10.04.1972
Efri deild: 64. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1752 í B-deild Alþingistíðinda. (1733)

237. mál, lögreglumenn

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr., svo að nokkru nemi, enda var þessu frv. útbýtt hér í þinginu rétt fyrir helgi og hefur ekki unnizt tími til þess að fara nákvæmlega yfir það. En ég vil þó við 1. umr. málsins leyfa mér að nefna nokkur atriði, sem ég vonast til, að hv. þn., sem málið fær til meðferðar, taki til athugunar.

Það var rétt, sem fram kom hjá hæstv. forsrh., að það hefur löngum komið fram í samþykktum sveitarstjórnarmanna og Sambands ísl. sveitarfélaga, að eðlilegt væri, að ríkið eitt stæði undir löggæzlukostnaðinum. Þessar samþykktir hafa markazt af tvennu, annars vegar af því, að í raun og veru hafa sveitarfélögin ekki stjórnarfarslega ábyrgð á löggæzlumálum, þótt þau hafi greitt tiltekinn hluta kostnaðar við þau, og hins vegar hefur þetta markazt af því, að sveitarfélögin hafa óskað eftir greinilegri skilum milli verkaskiptingar ríkis og sveitarfélaga, og þá hefur þessi þáttur verið talinn falla eðlilega til ríkisins að því tilskildu reyndar, að aðrir þættir kæmu undir umsjá og stjórn sveitarfélaga. Þótt hér sé þannig varðandi þetta sérstaka mál um einhliða ákvörðun um minnkandi valdsvið sveitarfélaga eða réttara sagt minnkandi afskiptasvið sveitarfélaga að ræða, og þá helzt að því er kostnaðarhluttökuna snertir, þá er engin ástæða til þess að amast við frv. á þeim grundvelli, enda standa vonir til þess, að bráðlega verði ráðstafanir gerðar til þess, að fleiri verkefni verði færð í hendur sveitarfélaganna.

Í 3. gr. þessa frv. er niður felld sú viðmiðun, sem er í gildandi lögum um tölu lögreglumanna, og gat hæstv. dómsmrh. um það sérstaklega. Ég teldi varhugavert að fella niður slíka viðmiðun, ekki sízt þar sem sveitarfélögin hafa þá ekki beina aðild að þessum málum, eftir að kostnaðarhluttöku þeirra lýkur. Þess vegna er spurningin annað tveggja að hafa einhverja slíka viðmiðun áfram í lögunum eða, eins og hæstv. ráðh. gat um, að koma upp samráði milli löggæzluyfirvalda og borgaranna, — af borgaranna hálfu yrðu það væntanlega sveitarstjórnirnar, sem færu með umboð þeirra. Ég tel nauðsynlegt, að staðaryfirvöld hafi einhvers konar umsagnarrétt að því er lýtur að fjölda lögreglumanna í hverju umdæmi og umfang löggæzlunnar, svo mikilvægt sem það er á ýmsum sviðum. Ég nefni t. d. aðeins á sviði umferðarmála, þótt annað og meira sé ekki nefnt.

Þá er rétt, að það komi fram, að um leið og sveitarfélög hafa talið það eðlilegt, að ríkið taki yfir allan kostnað af löggæzlunni, þá er það staðreynd, að lögreglumenn hafa verið starfsmenn sveitarfélaganna um áratuga skeið og milli sveitarfélaganna og lögreglumanna sem starfsmanna hefur myndazt trúnaðarsamband, og hér í Reykjavík hefur þetta samband verið sérstaklega náið. Þess vegna er það ekki án viðkvæmni, að slíku trúnaðar- og starfssambandi sé slitið milli lögreglumanna og sveitarfélags, enda hafa lögreglumenn í Reykjavík talið hagkvæmara fyrir sig að vera starfsmenn sveitarfélags áfram. Ég hefði kosið, að unnt hefði verið að hafa nánara samband við þessa starfsmenn, bæði lögreglumenn í Reykjavík og annars staðar á landinu, áður en þessi breyting gekk í garð, og vonast til þess, að þeim verði gefinn kostur á að vera með í ráðum, þegar endanlega er gengið frá orðalagi og efnisinnihaldi 13. gr. þessa frv. Það er rétt, að það komi fram hér að gefnu tilefni af orðum hæstv. dómsmrh., að á vegum Lögreglufélags Reykjavíkur og Reykjavíkurborgar á grundvelli lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar hefur verið fjallað um lífeyrisréttindi lögreglumanna og lausn á því sérstaka vandamáli, sem er fólgið í því, að lögreglumenn eðlis starfs síns vegna geta tæplega gegnt því að fullu til sjötíu ára aldurs, eins og hæstv. ráðh. gat um. Við höfum í þeim efnum og á vegum þessarar nefndar, sem ég gat um, fengið sérstaka álitsgerð tryggingafræðings varðandi möguleikana á því að stytta starfsaldur lögreglumanna, þannig að þeir njóti engu að síður fullkominna lífeyrisréttinda að loknu starfi. Hér er um vandamál að ræða, sem ég legg áherzlu á, að áfram sé unnið að lausn á.

Þá er í 14. gr. frv. þess getið, að ríkið fái endurgjaldslaust í sinn hluta þau tæki og þann búnað, sem sveitar- eða sýslufélag hefur lagt lögreglunni til, sömuleiðis húsnæði, í það minnsta meðan það er notað áfram í þágu löggæzlunnar. Ég dreg í efa réttmæti ákvæða þessarar, gr., þar sem m. a. það er mjög mismunandi, ekki sízt að því er húsnæði snertir, hvað mikið einstök sveitarfélög hafa lagt löggæzlunni til, og ég teldi eðlilegra, að þarna yrði farið eftir samningum og sveitarfélögum yrði endurgreidd kostnaðarþátttaka þeirra samkv. ákveðnum reglum á ákveðnu árabili, og ég er þeirrar skoðunar, að það þyrfti ekki að vera mjög íþyngjandi fyrir ríkissjóð, en gæti hins vegar verið jafnréttismál milli sveitarfélaganna innbyrðis.

Í aths. við lagafrv. þetta er látið að því liggja, að við samningu þessa frv. hafi verið haft samráð við Samband ísl. sveitarfélaga eða fulltrúa sveitarfélaganna. Mér er nú nær að halda, að það samráð hafi verið afar takmarkað. Að vísu mun Samband ísl. sveitarfélaga hafa fengið nokkra punkta um aðalinnihald frv. þessa fyrir fulltrúaráðsfund Sambands ísl. sveitarfélaga, er haldinn var hér í Reykjavík í jan. s. l., en eftir því sem ég veit bezt hafa forráðamenn Sambands ísl. sveitarfélaga ekki haft tækifæri til að líta yfir frv. þetta eða gera sínar aths., áður en það var lagt fram hér á Alþ. Ég hlýt að finna að þessu um leið og ég vonast til þess, að n. sú, sem fær þetta frv. til meðferðar, bæti úr þessari vanrækslu og hafi fullt samráð við Samband ísl. sveitarfélaga, áður en n. afgreiðir málið frá sér.

Það er svo enn að lokum eitt mikilvægt atriði, sem ég vildi nefna, og það er, að ég hefði búizt við því, að samferða þessu frv. til laga um lögreglumenn, sem er afleiðing af fyrirheiti, sem gefið var í frv. um tekjustofna sveitarfélaga, að öllum löggæzlukostnaði væri létt af sveitarfélögunum, mundi fylgja frv. til laga um breyt. á lögum um héraðsfangelsi. En eins og kunnugt er, eiga sveitarfélögin samkv. þeim lögum að bera helming kostnaðar af byggingu og rekstri fangelsa, héraðsfangelsa, þ. e. fangelsa til geymslu á handteknum mönnum og gæzluföngum. Hér er ótvírætt um þátt í löggæzlukostnaði að ræða, sem ég tel fyrirheitið í tekjustofnalögunum hafa falið í sér, að ríkið ætlaði sér að taka yfir. Og ég vonast til þess, að þetta frv. hafi aðeins verið heldur seinna á ferðinni og muni brátt sjá dagsins ljós, því að eðlilegt er, að það frv. komi fram í sömu deild og fari til, hygg ég, sömu nefndar, þannig að hægt sé að skoða það sameiginlega. Hér er ekki heldur um mjög viðamikinn kostnað að ræða að því er rekstur snertir fyrir ríkissjóð í heild. Hér í Reykjavík er þessi rekstrarkostnaður í hlut Reykjavíkur að vísu áætlaður 5.2–5.3 millj. kr. á yfirstandandi ári, og ég skal reyndar geta þess, að fyrirhuguð er bygging héraðsfangelsis fyrir Reykjavík og væntanlega nágrannasveitarfélög sameiginlega, sem gæti kostað töluvert fé. Þessa ber að vísu ekki að dyljast, en ég vil leggja áherzlu á, að þegar verið er að tala um, að þetta frv., sem hér er til umr., sé til þess fallið að gera skilmerkilegri skil á milli verkefna ríkis annars vegar og sveitarfélaga hins vegar, þá er þar ekki nema hálfsögð sagan, ef óbreytt eiga að standa lög um héraðsfangelsi. Það er þess vegna nauðsynlegt til þess að þetta frv. og þessi fyrirhugaða breyting nái tilgangi sínum, að lögunum um héraðsfangelsi verði breytt. Og ég tel það enn fjarlægara verksviði sveitarfélaga nokkurn tíma að hafa afskipti af byggingu og rekstri héraðsfangelsa eða fangelsa til geymslu á handteknum mönnum og gæzluföngum heldur en þó að bera einhverja kostnaðarþátttöku af rekstri löggæzlunnar sem slíkrar.

Ég vonast til þess, að n. sú, sem fær þetta frv. til meðferðar, taki þessar aths. til athugunar, og vænti þess einnig, að lögum um héraðsfangelsi verði breytt, eins og ég hef hér gert grein fyrir.