kannske eðlilegra. Það er rétt, menn geta sagt: Þetta eru ekki svo háar upphæðir. Og sannleikurinn er sá, að þetta eru ekki háar upphæðir fyrir ríkissjóðinn eða þann sjóð, sem fær féð til meðferðar, en í hinu einstaka búi geta þetta verið miklar upphæðir fyrir einstaklingana. Og kannske er stundum erfitt við þetta að ráða, einkum og sér í lagi þegar fyrirvinnan fellur frá og ekkjan missir tekjur, fyrirvinnuna, og á að sjá fyrir börnum og sjálf að brjótast áfram við ýmsa erfiðleika, sem því eru samfara að missa fyrirvinnu sína eða maka. Þar getur auðvitað munað miklu.

Í 3. erfðinni, c-liðnum, má náttúrlega segja, að það skipti ekki mjög miklu máli, hvort 35% fari í erfðafjárskatt eða 50%. Ég býst við, að við séum flestir þeirrar skoðunar, að sá flokkur sé það fjarskyldur arfleifandanum. að það sé eðlilegt, að skatta það hátt. En þá er það komið upp í 50%, eins og frsm. minni hl. gerði grein fyrir, eða í það sama mark eins og hann bara ráðstafaði þessu til annarra með gjöfum fyrir andlát sitt, og hann getur auðvitað gert það eftir sem áður. Og þá er það svona svipað, sem á af því að greiða, en hugsunin með að láta hámarkið vera 35% er sú, að á þessu væri þá nokkur mismunur, hvort þetta væri í erfð eða sem gjafafé í lifanda lífi.

Það hefur verið bent á það, að erfðafjárskattarnir séu mismunandi í einstökum löndum, — við erum svipaðir eins og Danir í því sambandi, — og það skipti miklu máli, hvernig eignarskattarnir séu áður í viðkomandi ríkjum og hvernig aðstaðan er í ríkjunum. Og það er alveg rétt, sem bent hefur verið á, að það eru auðvitað sáralitlar stóreignir, og lítil eignamyndun hefur verið í íslenzka þjóðfélaginu alveg gjörólíkt því, sem annars staðar er. Mér finnst það ósköp eðlilegt, að þegar svo háttar, að mikill auður hefur safnazt á fárra manna hendur öld fram af öld og af ýmsum ástæðum, þá sé ekkert óeðlilegt, þó að menn hafi seilzt til þess fjár í hærri erfðafjárskatti heldur en við erum með. Við erum þess vegna í raun og veru ekki að mínu áliti endilega að deila um það, hvort till. minni hl. um nokkra lækkun skattsins, sem er ekki mikil, — hún hefur ekki verið útreiknuð, kannske gæti þetta verið 10 millj. kr. í heild, ég veit það ekki, — heldur viljum við í raun og veru taka tillit til einstaklinganna þarna og til þess hugsunarháttar, sem ég held nú, að sé mjög ríkur í fari Íslendinga, að bera virðingu fyrir erfðum. Og ég efast stórlega um, að það mundi verða meiri hluti hér á Alþ. fyrir því, ef á það reyndi, — það reynir ekki á það í þessu frv., — að fara að stórhækka erfðafjárskatta. Hv. 3. landsk. þm. talaði hér meira, held ég, út frá því sjónarmiði. — að vísu af of miklu alvöruleysi vegna efnis málsins sem frsm., en meira út frá því sjónarmiði, — að hann vildi láta líta á sig sem ríkissósíalista og skilja mál sitt þannig, að ríkið ætti þess vegna að hirða meira og minna af því, sem menn létu eftir sig. Ég veit alls ekki, hvort hann væri það, ef á reyndi. Það reynir ekki á það efnislega í þessu frv.

Ég vissi ekki, hvað hann átti við, þegar hann fór að tala um gatnagerðargjald við Suðurlandsbraut, og hvaða samband það gat haft við erfðafjárskatt, ég veit það ekki. Hvort einhverjir eigendur húsa þar hafi ekki borgað gatnagerðargjald á þeim tíma, þegar ekkert gatnagerðargjald var greitt, ég veit það ekki. Og hvað er verið að finna að því? Ég fann ekki sambandið á milli þessa. Hins vegar fannst mér, að þeir, sem standa að minnihlutaálitinu, gerðu efnislega mjög skilmerkilega grein fyrir sínu máli. Ég verð að játa, að þegar mér varð þetta fyrst ljóst núna, þessi till. um að skattleggja ekki erfðahlut eftirlifandi maka, þá varð ég alveg hissa, að ég skyldi ekki hafa tekið eftir því áður, hve það er rangt að vera að skattleggja eftirlifandi maka. Bæði verður, eins og gerð var grein fyrir hérna, af þessu tvísköttun og svo er á hitt að líta, hvað þetta kemur illa við, kona missir mann sinn og hvort hún á börn eða ekki börn. Ekkjan hefur litið á þetta bú þeirra sem sameiginlega eign, þau hafa byggt þetta upp saman og svo þegar maðurinn deyr, þá á hún að borga kannske, ef eignin er eitthvað veruleg, 10, 20 til 30 þús. kr. í erfðafjárskatt eftir mann sinn. Henni er þetta alveg framandi, og ég veit af reynslu um dæmi þess, sem mér hefur verið bent á, nú í seinni tíð, að þetta hefur komið algerlega flatt upp á fólk. Og eins og sagt var hér réttilega áðan; var ekki nóg áfall fyrir hana að missa makann? Enn fremur er það upplýst, að menn hafi verið sammála um þetta í n., en svo hafi þetta samt sem áður ekki verið tekið út. Vilja menn nú ekki endurskoða þetta atriði? Þetta skiptir ekki nokkru máli fyrir ríkissjóðinn, erfðafjársjóðinn, endurhæfingarsjóðinn eða hvern, sem fær þetta gjald, en getur komið ákaflega óþægilega við einstakling, hinn einstaka aðila, sem á hlut að máli, og er í ríkara mæli sjálfsagt erfiðara fyrir konuna, sem verður ekkja, hvort sem hún á börn, þarf fyrir fleiri börnum að sjá eða ekki. Alla vega virðist vera nóg, að erfðafjárskattur greiðist af búinu í heild, þegar hún fellur þá frá, til barna eða annarra erfingja, sem þar er um að ræða. Ég bið menn nú virkilega um að athuga þetta og gætu einnig athugað, — ef umr. yrði frestað og menn hafa einhvern vilja til þess að athuga það, — einhvern milliveg á milli till. meiri hl. og minni hl.

Mér eru það mjög mikil vonbrigði, að frsm. meiri hl. skuli ekki vilja fallast á till. hv. 10. landsk. þm., sem ég get ekki séð að sé annað en bara alveg eðlileg brtt. til þess að ná þeirri meiningu, sem hv. 3. landsk. þm. vill. En hún stendur ekki í brtt., þar sem segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Af erfðafé, sem hverfur til kirkna, opinberra sjóða, gjafasjóða, félaga,“ þegar búið er að telja upp þessa aðila, kemur: „líknar- og menningarstofnana, skal greiða 10 af hundraði.“

Það er nú skemmtilegra að segja, að erfðaféð renni til kirkna en að það hverfi til þeirra, en sá munur á till. er nú bara aukaatriði. En eins og brtt. er og kannske eins og það hefur verið í lögunum, þó að það hafi ekki verið framkvæmt, þá getur maður ráðstafað fé sínu til hvaða félags sem er og með þeim afleiðingum, að það borgi bara 10% erfðafjárskatt. (Gripið fram í.) Þegar ekki er tekið undir svona brtt., skil ég ekki almennilega málið. Hitt er svo annað mál, að hv. 10. þm. Reykv. vill lækka erfðafjárskattinn í þessu tilfelli úr 10% niður í 7%. Mér finnst hann ætti bara að vera alveg „minimal“ í þessu tilfelli, kannske gæti hann farið alveg niður í 3% og er það miklu eðlilegra. Ef menn vilja, að það geti orðið til styrktar slíkum stofnunum eins og kirkjum, opinberum sjóðum og gjafasjóðum og annarri líknarstarfsemi, félögum og stofnunum, sem vinna líknar- eða menningarstörf, það geti orðið þeim til styrktar, ef arfleifandi ætlaði þeim fé úr búi sínu, þá á ekki að vera að taka af því. Þá finnst mér, að það eigi að vera alveg í lágmarki, sem tekið er af þessu, ef það er talið þurfa. Ég get vel búizt við, að það sé talið þurfa til þess að hafa „kontrol“, ef ég má nota það ljóta orð, eða eftirlit eða geta fylgzt með uppgjöri búsins og erfðum, hvert þær renna. En alla vega held ég, að hv. þm. hljóti að gera sér grein fyrir því, að brtt. á þskj. 544 er í raun og veru ekki annað en leiðrétting, til þess að taka af öll tvímæli um það, sem ég efast ekki um, að meiri hl. meinar með brtt. sinni á þskj. 518, en till. er ekki þannig, ef hún er skilin eftir orðanna hljóðan.

Herra forseti. Ég skal nú ljúka máli mínu. Ég skal ekki endurtaka neitt af því, sem ég hef sagt, umfram það, að ég vildi mega biðja menn um að athuga þá ósk, sem ég vil bera fram, að þessari 2. umr. verði frestað, svo að menn þurfi ekki að greiða atkv. um þetta, ef hugsanlegt væri að ná samstöðu um einhverjar þær brtt., sem fram hafa verið bornar. Sumir hafa nú látið í veðri vaka í n., að þeir væru því ekki fjarri að vera þeim fylgjandi. Geta menn þá ekki sameinazt um að fresta umr.? Við í Sjálfstfl. munum að sjálfsögðu ekki gera neina tilraun til þess að hindra framgang þessa máls, og mín till. er ekki fram borin af því. Ég endurtek það, sem ég sagði: Ég tel sjálfsagt að afgreiða málið á þinginu, og við viljum ekki aðeins afgreiða þetta mál, heldur höfum við einnig lýst því yfir, talsmenn þingflokksins, að Sjálfstfl. er mjög viðmælandi um það að styrkja það málefni, sem blandazt hefur inn í þessar umr., þó að það sé í raun og veru ekkert eðlissamband á milli endurhæfingarinnar og erfðafjárskattsins. M. ö. o.: Við erum því samþykk að leita leiða til þess að styrkja fjáröflun á öðru sviði til endurhæfingarmálanna, ef þess er þörf. Og ég álít, eins og hv. 12. þm. Reykv., að þess muni verða þörf og e. t. v. nokkuð mikil þörf.