17.05.1972
Neðri deild: 84. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1853 í B-deild Alþingistíðinda. (1883)

255. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Ellert B. Schram [frh.]:

Herra forseti. Þetta er nú í þriðja skiptið, sem ég kem hér upp í pontuna í einni og sömu ræðunni. Þegar ég kom hér í annað skiptið, taldi ég rétt, af því að ég er óvanur því að láta marga tíma liða á milli upphafs og endis ræðu minnar, að rifja upp það, sem ég hafði sagt í upphafi ræðunnar, og gerði það hér áðan til þess að undirstrika ýmis grundvallarsjónarmið í þessu máli. Ég skal ekki þreyta þingheim á því að fara mörgum orðum um það aftur, sem ég er búinn að segja hér áður, en ég lofa því nú ekki, að ég komi ekki inn á það kannske svona í bland um leið og ég held áfram máli mínu, þar sem frá var horfið.

Ég var kominn þar ræðu minni, að mér þótti ástæða til þess, úr því að þessi mál ber á góma hér í þd., að fara nokkrum almennum orðum um húsnæðismálin og víkja að ýmsum hugmyndum, sem upp hafa komið til úrbóta og framfara á þessum vettvangi. Ég hef í þessu sambandi bent á, hverjar hafi verið frumorsakir að margra áliti fyrir háum húsnæðiskostnaði. Þar væri um að ræða fjármagnsmyndun og lánakerfi, sem verkaði ekki örvandi á viðleitni fólks til lækkunar, það væri verðbólga og skortur á verðvitund almennings og enn fremur væri þar um að ræða skort á valmöguleikum fólks til arðbærrar eignamyndunar, sem þýddi það, að almenningur festi fé í íbúðarhúsnæði, sem leiddi aftur til of mikillar eftirspurnar umfram framboðið á þessum vettvangi. Allt stuðlaði þetta að mjög örum verðhækkunum á fasteignum, verðhækkunum, sem eiga sinn stóra þátt í þeirri verðbólguskrúfu, sem mjög gætir hér á landi, og sú verðbólga og þær verðhækkanir, sem við verðum varir við, kemur jafnvel verst niður, þar sem fasteignir eru annars vegar, vegna þess að það er einmitt eitt af fyrstu verkum ungs fólks, sem stofnar til hjúskapar, að reyna að koma sér upp eigin húsnæði. Þetta stórkostlega þjóðfélagslega vandamál er nokkuð, sem við þurfum að horfast í augu við og ráða bót á, og ég tel fullt tilefni til þess að vekja athygli á því í umr. um svo veigamikið mál sem hér er á dagskrá.

Ég hef jafnframt vakið athygli á því í þessum umr., að þrátt fyrir það, að það væru ummæli margra hv. stjórnarsinna, að stuðla bæri að því, að fólk gæti komið sér upp eigin húsnæði og það skyldi búa í eigin íbúðum, þá væri stefna þeirra á mörgum sviðum nú í vetur þveröfug, sem sé sú að bera fram tillögur og lögfesta ýmis ákvæði, sem leiddu til þess eða hlytu að verka þannig, að það letti fólk, en ekki hvetti til að festa kaup á eigin húsnæði.

Ég hef líka vakið athygli á því og fjallað um, hversu þýðingarmikið það er í byggingariðnaðinum, að einstaklingar, byggingarmeistarar og félög á þeirra vegum fái svigrúm til þess að stunda sinn atvinnurekstur, og það sé farsælt fyrir byggingariðnaðinn í heild, fyrir húsnæðismálin sem slík, að hin frjálsa samkeppni og hinn frjálsi atvinnurekstur fengi að athafna sig á þessum vettvangi, því að reynslan væri sú, að það leiddi til þess, að verðlagi væri þó haldið nokkuð í skefjum og byggingarkostnaður væri í lágmarki. Þetta hefur sannazt, þegar gerður er samanburður annars vegar á þessum frjálsa atvinnurekstri, sem ég er að tala um, og hins vegar á framkvæmdum þeim, sem gerðar hafa verið á vegum hinnar svonefndu Breiðholtsáætlunar. Bæði kom í ljós við þann samanburð, að byggingarkostnaður var sízt hærri, jafnvel lægri hjá einstaklingunum, og hitt var líka staðreynd, að þau hús, einkum fjölbýlishús, sem einstaklingarnir byggðu, voru allajafna betur frágengin og uppfylltu gæðakröfur betur en sú fjöldaframleiðsla, sem fram fór á vegum Breiðholtsáætlunarinnar. Með þessum orðum var ég ekki að gera lítið úr þeim tilraunum, sem gerðar voru í nafni þessarar framkvæmdanefndar Breiðholtsáætlunar, þeim tilraunum, sem áttu og hafa stuðlað að því, að efnalítið fólk kæmist inn í eigin íbúðir með hagkvæmum kjörum. Og það hefur líka reynslan og sagan sýnt okkur, að eftirspurn hefur verið mjög mikil eftir þessum íbúðum í Breiðholtinu, þannig að þörfin var fyllilega fyrir hendi og fólk hefur kunnað að meta þau lánskjör, sem þarna var boðið upp á, og að því leyti hefur þessi tilraun heppnazt. Ég hef hins vegar haldið og tala þá kannske sem Reykvíkingur, að það hefði verið skynsamlegt að dreifa þessum byggingarframkvæmdum víðar og einskorða þær ekki svona næstum því eingöngu við Reykjavík. Í því sambandi hefur verið vakin athygli á því, að það sé ekki hyggilegt út frá félagsfræðilegum sjónarhóli að safna saman á einum og sama stað í nánast einu og sama húsinu, fólki, sem væri efnalítið og ætti kannske í erfiðleikum. Það gæti leitt til þess, að hverfið fengi á sig ákveðinn stimpil, hvort sem hann væri með réttu eða röngu á það hverfi settur, og skapaði andrúmsloft og almenningsálit, sem væri kannske ekki heppilegt. Þetta sjónarmið hefur komið fram og á rétt á sér, og ég tel, að þó að e. t. v. verði ekki aftur snúið með þær ráðagerðir, sem nú eru uppi um áframhaldandi framkvæmdir í Breiðholtinu, þá sé þetta til athugunar og til varnaðar, ef menn hafa þessi félagsfræðilegu sjónarmið í huga.

Þegar ég tala um hinn frjálsa atvinnurekstur og hina einstöku byggingarmeistara og nauðsyn þess, að þeir eigi sér tilveru áfram, þá er ég ekki að segja, að það megi ekki margt bæta hvað þá snertir, og mér er ljóst, að viss vandkvæði eru á því að hafa mjög smáar rekstrareiningar í byggingariðnaðinum sem annars staðar. En þeir geta vissulega þrifizt, þeir geta átt sér tilveru, þessir einstaklingar, sem af dugnaði hafa staðið í þessum atvinnurekstri um árabil, en sækja inn á þessi mið, enda þótt gerðar verði einhverjar breytingar, sem væru þá í því fólgnar, að meira samstarf yrði þeirra á milli, t. d. í framleiðslu byggingarvara eða framleiðslu byggingartækja. Þeir geta haft meiri samstöðu á þann hátt að nýta sér sérhæfingu og þeir gætu haft meiri samvinnu við byggingu fasteigna sinna og sölu á þeim. Þannig gætu þessir aðilar á þessum vettvangi eins og annars staðar starfað á þann hátt, að þeir gætu haft samstarf og samvinnu, en áfram rekið sín fyrirtæki í krafti síns dugnaðar og síns framtaks, þannig að við nýttum hæfileika hvers eins, þó að við jafnframt færðum okkur í nyt kosti þess að hafa samvinnu og samstarf á þessu sviði eins og annars staðar.

Ég skal ekki víkja hér að afkomumöguleikum slíkra fyrirtækja, t. d. hvað snertir fjármagnsmyndun, sjóðsmyndun eða það skattkerfi, sem þau búa við, en vissulega voru þær breytingar, sem gerðar voru á skattalögunum í vetur, ekki til þess fallnar að bæta afkomumöguleika þessara fyrirtækja frekar en annarra, og þá á ég við t. d. ákvæðin um arðinn af hlutafénu og möguleika til þess að leggja fé til hliðar í varasjóði.

Þá er ég kominn að því atriði, sem ég tel vera skýringuna á því mikla kappi, sem lagt er á að þvínga þetta mál hér í gegnum deildina, og þar á ég við ákvæðin, sem fjalla um yfirstjórn Húsnæðismálastofnunar ríkisins. Reyndar var gert ráð fyrir því upphaflega í þessu frv., að breyta skyldi líka um skipan stjórna verkamannabústaða í sveitarfélögum, en horfið hefur verið frá því. Sumir segja, að horfið hafi verið frá því eftir mikið samningamakk og baktjaldamakk hjá stjórnarsinnum, þar sem reyndar hver höndin hafi verið uppi á móti annarri. Um það skal ég ekki segja, en vissulega er það einkennilegt að draga út úr þessu frv. þetta ákvæði um stjórnir verkamannabústaða, en láta önnur standa og leggja áfram kapp á, að þau komist í gegn, eða hvaða tilefni er til þess að kippa þessum ákvæðum út og láta þau bíða? Er einhver minni ástæða fyrir þeim breytingum, sem þessi ákvæði gera ráð fyrir, heldur en hinum? Var ekki að mati hæstv. félmrh. nauðsynlegt, að þetta mál kæmist allt í gegn, eins og það liggur fyrir og venja er, þegar frv. eru lögð fram? Maður verður að ætla, að þetta frv. hafi verið undirbúið að undirlagi hæstv. ráðh., hann hafi samþykkt frv. og lagt blessun sína yfir, að það færi í gegn, og þess vegna kemur það spánskt fyrir sjónir, að hér í miðri afgreiðslu þingsins á þessu frv. er skyndilega fallizt á að kippa út einu ákvæði, en ekki öðru. Við sjálfstæðismenn höfum lagt áherzlu á það, að þetta mál mætti bíða og gæti beðið, ekki aðeins ákvæðin um stjórn verkamannabústaða, heldur líka ákvæðin um stjórnina hjá Húsnæðismálastofnuninni og ákvæðin um vísitölubindinguna. Og ég leyfi mér að inna eftir því, hvaða rök séu sérstaklega fyrir því að kippa þessum ákvæðum út, en ekki öðrum. Hvaða munur er á þessu? Hvað veldur því, að allt í einu er farið að breyta þessu svona? Af hverju er ekki hægt að taka tillit til þessara sjónarmiða stjórnarandstöðunnar og láta málið bíða, eins og það var lagt fram í heild sinni? Og ég get satt að segja ekki séð, hvernig ráðh. getur verið fullsæmdur af því að leggja málið fram og vera síðan að krukka svona í það samfara einhverju baktjaldamakki í stjórnarherbúðunum. (Gripið fram í.) Það er kannske ekki meiri alvara á bak við þetta en svo, að hægt sé að krukka í þetta og færa þetta til, og í sjálfu sér ekkert athugavert við það, þó að það séu gerðar brtt., en hér er ekki um að ræða neinar brtt. Hér er bara fallizt á það á milli funda að fresta framkvæmd og samþykkt á ákveðnum ákvæðum. Það er ekki þingið sem slíkt, sem hefur tekið þá ákvörðun. Það eru einhverjir menn hér í einhverjum hliðarsölum, sem hafa tekið þessa ákvörðun. Það hefur ekki verið borið undir þessa deild.

En þá er komið að stjórn Húsnæðismálastofnunarinnar. Hv. 11. landsk. þm., Ólafur G. Einarsson, rakti hér fyrr í dag, hvernig hæstv. ráðh. hefði hringlað með stjórn þessarar stofnunar á sínum valdatíma bæði fyrr og nú, og ég verð að segja, að ég hafði ekki gert mér grein fyrir því. Ég vissi, að hæstv. ráðh. hafði gert breytingar á frv. á sínum tíma, hvað stjórnina snertir, en ég vissi ekki, að þetta lægi svona augljóslega fyrir, tilhneigingar hans til þess að sölsa undir sig völdin í þessari stofnun með því hreinlega að breyta alltaf lögum um stjórn þessarar stofnunar sitt á hvað eftir eigin geðþótta og ávallt í þeim anda að breyta valdahlutföllum í þessari stofnun, sem hann þó vill halda fram, að eigi ekki að hafa nein völd, raunveruleg og stjórnmálaleg.

Nú er í þessu frv. gert ráð fyrir því, að fækkað sé í húsnæðismálastjórn í sex menn. Það er nú niðurstaðan að fækka skuli úr átta mönnum í sex. En nú skipta tölur í sjálfu sér ekki máli í þessu sambandi. Ég get ekki skilið, hverju það breytir, hvort það sitja sex menn eða átta menn í stjórn Húsnæðismálastofnunar. Ef það er eitthvert sparnaðarmál, þá legg ég lítið upp úr því að spara laun tveggja stjórnarmanna á þessum vettvangi. Annað eins hefur nú skeð að skipa nefndir og ráð og launa það allt saman upp úr og niður úr, og ég hef ekki séð nein rök fyrir því að breyta allt í einu tölu þessara stjórnarmanna. Það er engin skynsamleg skýring á því önnur en sú, sem ég kem að hér á eftir. Efnislega get ég ekki séð, að það sé nein þörf á því að fækka í þessari stjórn. Nú hefur hins vegar hæstv. ráðh. gefið í skyn, að það þyrfti að breyta stjórn Húsnæðismálastofnunar á þann veg, að menn væru þar ekki með pólitískt þukl, eins og hann orðar það, og hann hefur talið eða gefið í skyn, að slíkt þukl væri viðhaft á þessum vettvangi. Ef hæstv. ráðh. á við, að óeðlilegt sé, að stjórnmálamenn séu að notfæra sér aðstöðu sína í slíkum stofnunum, misnota hana með þeim hætti að vera að ota sínum mönnum fram og þeirra hagsmunum á kostnað annarra og fram hjá reglum, ef hann á við þetta, er hann talar um pólitískt þukl, þá er ég honum alveg hjartanlega sammála. Ég er hjartanlega sammála því, að slíkt á ekki að viðgangast, hvorki á þessum stað né öðrum. Og ég tel að reglurnar um lánveitingar úr Byggingarsjóðnum séu það skýrar, að ekki þurfi neitt pólitískt mat eða stóra stjórn til þess að vega það og meta. Þar er ég líka sammála ráðh., ef hann hefur átt við það. En hins vegar er það mín trú, að stjórn þessarar stofnunar hafi ekki haft pólitísk afskipti af lánveitingum nú í alllangan tíma. Ég vil ekki trúa því, og ég hef enga ástæðu til þess að halda það. Ég hef fylgzt með mörgu fólki, sem sækir um lán til þessarar stofnunar, og það hefur gengið fyrir sig með eðlilegum og réttmætum hætti, og ég hef ekki orðið var við, að neinn hafi beitt sér eða viljað beita sér pólitískt til þess að fara fram hjá reglum, af því að viðkomandi lánsumsækjandi tilheyri einum eða öðrum stjórnmálaflokki. En þessi stjórn hefur að sjálfsögðu mörg önnur verkefni heldur en það að vera með puttana í lánveitingunum, ef einhver heldur, að hún geri það. Á það hefur verið bent af núverandi húsnæðismálastjórn, að verkefnin eru ærið mörg og miklu víðtækari og svo mörg og margþætt, að það er fráleitt að sjálfsögðu, að tala um, að hægt sé að hafa yfirstjórnina þannig á þessari stofnun, að það sé einhver maskína, einhverjir embættismenn í einhverri veðdeild í Landsbankanum, síður en svo. Ég held, að óþarfi sé að fara mörgum orðum um þau sjónarmið. Að sjálfsögðu er nauðsynlegt, að það sé stjórn, hvort sem það eru sex eða átta menn eða fleiri eða færri á þessari stofnun, til þess að móta einmitt heildarstefnuna í þeim verkefnum, sem Húsnæðismálastofnun hefur til meðferðar og undir hana heyra.

Um leið og ég endurtek það, að ég er á móti pólitísku þukli í þeim skilningi, sem ég hef útskýrt hér, þá held ég samt, að rétt sé, að yfirstjórn slíkrar stofnunar beri pólitíska ábyrgð og slík stjórn sé ekki eingöngu og einasta sett í hendur embættismanna, sem ekki bera neina ábyrgð gagnvart kjósendum, gagnvart fólkinu. Ég held, að það sé svo með þessa stofnun eins og flestar aðrar, ef ekki allar aðrar, að þær þurfa að heyra undir pólitíska stjórn hvað heildarstefnu snertir, og ef eitthvað fer úrskeiðis, þá er hægt að sækja þessa pólitískt kjörnu yfirstjórn til saka og til ábyrgðar á misgerðunum. Þess vegna get ég fyrir mitt leyti ekki fallizt á þá brtt., sem fram kemur frá hv. 3. landsk. þm., Bjarna Guðnasyni, þar sem hann gerir ráð fyrir því í sinni brtt., að í húsnæðismálastjórn eigi sæti þrír menn, einn tilnefndur af félmrh. og sé hann formaður, einn af Sambandi ísl. sveitarfélaga og einn af Alþýðusambandi Íslands. Ef hæstv. ráðh. er þeirrar skoðunar, að það eigi ekki að vera pólitísk stjórn á Húsnæðismálastofnuninni, þar eigi ekki að viðgangast pólitískt þukl, og ef hann álítur, að það viðgangist, þá mundi ég halda, að hann ætti að styðja þessa tillögu frá Bjarna Guðnasyni. Það hefði verið rökrétt. (BGuðn: Vill ekki hv. þm. endurtaka þetta?) Það er sjálfsagt að endurtaka, hvar á ég að byrja? Nei, ég var að fara hér yfir þær tillögur, sem lagðar hafa verið fram um breytingar á Húsnæðismálastofnun ríkisins, og ég var að fjalla um það, að ég teldi, að slík stofnun ætti að heyra undir pólitíska stjórn, en ef hæstv. félmrh. væri þeirrar skoðunar, að svo væri ekki, og ef hann væri þeirrar skoðunar, að þarna viðgengist misnotkun á pólitísku valdi, þá ætti hann að styðja þá tillögu, sem kemur frá hv. 3. landsk. þm., Bjarna Guðnasyni, sem stefnir í þveröfuga átt og út af fyrir sig er sjónarmið, sem ég get ekki fallizt á, en á alveg fyllilega rétt á sér. Og þá hefði ég haldið, að það væri miklu mennilegra og hreinskilnislegra af hæstv. ráðh. að ganga alla leiðina, en vera ekki að leggja til að fækka um tvo menn í stjórninni, gera enga eðlisbreytingu á stjórninni, en vera á sama tíma að tala um, að það sé pólitískt þukl á ferðinni og að afnema eigi pólitíska ábyrgð á þessum stað. Staðreyndin er nefnilega sú, að hér er að mínu viti á ferðinni siðleysi. Ég nota því miður þetta sterka orð. Ég held, að hér sé á ferðinni pólitískt siðleysi, sem ég held, ef ég man rétt, að hinn nýi flokkur SF hafi fordæmt hvað mest í þessu þjóðfélagi með réttu eða röngu og telji sig raunar hafa því hlutverki helztu að gegna að reyna að afnema það. En þegar ég segi og kalla þetta pólitískt siðleysi, þá á ég við það, að hér kemur tillaga frá hæstv. félmrh., sem er formaður í ákveðnum stjórnmálaflokki, tillaga um það að fækka um tvo í stjórn Húsnæðismálastofnunar og fá þannig tilefni bæði til þess að breyta um menn í stjórninni og kjósa upp á nýtt, þannig að valdahlutföll breytast. Hann gerir enga tillögu um neina efnisbreytingu, um neina grundvallarbreytingu á stjórn þessarar stofnunar. Hann gengur ekki eins langt og hv. 3. landsk. þm. mælir með. Nei, hann gerir einfaldlega þessa litlu breytingu, að fækka um tvo menn, og leggur fram frv. til þess að hægt sé að kjósa upp á nýtt í þessa stjórn. Og til hvers er þetta gert? Það skyldi þó ekki vera gert til þess að fá einhver völd í þessari stjórn, til þess að geta kannske ástundað eitthvert pólitískt þukl? Ég bara spyr: Hvað á maður að halda? Og hér í þinginu er verið að velta vöngum yfir því, hvort þessi flokkurinn eða hinn flokkurinn fái menn inn í þessa stjórn áfram þrátt fyrir þessar skoðanir hæstv. ráðh.

Því miður held ég, að það búi ekki að baki því kappi, sem lagt er á, að þetta mál fari í gegn, það búi ekki á bak við það sá hugur, að það þurfi að breyta einhverjum grundvallaratriðum í húsnæðismálum okkar. Það liggur ekkert á að koma vísitölubindingunni eða afnámi hennar í gegn. Það eina, sem skiptir máli greinilega, þegar maður skoðar þetta niður í kjölinn, er að breyta stjórn Húsnæðismálastofnunarinnar, breyta þannig, að fækkað er um tvo menn, að hægt er að kjósa upp á nýtt og hæstv. félmrh. hafi tækifæri til þess að tilnefna formanninn. Og það verður mjög fróðlegt, ef þetta frv. fer í gegn, að sjá, hvernig sú skipan fer fram.

Herra forseti. Ég mun nú senn ljúka máli mínu. Ég hefði nú viljað koma inn á margt fleira, ræða um þessi mál á víðari grundvelli og fitja upp á ýmsum öðrum málum, en sé ekki ástæðu til þess að vera að þreyta þd. á löngum ræðuhöldum, fæ kannske tækifæri til þess síðar að koma ýmsum öðrum sjónarmiðum á framfæri, en niðurstaða mín af þessu spjalli, þessum fátæklegu hugleiðingum er sú, að það liggi ekkert á að koma þessu máli í gegn, það sé engin knýjandi þörf á því önnur en sú, að einhver ákveðin öfl vilji fá sína menn inn í þessa stjórn í staðinn fyrir einhverja aðra. Og svo segi ég að lokum: Ég hef talað hér í langan tíma og haldið uppi málþófi, og ég er ekkert feiminn við að viðurkenna það, vegna þess að ég er ekki að setja fótinn fyrir það, að vísitölubindingin sé afnumin. Ég vil ekki setja fótinn fyrir það, að einhverjar jákvæðar og almennilegar breytingar séu gerðar á húsnæðismálalögunum. En ég er á móti því, þegar hér eru lögð fram frv. og á að knýja þau í gegn í þeim eina tilgangi að breyta valdahlutföllum í ákveðinni stofnun í þessu þjóðfélagi, vegna þess að það er hægt að geta í það, til hvers sá leikur er gerður. Og ég á erfitt með að sætta mig við, að hæstv. ráðherrar leiki þann leik að segja hér í ræðum á þingi, að þeir séu á móti pólitísku þukli og þeir vilji breyta í grundvallaratriðum skipan á stjórn þessarar stofnunar, en á sama tíma leggi þeir fram tillögur, sem engu breyta öðru en því, að þeir augsýnilega fá völdin í sínar hendur.