10.05.1972
Neðri deild: 74. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1719 í B-deild Alþingistíðinda. (1628)

124. mál, Tækniskóli Íslands

Jónas Jónsson:

Herra forseti. Um það atriði, sem hér hefur komið til umræðu í þessu máli um tækniskóla, þ. e. a. s. staðarval fyrir skólann, vildi ég aðeins fara nokkrum orðum.

Ég held, að það sé nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því, að eigi að dreifa stofnunum um landið, verði fyrst og fremst að líta til þess að setja nýjar stofnanir niður þar, sem heppilegt er talið út frá þessu sjónarmiði, og í öðru lagi komi þá til greina að flytja mjög ungar stofnanir, sem ekki hafa fest sínar rætur. Það verða alltaf mjög miklir erfiðleikar við það að flytja stofnanir, sem eru rótgrónar á sínum stöðum. Það kostar árekstra og margs konar persónulega erfiðleika, sem því fylgja.

Nú hefur sú hugmynd lengi verið uppi, að tækniskóli gæti verið og ætti rétt á sér að vera á Akureyri, og það hefur auðvitað verið hugsað út frá þeirri stefnu og því stefnumiði, að það sé rétt að dreifa stofnunum um landið. Nú hefur ekki verið gerð sú heildaráætlun eða sú heildarathugun á því, hvaða stofnanir ættu að vera annars staðar en þar, sem þær lenda, ef ekki er sérstaklega hugsað fyrir því fyrir fram, þ. e. í Reykjavík. Það sannar sagan, að á meðan svo er er ákaflega hætt við því, að hvert mál, sem kemur til umræðu á þessu stigi, hljóti svipuð örlög eða svipaðar móttökur og t. d. lýstu sér í ræðu hv. 7. þm. Reykv. Hvert mál verður þannig tekið fyrir og drepið sérstaklega og með sérstökum rökum, í staðinn fyrir að ef lægi fyrir ein heildarálitsgerð um það, hvernig mætti dreifa stofnunum eða öllu heldur hvernig ætti að byggja upp landið með hinum ýmsu nauðsynlegu stofnunum. þá þyrfti ekki að koma til þessara deilna í hvert skipti.

Svo að ég víki þá nokkuð að því, hver eru þessi sígildu rök, því að þau eru þau sömu, koma aftur og aftur í hvert skipti, sem talað er um það, að stofnun lendi annars staðar en þar, sem þær detta af himnum ofan, þ. e. í aðalþéttbýlinu, og þessi rök kom hv. 7. þm. Reykv. einmitt með, og mér datt þá í hug, að það væri ákaflega fróðlegt að rifja upp eldri umræður um svipuð efni, eins og t. d. umræður um þá hugmynd að koma upp menntaskóla á Akureyri eða menntaskóla á Laugarvatni, og jafnvel var það lengi svo rígbundið, að menntaskóli gat ekki í hugum margra manna nokkurs staðar annars staðar verið heldur en við Lækjargötu í Reykjavík. Sagan hefur sannað okkur annað. Það er hægt og það þarf ekki að koma niður á gæðum kennslunnar eða gæðum skólans, þó að það sé litið á þetta af svolítið meiri víðsýni og svolítið djarfari augum og af meira frjálslyndi heldur en þeir menn hafa gert, sem þessari stefnu hafa fylgt, sem þessi hv. þm. túlkaði, sem ég nefndi hér áðan.

Það er nefnt, að kennaralið þurfi svo og svo mikið, og svo eru teknar tölur um það, að 34 kennarar séu við eina deild, en þar af eru aðeins 6 fastir kennarar. Það þýðir, að það er kallað á kennarana utan úr bæ og þeir eru fengnir sem stundakennarar við þessar deildir. Nú hef ég reynslu af kennslu, bæði sem fastur kennari og einnig sem stundakennari, og ég veit, að það er mikill munur á gæðum þeirrar kennslu, sem fastir kennarar gefa, sem geta helgað sig þessu einu, og svo stundakennarar, sem eru kallaðir til þessa úr sínu aðalstarfi. En þetta er notað sem rök, 34 kennarar við þessa deild, 28 af þeim eru lausráðnir. Þó að þetta sé svona, þá eru náttúrlega ekki nokkur rök fyrir því, að það þurfi að vera svona. Auðvitað er ekki hægt að byggja upp tækniskóla á Akureyri nema með föstu kennaraliði að langmestu leyti. Þar eru þó verkfræðingar og tæknifræðingar, það er rétt að minna á það, þeir eru eitthvað á annan tug, hvor þessi hópur manna, þannig að þetta álít ég að séu ekki rök. Þetta er aðeins lýsing á því, hvernig hefur verið farið að því að skrapa saman kennaralið í þessa sjálfsagt ágætu skóladeild.

Nú geta menn litið á það, að byggingar eru þær sömu, sem þarf fyrir skóla, hvort sem það er á Akureyri eða annars staðar úti á landi eða í Reykjavík. Húsnæði, meira að segja fyrir mennina, sem ganga í skólann, það er það sama, hvort sem það er á Akureyri eða í Reykjavík eða annars staðar. Og talað er um það, að þeir séu hér búsettir, nemendurnir í skólanum. Það er auðvitað hægurinn hjá að flytja skólann á þann hátt, að þeir, sem komnir eru í skóladeildirnar, lykju sínu námi hér, en skólinn yrði byggður upp, því að að mér skilst þarf að byggja þennan skóla upp alveg frá grunni hvað húsnæði snertir.

Það er hins vegar dálítið undarlegt, að þegar sótt er á, og það er sótt á það með þá hugmynd, að þessi skóli verði byggður upp á Akureyri, þá er eins og verið sé að taka svolítið þrýstinginn af með því að setja það inn í frv., að hluti hans megi nú vera á Akureyri. Er ekki þá eðlilegra og er það þá ekki verkdrýgra, að hann væri þar raunverulega allur? Það er minnzt hér á tæki. Tækjabúnaður til skólans er auðvitað sá sami, hvar sem hann er. Það er aðeins spurning um það, hvort það er eitthvað af tækjum. sem geta verið sameiginleg við skólann og við aðrar stofnanir. Það væri engin goðgá. að hugsa sér rannsóknastarfsemi í kringum svona skóla á Akureyri.

Þessi aðferð, sem ég minntist á að notuð er til þess að drepa svona mál í hvert skipti, er venjulega sú að leita til þeirra manna, sem starfa við viðkomandi stofnun, og spyrja um álit þeirra. Þeir eru spurðir: Finnst ykkur nú ekki ágætt að flytja ykkar stofnun burt? Það er alveg gefið, hvert þeirra svar verður. Þeir sjá auðvitað á því alla annmarka og telja úr því. Þannig eru slík mál sem þessi venjulega drepin á tæknilegan hátt.