02.12.1971
Neðri deild: 20. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1955 í B-deild Alþingistíðinda. (2048)

97. mál, sala Brekkuborgar í Breiðdalshreppi og Þorsteinsstaða í Sauðaneshreppi

Flm. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Oddvitinn í Breiðdalshreppi hefur fyrir hönd hreppsnefndarinnar þar í sveit farið þess á leit, að veitt verði lagaheimild til þess, að Breiðdalshreppur eignist jörðina Brekkuborg í Breiðdal. Bóndinn, sem bjó á Brekkuborg, hefur látið af búskap, og jörðin er nú í eyði. Jörð þessari fylgja veiðiréttindi í Breiðdalsá, og hreppsnefndin telur mjög þýðingarmikið, að þessari jörð verði skynsamlega ráðstafað, þannig að tryggð verði þar ábúð til frambúðar, en jörðin verði ekki notuð í neinu öðru skyni, og telur bezt fyrir því séð með því, að hreppurinn eigi jörðina. Flm. eru sömu skoðunar og leggja því til, að ríkisstj. verði heimilað að selja Breiðdalshreppi þessa jörð.

Ég legg til að málinu verði vísað til 2. umr. að aflokinni þessari umr. og til hv. landbn.