24.11.1971
Efri deild: 16. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 112 í B-deild Alþingistíðinda. (173)

90. mál, fjörutíu stunda vinnuvika

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessa umr., en ég tek nánast til máls til þess að koma því á framfæri, hvort ég hafi skilið hæstv. félmrh. rétt, því að hafi svo verið, þá gaf hann hér mjög eftirtektarverða yfirlýsingu áðan, þegar rætt var um kjör opinberra starfsmanna. Í ræðu sinni tók hann mjög undir það, sem hæstv. forseti d. hafði sagt í sinni ræðu, að opinberir starfsmenn hefðu í öllum launaflokkum farið umfram vinnumarkaðinn, hinn almenna vinnumarkað, ekki aðeins í hálaunaflokkunum, heldur einnig í láglaunaflokkunum, og ég skildi hæstv. ráðh. svo, að með þessum kjarasamningum, sem nú væri verið að gera, væri stefnt að því að bæta kjörin til jafns við það, sem opinberir starfsmenn hafa fengið umfram aðrar stéttir, og hann vitnaði þar alveg sérstaklega til verzlunarmanna, sem byggðu kröfugerð sína á því, hvað þeir væru orðnir á eftir opinberum starfsmönnum. Ég tel ákaflega þýðingarmikið að heyra þessa yfirlýsingu, því að það er mjög merkilegt að gera á þessu samanburð.

Það hafa vissulega orðið mistök í samningum opinberra starfsmanna, ef það hefur farið svo, að þeir hafi fengið kjör verulega umfram það, sem var á hinum almenna vinnumarkaði. Og það er einnig mjög merkilegt, að það sé kannað, og fróðlegt að fá að vita það, að stefnan sé nú, að aðrir séu þá færðir aðeins til samræmis við opinbera starfsmenn, og geri ég þá ráð fyrir, að jafnframt felist í því svar við þeirri fsp. minni, hvort opinherir starfsmenn eigi ekki að fá neinar kjarabætur. Vinnutímann hafa þeir þegar fengið að dómi hæstv. ráðh., sem rétt er, og þeir eiga ekki að fá aðrar kjarabætur. Nú kann það að vísu að vera svo, að það sé hugmyndin, að einhver hópur þeirra eigi að falla undir hið svokallaða láglaunafólk, en hæstv. ráðh. svaraði ekki heldur fsp. minni um, hvað væri átt við í stjórnarsamningnum, hvað væri láglaunafólk. Og þá merkir það að sjálfsögðu það, að það er ætlunin að raska því starfsmati, sem samkomulag varð um á s.l. ári við launþegasamtökin, en ég lit á BSRB sem alveg jafnfullgild launþegasamtök og Alþýðusamband Íslands, og þar varð að samkomulagi sú flokkun, sem þar var gerð milli starfa. Nú kann það vel að vera, að það sé að verða á þessu einhver breyting. Ég skal ekkert fullyrða, hvað er hjá opinberum starfsmönnum. Kannske hafa forráðamenn þeirra eitthvað skipt um skoðun á þessu efni frá því, að þeir gerðu kröfu um, að það yrði fjórfaldur launamismunur, á sama hátt eins og mér skilst, að Alþýðusamband Íslands hafi skipt um skoðun, vegna þess að hingað til hafa launin á hinum frjálsa vinnumarkaði falið í sér geysilegan mismun á hinum ýmsu starfsgreinum. Og mér er ekki grunlaust um, að Alþýðusambandið sjálft, þ.e.a.s. forráðamenn verkamanna þar, hafi átt mjög erfitt um vík og í rauninni alls ekki getað komið fram því starfsmati eða hlutfallsákvörðun launa milli hinna ýmsu starfsgreina, sem reynt var að gera í samningnum við opinbera starfsmenn og ég tel að sé ákaflega nauðsynlegt að verði gert og menn reyni að komast að niðurstöðu um.

Það vekur nokkra eftirtekt í þessu efni líka að rifja upp, hvað gerst hefur á undanförnum árum, þegar víkið er að því, að fyrrv. ríkisstj. hafi átt hlut að því að koma hér á einhverju hálaunakerfi fyrir vissa starfshópa, að fyrrv. ríkisstj. lenti hvað eftir annað í átökum við hálaunafólk í þjóðfélaginu, bæði meðal opinberra starfsmanna og í öðrum greinum. Það var þar barátta við lækna, sem á sínum tíma brutu launakerfið, við verkfræðinga, við flugmenn, yfirmenn á farskipum og fleiri starfshópa, og ég man ekki betur og held, að mig rangminni það alls ekki, að ríkisstj. hafi verið mjög vítt fyrir að reyna að spyrna gegn kröfum þessara starfshópa og það einmitt úr hópi þeirra manna, sem nú fara með völd hér á Alþ. og í landinu. Það er mjög fróðlegt að vita, hvort það sé skoðun núv. ráðamanna, eftir að þeir eru komnir í valdastóla, að það eigi að draga úr launamismun milli þessara manna, sem þá var talið sjálfsagt að fengju sín laun eins og þeir kröfðust, og þeirra, sem lægra eru launaðir.

Ég tek undir það, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði. Ég tel, að það beri brýna nauðsyn til að leggja áherzlu á að bæta kjör þeirra lægst launuðu, án þess að það endilega þurfi að leiða af sér skriðu yfir allt þjóðfélagið, eins og jafnan hefur orðið. Það er þess vegna síður en svo í andstöðu við skoðanir okkar sjálfstæðismanna, að þetta verði reynt að gera. Ef það tekst að gera í þessum kjarasamningum, þá er það allt gott og blessað. En það er þá andstætt því, sem áður hefur gerzt. Þegar hæstv. fyrrv. ríkisstj., sérstaklega undir forustu forsrh. Bjarna Benediktssonar, reyndi að koma því fram að bæta sérstaklega kjör láglaunafólks, þá tókst það ekki nema að mjög takmörkuðu leyti, vegna þess að hin hærra launuðu samtök innan Alþýðusambandsins létu verkamennina, eins og hv. þm. sagði, oftast ríða á vaðið og komu svo á eftir með hærri launakröfur, og þá var gjarnan tekið undir það, jafnvel af verkalýðssamtökunum sjálfum í heild, að það yrði orðið við þeim kröfum. Ég tel því, að þetta sé mjög mikið gleðiefni, ef á að reyna að lagfæra eitthvað í þessa átt, en legg hins vegar á það ríka áherzlu, að launamunurinn, sem ákveðinn var í kjörum opinberra starfsmanna, var nákvæmlega í samræmi við það hlutfall, sem starfsmannasamtökin sjálf lögðu til í sínum upphaflegu kröfum að launamunurinn yrði, þ.e.a.s. fjórfaldur.

Hæstv. ráðh. sagði í tilefni af fsp. minni, að auðvitað væri ætlun ríkisstj. að stuðla að verndun kaupmáttar. Ég hef ekki efazt um það á nokkurn hátt, að það hlyti að vera ætlun hennar, en ég taldi, að það hefði mikla þýðingu fyrir lausn kjaradeilunnar og hefði auðvitað mikla almenna þýðingu fyrir þjóðfélagið í heild, þróun atvinnulífs og fyrir launþega, að vita, hvernig ætti að gera þetta. Mér er óskiljanlegt, að það hafi verið sett á blað í stjórnarsamningnum, að það ætti að tryggja 20% kaupmáttaraukningu þeirra, sem lakar eru settir í þjóðfélaginu, á tveimur árum, án þess að forráðamennirnir, sem sömdu þetta makalausa plagg, hafi haft einhverja hugmynd, a.m.k. í stórum dráttum, hvernig ætti að fara að því. Það er ekki minnst um vert að gera sér grein fyrir því, það er höfuðatriði og kjarni málsins, sem hefur auðvitað áhrif á efnahagsþróunina, hvort hún stefnir í jákvæða átt eða ekki.