10.04.1972
Efri deild: 64. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1756 í B-deild Alþingistíðinda. (1735)

237. mál, lögreglumenn

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Nokkur orð varðandi það, sem hæstv. dómsmrh. sagði, að það væri eins sveitarfélaganna og ríkisins að hafa samráð við starfsmenn sína, þegar slíkar breytingar eru í aðsigi eins og þær, að ríkið taki að sér allan löggæzlukostnað. Því er til að svara, að að vísu hafa sveitarfélögin óskað eftir þessu lengi, en ekki fengið þær undirtektir að þessu leyti fyrr en með fyrirheitinu í tekjustofnalögunum, sem hér voru til umr. í vetur, og við, sem höfum starfað að sveitarstjórnarmálum, hefðum að vísu, eins og ég gat um í minni fyrri ræðu, talið það skemmtilegra og hagkvæmara, að þessi verkaskipting hefði verið tekin upp á breiðari grundvelli. En látum svo vera, það var ekki tilefni til þess að hafa sérstakt samstarf við starfsmennina fyrr en að því var komið, að samningsgrundvöllur væri til staðar um slíka yfirfærslu kostnaðar vegna löggæzlu til ríkisins. Ég vil varpa því fram, að auðvitað er möguleiki á því, að löggæzlumenn séu áfram starfsmenn sveitarfélaga, þótt kostnaður vegna löggæzlunnar sé að öllu leyti greiddur úr ríkissjóði, a. m. k. að því er snertir þá, sem hafa verið starfsmenn sveitarfélaga og vilja halda því áfram.

Hitt atriðið, sem ég vil aðeins á þessu stigi málsins gera enn að umræðuefni, er kostnaðarhluttaka varðandi héraðsfangelsi. Ég vil taka það fram, að í öllum þeim tölum, sem ég hef haft, og að því er ég bezt veit, sem sveitarstjórnarmenn eða sveitarstjórnasambandið hefur opinberlega látið frá sér fara, þá hefur verið gert ráð fyrir því, að ríkissjóður tæki að sér allan kostnað við rekstur héraðsfangelsa og byggingu þeirra. Ef það er ekki sami grundvöllur í fjárlögunum, þeim sem nú er búið að samþykkja og gilda fyrir þetta ár, þá harma ég það, en held þó þennan kostnað ekki svo mikinn, að það eigi að koma í veg fyrir, að þessa breytingu mætti gera þegar með gildistöku frá og með 1. jan. s. l., en til vara legg ég áherzlu á, að slík breyting eigi sér stað og gildi a. m. k. frá og með gildistöku næstu fjárlaga. Hér er bersýnilega um hluta af löggæzlukostnaði að ræða og þess vegna verður að líta á það sem brigð á efndum á því fyrirheiti, sem gefið var í tekjustofnalögunum, ef þessari kostnaðarþátttöku sveitarsjóða er ekki af þeim létt og hún færð yfir til ríkisins. Ég skildi líka hæstv. dómsmrh. svo, að hann væri ekkert að útiloka það, að þetta væri tekið til meðferðar og rætt, og ég vil ítreka tilmæli mín til n. um, að það verði gert, og vonast þá til þess, að n. í samráði við hæstv. dómsmrh. komist að þeirri niðurstöðu, að rétt sé, um leið og n. afgreiðir þetta frv., að bera fram frv. um breyt. á lögum um héraðsfangelsi.

Ég vil svo taka undir þau ummæli hæstv. dómsmrh., að það er engin ástæða til annars en greiða fyrir framgangi þessa frv., eftir að það hefur hlotið góða og ítarlega athugun í n. og samráð verið haft við Samband ísl. sveitarfélaga og samtök lögreglumanna.