07.02.1972
Efri deild: 43. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1952 í B-deild Alþingistíðinda. (2028)

40. mál, sala Ytri-Bugs í Fróðárhreppi

Frsm. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Frv. þetta er um heimild fyrir ríkisstj. til að selja jörðina Ytri-Bug í Fróðárhreppi á Snæfellsnesi. Kaupendur eru bræður þeir, sem um getur í 1. gr. frv. Jörð þessi er í útjaðri Ólafsvíkurkauptúns, og leitað hefur verið umsagnar jarðeignadeildar ríkisins og Landnáms ríkisins, og mæla báðir aðilar með söluheimildinni. Einnig hefur verið leitað umsagnar Ólafsvíkurhrepps um sölu jarðarinnar, og mælir hreppsnefndin þar með sölunni.

Sú breyting var gerð á frv. í hv. Nd., að kaupendum er óheimilt að selja jörðina eða hluta úr henni öðrum en ríkissjóði eða nærliggjandi hreppum, þ. e. Ólafsvíkurkauptúni eða Fróðárhreppi. Ytri-Bugur er að fasteignamati 221 þús. kr., sem skiptast þannig: tún 51 þús. kr., annað land 43 þús. kr., íbúðarhús 82 þús. kr. og útihús 45 þús. kr.

Landnámsstjóri segir, að jörðin sé landlítil og geti ekki framfleytt nægjanlegum bústofni ein út af fyrir sig. Sama kemur fram í umsögn jarðeignadeildar ríkisins. AS fengnum þeim álitum, sem ég hef lýst, mælir landbn. Ed. með samþykkt frv., eins og fram kemur á þskj. 298.