16.12.1971
Neðri deild: 27. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1938 í B-deild Alþingistíðinda. (1940)

131. mál, bann gegn veiðum með flotvörpu og botnvörpu

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Breytingar á lögum um hann gegn botnvörpuveiðum voru lengi vel eitt af viðkvæmustu málunum, sem hér voru rædd á Alþ., og minnist ég þess, að í þau skipti, sem ég gerði tilraun til að fá þeim breytt, urðu um þær till. mjög skiptar skoðanir og náðu þær ekki fram að ganga. Það var fyrst með þeirri breytingu, sem gerð var í desember 1968, að samkomulag varð og þá einróma á þingi um að gera tiltekna breytingu, sem átti þó aðeins að standa í nokkra mánuði eða til 30. apríl 1969, ef ég man rétt. Hæstv. þáv. sjútvrh. skipaði þá nefnd í málið til þess að endurskoða þessi lög og gera till. um breytingar, ef hún treysti sér til þess. Eins og hv. frsm. gat um, vann sú nefnd áhyggilega mjög gott starf og lagði mikið á sig í því sambandi, og árangurinn varð sá, að þær breytingar, sem hún lagði til, náðu fram að ganga með miklu minni andstöðu en nokkurn tíma áður hafði verið og voru endanlega samþykktar hér á Alþ. með yfirgnæfandi meiri hl. Einnig var í till. þeirrar nefndar það ákvæði, og var það lögfest, að lögin ættu að renna út eftir tiltekinn tíma eða í árslok 1971. Þetta var gert, eins og hér kom fram, í þeim tilgangi að láta reyna á breytingarnar og sjá, hvernig þetta reyndist í framkvæmd og hverju væri eðlilegt að breyta, ef þess væri talin þörf innan skamms tíma. Þessi tími er nú að verða liðinn, gildistími laganna er að renna út.

Hæstv. núv. sjútvrh. skipaði einnig nefnd í málið til framhaldsathugunar á því, og hefur hún haldið nokkra fundi, eins og hv. frsm. gat um, og ég hygg, að það liggi alveg ljóst fyrir, að eftir þann tíma, sem lögin hafa verið í gildi, hefur komið á þau nokkur reynsla og málin hafa, sem betur fer, þróazt í þá átt, að ég hygg, að miklu raunsærra sjónarmið hafi skapazt í sambandi við þessa tegund fiskveiðanna. Þó er það svo, að okkur er það alveg ljóst, að fram munu koma bæði frá einstaka nefndarmönnum og án efa frá félagasamtökum útvegsmanna víða um land ábendingar um enn frekari breytingar. Hafði nefndin rætt þetta á fundi sínum. En ég vil undirstrika það, sem kom fram hjá hv. frsm. hér áðan, að ef á að fara að gera breytingar á frv. nú, er alveg fyrirsjáanlegt, að það mun ekki ná fram að ganga fyrir áramót, og teldi ég það miður farið, því að vitaskuld þurfa að gilda ákveðin lög í sambandi við þessar veiðar, og ég vildi ekki eiga það á hættu, að þar yrði stigið neitt skref aftur á bak. Ég hef þess vegna, þó að ég sé með ákveðnar og tilteknar breytingar á lögunum í huga, gerzt hér meðflm. að þessu frv. og mundi eindregið vilja fara fram á það við aðra hv. þm., að þeir tækju þá afstöðu að samþykkja þetta frv., sem eingöngu er um það og um það eitt að framlengja lögin óbreytt í eitt ár til þess, að betri tími gefist til þess að vinna að breytingum á því og skipuleggja þessar veiðar að fenginni þeirri reynslu, sem þegar er komin á, og að fenginni þeirri reynslu, sem án efa mun koma fram á næsta ári, ef lögin gilda einnig út það ár. Þess vegna styð ég það mjög eindregið, að frv. verði samþ. óbreytt eins og það hefur verið lagt fram.