16.05.1972
Neðri deild: 81. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1721 í B-deild Alþingistíðinda. (1632)

124. mál, Tækniskóli Íslands

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég leyfi mér hér með að flytja brtt. við þetta frv. ásamt hv. 7. landsk. þm., Karvel Pálmasyni, en það er við 7. gr. frv. Aftan við 2. mgr. komi nýr málsl., svo hljóðandi:

„Enn fremur er heimilt að starfrækja raungreinadeild á Ísafirði.“

Þessi brtt. er flutt vegna eindreginna óska forráðamanna Iðnskólans á Ísafirði, nánar sagt skólanefndarinnar þar, en eins og kunnugt er, hefur verið starfrækt undirbúningsdeild við Iðnskólann á Ísafirði á undanförnum árum. Það hefur verið mjög vel séð fyrir húsnæði fyrir skólann, og það er mikill áhugi fyrir því, að í framhaldi af því verði einnig starfrækt raungreinadeild á næsta ári. Þess vegna leyfum við okkur að flytja þessa brtt. við 7. gr. og væntum þess, að þm. veiti stuðning sinn við þessa till.