16.05.1972
Neðri deild: 81. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1701 í B-deild Alþingistíðinda. (1601)

260. mál, Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Lög um breytingu á skipulagsskrá Stofnunar Árna Magnússonar voru samþ. í annað skipti á þjóðþingi Danmerkur 19. maí 1965. Síðan var sáttmáli milli Íslands og Danmerkur undirritaður í Kaupmannahöfn 1. júlí 1965. Fullgilding þessa sáttmála beið þó fram til 1. apríl 1971. Þá var lokið endanlega málaferlum fyrir dönskum dómstólum, sem risu út af lögum danska þjóðþingsins um skiptingu Stofnunar Árna Magnússonar milli Íslands og Danmerkur.

Sáttmáli ríkjanna fjallar um framkvæmd hinna dönsku lagaákvæða um skiptingu handrita og skjalagagna í Árna Magnússonar stofnuninni í Kaupmannahöfn, þannig að skilað verði til Íslands þeim hluta safnsins, sem telst íslenzk menningareign og úr Konungsbókhlöðu enn fremur handritum og skjalagögnum, sem hið sama gildir um, sem telja verður íslenzka menningareign. Einnig er með lögunum breytt skipulagsskránni, sem Friðrik V. setti 18. jan. 1760 um Stofnun Árna Magnússonar, þannig að hún skiptist í tvær deildir samkv. ákvæðunum í hinum dönsku lögum og það af gögnum og handritum stofnunarinnar, sem íslenzk menningareign telst, verði falið Háskóla Íslands til varðveizlu. Sömuleiðis fái Íslandsdeild Stofnunar Árna Magnússonar til varðveizlu handritin, sem skilað verði úr Konungsbókhlöðu. Með sáttmálanum milli ríkisstjórnanna tekur ríkisstj. Íslands að sér að varðveita með atbeina Háskóla Íslands þau handrit og skjalagögn, sem til Íslands fara. Varðveizla og umsjón skal vera í samræmi við reglurnar, sem settar eru í skipulagsskrá Legats Árna Magnússonar.

Frv., sem hér er lagt fyrir hv. d., fjallar um það, að Ísland efni af sinni hálfu fyrirheitin, sem gefin voru í sáttmálanum við Danmörku. Það er gert með því að setja lög um Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi, sem taki við þeim handritum og skjalagögnum, sem skilað verður frá Danmörku, en taki jafnframt við hlutverki, eignum og skuldbindingum Handritastofnunar Íslands. Ég mun ekki rekja hér einstök efnisatriði þessa frv., en vil aðeins segja það að lokum, að málalokin í handritamálinu eru svo einstæð og öllum Íslendingum slíkt fagnaðarefni, að ég veit, að hv. Alþ. mun af sinni hálfu kappkosta, að tekið verði þannig við hinum fornu ritum, þau verði varðveitt og rannsökuð á þann hátt, sem bezt uppfyllir ákvæði stofnskrár Legats Árna Magnússonar og samboðið er þeim þjóðarfjársjóði okkar Íslendinga, sem um er að ræða.

Ég vil, herra forseti, leyfa mér að leggja til, að að þessari umr. lokinni verði frv. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.