24.11.1971
Efri deild: 16. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 107 í B-deild Alþingistíðinda. (171)

90. mál, fjörutíu stunda vinnuvika

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Það er út af fyrir sig mjög ánægjulegt, þegar þeim áfanga er náð, að unnt er að stytta vinnuvikuna í 40 klst. og lengja orlof í 4 vikur. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar, að það hafi verið algjörlega óþarfi og fullkomin sýndarmennska hjá hæstv. núv. ríkisstj. að setja þetta í málefnasamning sinn. Það hefur komið fram, að hefði verkalýðshreyfingin sjálf sett þessar kjarabætur á oddinn, þá hefði út af fyrir sig ekki verið mikil fyrirstaða á þeim, miðað við, að heildarkjarabætur séu miðaðar við greiðslugetu atvinnuveganna. Það er þess vegna skrautblóm í hnappagat núv. hæstv. ríkisstj., sem um er að ræða, og verið getur, að henni sé ekki vanþörf á slíku skrautblómi, en ég hygg þó, að það verði fljótt að visna.

Það er ljóst af því, sem hér hefur verið sagt, að ríkisvaldið tekur með þessu lagafrv. ákvörðunarvald úr höndum stéttarfélaga. Stéttarfélögin hafa ekki frelsi til þess að ákveða, í hvaða röð kjarabætur eigi að koma, hvort kauphækkanir í krónutölu eigi að ganga fyrir vinnutímastyttingu, svo að ég nefni dæmi. Það hefur verið stefna stéttarfélaga og, ég hygg, beggja aðila vinnumarkaðarins, að frjálsir kjarasamningar fjölluðu sem mest um kjör almennt, og þótt undantekningar finnist og til bráðabirgða hafi verið gerðar ráðstafanir er áhrif hafa á laun, af hálfu löggjafarvaldsins, þá er ég sammála þeim hv. þm., sem hér hafa talað og lagt áherslu á, að slíkt beri eingöngu að gera í undantekningartilfellum og ef brýna nauðsyn ber til. En hv. forseti d. og forseti Alþýðusambands Íslands vildi gera greinarmun á því, að það væri unnt að kveða á með löggjöf um það, sem hann kallaði félagsmál launþega, og taldi vinnutíma þar með, en hins vegar væri ekki unnt og rétt að kveða á með löggjöf um kjaramál launþega, sem hann taldi vera kaup í krónutölu. Ég hygg, að í þjóðfélagi okkar nú séu þarna svo óljós mörk, að hv. forseti Alþýðusambands Íslands og forseti d. okkar fari inn á mjög hættulega braut, þegar hann segir annað vera í góðu lagi gagnvart launþegum, en hitt jaðra við kúgunarráðstafanir gagnvart þeim.

Það er staðreynd, að langur vinnutími er almennt hjá öllum stéttum hér á landi, og þetta frv. út af fyrir sig styttir ekki vinnutímann. Þær kjarabætur, sem launþegar gera sér vonir um við styttingu vinnuvikunnar, eru ekki sízt í því fólgnar, að þeir álíta, að vinnudagurinn verði jafnlangur eftir sem áður og kauphækkanir komi þannig fram í krónutölu með meira yfirvinnukaupi, eftir- og næturvinnu.

En hver er þá höfuðástæðan fyrir löngum vinnudegi hér á landi? Ég hygg, að það sé rétt að hafa það í fleirtölu, að það séu margar ástæður, sem liggi þar til grundvallar. Það má annars vegar nefna það, að dagvinnukaup hinna lægst launuðu hefur ekki verið meira en svo, að erfitt hefur verið eða illmögulegt fyrir þá að lifa af því kaupi, og þess vegna hefur verið þrýstingur af þeirra hálfu að leita uppi aukavinnu í formi yfirvinnu. önnur ástæða er einnig fyrir löngum vinnudegi hér á landi, og það er hið sérstaka eðli íslenzkra atvinnuvega. Það eru vertíðaskipti. Það er hin mikla lotuvinna, sem hér tíðkast umfram annars staðar í heiminum og skapast af séreðli atvinnuvega okkar. Þess vegna hygg ég, að með þessu frv. út af fyrir sig sé ekki stefnt að minni vinnuþrælkun, ef haldið er fram, að um vinnuþrælkun sé almennt að ræða í þessu þjóðfélagi í formi of langs vinnudags, meðan kaup hinna lægst launuðu í dagvinnu er ekki gert að höfuðkjarabótarmáli, og meðan ekki er unnt að aðlaga vinnutímann hinum sérstöku aðstæðum íslenzks atvinnulífs, þá verður vinnutíminn ekki styttur verulega. Þess vegna held ég að það hafi gengið eins og rauður þráður í máli forsvarsmanna stéttarfélaga, að meginatriðið í kjarabótum launþegum til handa ætti að vera kauphækkun til hinna lægst launuðu. Ef þeir hefðu samið kjarabótakröfurnar, þá hefðu þeir sett það efst á listann.

Nú þykir þetta e.t.v. djarft mælt af mér í garð t.d. okkar ágætu þingbræðra, hv. forseta Alþýðusambands Íslands, fyrrv. og núv. Ég held þó, að þeir hafi tekið þessa kröfugerð um vinnutímastyttingu fram yfir kaupgjaldshækkun í dagvinnu sem málefnaatriði í ríkisstjórnarsamningnum algerlega af pólitískri hentisemi og án þess að sú kröfugerð hafi hlotið þá meðferð, sem eðlilegt hefði mátt telja, að hún hlyti í röðum launþegasamtakanna sjálfra, verkalýðsfélaganna, eins og kröfugerð þeirra almennt hlýtur. Það er athyglisvert, að kaflinn í málefnasamningi ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar um kjaramál gengur mjög á einn veg, þ.e. að öll kjaramál skuli helzt ákveðin af ríkisvaldinu sem allra mest. Með ákvæðum um styttingu vinnuviku í lögteknu formi, orlof og ákveðin önnur atriði er suðvitað verið að skerða valfrelsi launþeganna sjálfra, hvaða kjarabætur þeir leggi mesta áherzlu á og hvernig þeir raði þessum kjarabótum í kröfugerð. Þegar sagt er í þessum kafla, að að því skuli stefnt, að Stéttarsamband bænda og ríkisvaldið skuli semja sín á milli um verðlagningu búvara, þá er verið að taka þetta úr höndum nefndar bænda og neytenda. ríkisvaldið er þarna enn komið sem annar aðili. Og þótt niðurfall verkfallsréttar opinberra starfsmanna miði ekki að breytingu á þessu efni, er ríkisvaldið eftir sem áður annar aðilinn. Þá er og talað um að fella niður í frjálsum samningum ríkis og bandalags opinberra starfsmanna þá viðmiðun, sem opinberir starfsmenn eiga að hafa við almenn launakjör í landinu. Öll þessi þrjú atriði miða að því að draga ákvörðunarvaldið um kaup og kjör í landinu í hendur ríkisvaldsins, og ég hygg, að þetta sé í andstöðu við þá stefnu, sem bæði fyrrv. og núv. hv. forsetar Alþýðusambands Íslands hafa markað á undanförnum árum, og ég held, að þetta sé í andstöðu við hagsmuni þjóðarinnar og í andstöðu m.a. við stefnu Sjálfstfl.

Það var sagt hér, að núverandi vinnudeila væri algerlega í eðlilegum farvegum, ég held, að það hafi verið hæstv. félmrh., sem orðaði það svo. Nú eru liðnir hér um bil tveir mánuðir, síðan samningar runnu út. Það er fróðlegt að rifja upp síðustu vinnudeilu. Síðast þegar almennir kjarasamningar runnu út, það var, held ég, 1. maí 1970, þá var boðað til verkfalla, ég held innan hálfs mánaðar, eða eitthvað um það bil, eftir að kjarasamningar runnu út, og verkföll hófust þrem vikum eftir að kjarasamningar runnu út. Hver skyldi ástæðan hafa verið? Hún skyldi þó ekki hafa verið sú, að þessir hv. þm., forseti Alþýðusambands Íslands, núv. og fyrrv., voru að stofna til stjórnmálasamtaka, og það olli mjög miklu í aðgerðum þeirra, að þeir þurftu á pólitískum verkföllum að halda, og það vildi svo til, að framsóknarmenn og Alþb.- menn voru sammála um, að pólitísk verkföll væru nauðsynleg, vegna þess að það áttu að fara fram sveitarstjórnarkosningar í lok maímánaðar, og þessir stjórnarandstöðuflokkar þáv. ætluðu sér mikinn hlut í þeim kosningum og m.a. að ná meirihlutavaldi í borgarstjórn Reykjavíkur. Þar var um pólitískar aðgerðir að ræða. Þá var það ekki eðlilegur gangur vinnudeilunnar, að það liði hálfur mánuður, eftir að samningar runnu út, án þess að samningar tækjust. Nei, það var allt of langur tími. Nú eru liðnir tveir mánuðir, og að er ósköp eðlilegt. Hvar er nú samræmið í þessu?

Ég skal aðeins taka það fram til þess að koma í veg fyrir misskilning, að ég er ekki að gagnrýna það út af fyrir sig, að aðilar vinnudeilu taki sér góðan tíma til þess að kanna öll mál til botns, eins og hæstv. félmrh. sagði, að tíminn hefði verið notaður til, en þá á það að vera viðtekin regla og viðtekin venja. Hæstv. félmrh. sagði, að það ætti ekki að vera svo, að ef verkamaður og hinn lægst launaði fengju einhverja hækkun, þá hlypu allir aðrir upp í tekjum. Ég er honum alveg sammála í því. En sannleikurinn er sá, að á undanförnum árum, þegar fyrrv. ríkisstj. reyndi að hafa hönd í bagga með lausn vinnudeilna einmitt á þessum grundvelli, þá voru það gjarnan einmitt ýmsir félagar í hinum hærri launaflokkum innan vébanda Alþýðusambands Íslands, sem létu hina lægst launuðu, verkamennina, standa í verkföllunum til að byrja með og hirtu svo sitt á þurru og tóku meira að segja eitthvað til viðbótar. Þessi vinnubrögð tíðkuðust þá innan vébanda launþegasamtakanna sjálfra og í andstöðu við stjórnarstefnu fyrrv. stjórnar, og ég er þeirrar skoðunar, að hæstv. félmrh. hefði gjarnan mátt standa betur með hæstv. fyrrv. stjórn í þeim efnum en hann þá gerði. Ég vonast til, að honum takist að halda þessari stefnu, sem núv. stjórn sýnist einnig marka, og ég veit, að hann mun þá fá fylgi stjórnarandstöðunnar til þess, sem fyrrv. stjórn hafði of litla.

Ég skal nú láta máli mínu lokið, taldi rétt, að þetta kæmi fram. En ég vil aðeins að lokum fagna þeim ummælum hæstv. félmrh., að hann taldi algjörlega óþarft að gera því skóna, að yfirstandandi kjaradeila yrði leyst með löggjöf. Ég vonast til þess, að hann reynist sannspár í þeim efnum, að til slíks neyðarúrræðis þurfi ekki að grípa.