18.05.1972
Efri deild: 95. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1916 í B-deild Alþingistíðinda. (1915)

255. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Mér er kunnugt um, að forseti d. óskar eftir því, að menn teygi ekki mjög lopann við þessar umr. og skal ég verða við því, en vegna þess að hæstv. ráðh. situr hér, vil ég aðeins beina nokkrum fsp. til hans, sem eru varðandi fjármálin. Vitanlega hefði það verið forsenda fyrir að fara af stað með svona frv. um Húsnæðismálastofnun ríkisins að efla sjóðinn, af því að áður voru svo vondir menn í ríkisstj., að þeir eyddu öllu án þess að hugsa nokkuð til framtíðarinnar. Þó viðurkenndi hann, að tekjurnar, sem kæmu í hann, væru um það bil einn milljarður, en það getur vel verið, að þeir hafi tekið forskot á sæluna og eytt langt fram í tímann. Þá væri mjög gott að fá hreinlegt yfirlit yfir það, svo að við sæjum svart á hvítu, hversu hroðalegir þeir hafa verið í óráðsíunni, fyrrv. ráðherrar. Það væri ekkert á móti því að sjá það, finnst mér, alls ekki neitt. Hitt vil ég fá afdráttarlaust fram, með hvaða hætti hann hyggst tryggja peningana, þar sem útlán hljóta að verða í kringum 1 milljarður eða útlánaþörfin og þörfin fyrir nýjar íbúðir á hverju ári er 1504–1600 íbúðir. Það er aðeins breytilegt svona eftir áhuga fólksins og því, hvernig fólkið metur ástandið í þjóðfélaginu, en þörfin er þessi. Það sýnir reynslan undanfarin ár og reynslan sýnir enn fremur, að u. þ. b. helmingur af útlánum í þessu skyni hefur farið til Reykjavíkur, og á ég þá ekki eingöngu við Reykjavík sem slíka, heldur stór-Reykjavíkursvæðið, en hitt hefur dreifzt á aðra kaupstaði og út um land.

Nú hefur verið vandlega rakið hér, hvað það ákvæði þýðir að lána 600 þús. kr. og að þörf sé á að hækka þá upphæð vegna hækkunar á vísitölu. Það getur þýtt allt að 200 þús. kr. hækkun á íbúð, þ. e. 200 millj. bara vegna verðbreytinga í landinu, sem er óhjákvæmilegt að mæta húsbyggjendum með. Mig minnir í sambandi við Keflavíkurflugvöll, að einu sinni væri gefið í skyn, að hægt væri að fá fjárveitingu í þá framkvæmd innanlands. Kannske er hægt að bera víurnar í það núna, vegna þess að það breyttist. Lífeyrissjóðirnir sem slíkir geta engan veginn ráðið við þá fjármagnsþörf, sem nauðsynlegt er að fá. Þótt þeir vildu gera vel, þá er fjármagnsþörfin örugglega meiri en það, annars vegar vegna óráðsíu, eins og sagt hefur verið, og hins vegar verðbólguáhrifanna. En svo er annað, sem kemur inn og á eftir að velgja mörgum húsbyggjanda undir uggum. Það er sú óvissa, sem er um að tryggja lán, og lán þarf á þessu ári, svo að nemi nokkrum umtalsverðum upphæðum, og svo hitt, að þegar viðskiptabankarnir vita það, — hér er í d. einn hv. þm. bankastjóri að starfi, — munu þeir verða mjög tregir til þess að hjálpa með bráðabirgðalánum, vegna þeirrar óvissu sem ríkir um að fá lánin afgreidd örugglega síðla árs, eins og venja hefur verið undanfarin ár, og einnig vegna útgáfu á spariskírteinum, sem hæstv. ríkisstj. er nú búin að fá lögheimild til en það eru allt að 700 millj. núna á hálfu ári í tveimur gusum, 200 millj. áður og 500 millj. núna, þannig að fjármagnshreyfingar verða nú með allt öðrum hætti en verið hefur undanfarin ár. Það getur vel verið, að það reynist betur og vonandi fer svo, að það reynist betur heldur en við í stjórnarandstöðunni höldum, en þetta hefur allt sín áhrif. Og þó að skynsamlegt sé vegna mikillar þenslu — ég segi skynsamlegt — að hamla á móti verulegri aukningu í íbúðarhúsabyggingum og hafa hana jafna, þá er líka óskynsamlegt að draga svo snögglega úr, að jafnvel komi til vandræða. Það leysir ekki nein vandamál. Nei, það er nauðsynlegt að fá af þessu heildarmynd og í því skyni hefði hæstv. ráðh. átt að koma með frv., en ekki frv., sem aðeins þjónar þeim tilgangi að tryggja hans flokki fulltrúa í stjórninni, eins og hann viðurkenndi auðvitað, eðlilega. Það er ekki nema eðlilegt af honum og ég hugsa, að flestir ráðh. hefðu viljað, jafnmikilvægan málaflokk og hér er um að ræða, hafa þarna fulltrúa síns flokks, það er ákaflega rökrétt, vegna þess að ég er alveg viss um, að hann vill leysa þessi mál á félagslegum grundvelli og einmitt þess vegna er hann heldur á móti því að setja það allt inn í bankakerfið, af því að ég tel, að miðað við allt, sem skeð hefur, og miðað við það, sem hann segir, vilji hann leysa málin á félagslegum grundvelli, og þess vegna hlýtur málið að vera tengt Alþ. Það er ekki bara verið að lána þetta dauðum persónum. Þetta er eitt af stærstu atriðum í lífi hverrar fjölskyldu, hvernig tekst til með íbúðarhúsnæði. Meginþátturinn í slíkri lausn hlýtur því að verða, séð frá öllum hliðum, stærð húsnæðis, gæði húsnæðis og þar fram eftir götunum, sem byggt verði á félagslegum sjónarmiðum, og það veit ég, að hæstv. ráðh. samþykkir.

Klukkan er nú að verða sex og ekki ástæða til að halda þessum umr. mjög lengi áfram, þó að ég hefði gjarnan viljað tala miklu lengur. En ég vil undirstrika það, að íbúðaþörfin er svo mikil, að ekki verður hægt að lita fram hjá því að gera þarf átak til að tryggja fjármagnið, og ég vil fá það fram hér núna við þessa umr., hvað ráðh. hugsar sér meira en að ræða við lífeyrissjóðina.

Ég hafði vakið athygli hv. 1. landsk. þm. á því, að í 6. gr., eins og frv. kemur nú frá Nd., er hortittur, og hæstv. ráðh. minntist á það. Við hljótum að verða að breyta því, því að í 6. gr. segir einfaldlega: „Alþingi kýs húsnæðismálastjórn þegar eftir gildistöku laganna.“ Mér finnst óverjandi að afgreiða svona orðalag, ef á annað borð á að kjósa í stjórnina strax eftir að frv. fer héðan sem lög, vegna þess að það er ekki hægt, þegar þinglausnir eiga að fara fram á morgun. Þess vegna verður að breyta þessari grein. Það er ekki hægt að komast hjá því. Annars erum við að fremja hér undarleg afglöp.