13.12.1971
Neðri deild: 26. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 163 í B-deild Alþingistíðinda. (218)

99. mál, happdrættislán vegna vega- og brúargerða á Skeiðarársandi

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Fyrst til þess að lýsa enn einu sinni yfir ánægju minni út af því, að hæstv. ríkisstj. hefur gert það að stefnumáli sínu að koma upp þessum vegi og þeim brúm, sem til þarf til að brúa bilið, sem ólokið er á hringveginum um landið. Eins og kunnugt er, er ákvæði um þetta í stjórnarsáttmálanum, og hæstv. ríkisstj. hefur lýst því yfir sem sinni stefnu, að þetta bæri að gera á þremur árum.

Ég er meðmæltur þessu frv., sem hér liggur fyrir, vegna þess að Seðlabankinn telur, og þeir hafa þar, að manni skilst, æði mikla reynslu í þessu, tryggara, að bréfin seljist með því að vísitölutryggja þau, eða sem sagt hefur ekki nægilegt traust á því, að þau seljist þess. Það mun hafa komið fram hjá Seðlabankanum, að þeir teldu mikils vert, hvernig tækist í fyrsta skipti, sem þessi happdrættislánaleið væri reynd nú um sinn, því að ef vel tækist til, mætti svo fara, að hægt væri að beita þessari fjáröflun meir en áður hefur verið gert. Ég hygg, að frá því sjónarmiði einnig hafi þeir í bankanum haft mikinn áhuga fyrir því, að það gæti gengið snurðulaust og hrukkulaust að koma út þessum bréfum. Af þessum sökum höfum við þm. af Austfjörðum, eftir að hafa heyrt skoðanir bankans á þessu, verið meðmæltir því, að sú lagabreyting ætti sér stað, sem hér er stungið upp á. Ég teldi óvarlega farið að hafa þessi ráð Seðlabankans að engu, vegna þess hve mikið við eigum hér í húfi.

Hv. 1. þm. Sunnl. sagði, að Seðlabankanum hefði kannske ekki verið kunnugt um áhuga þm. á Suðurlandi fyrir þessu máli, en ég held, að Seðlabankanum hafi hlotið að vera kunnugt um hann, vegna þess að þeir hafa látið hann í ljósi hvað eftir annað undanfarið og ekkert verið yfir þeim að kvarta í því. Ég held því, að það hljóti að hafa borizt til Seðlabankans, að þeir hefðu mikinn áhuga fyrir málinu. Hitt er annað mál, að ég veit ekki, hvort hv. þm. Sunnl. hafa heimsótt Seðlabankann sérstaklega út af þessu máli til þess að ýta á eftir því, eins og þm. Austf. hafa gert. Heldur er mér ekki kunnugt, hvort hv. þm. Sunnl. hafa s.l. sumar gengið oft á fund ríkisstj. til þess að ýta á eftir þessu, eins og þm. Austf. hafa gert. Það er langt frá því, að ég . sé nokkuð að álasa þeim, þó að þeir hafi ekki gert það, því að vilji þeirra og áhugi hefur verið þekktur, og ég held, að það geti ekki verið, að Seðlabankinn hafi neitt misskilið í þessu. A.m.k. höfum við þm. Austf. alltaf, bæði í stjórnarráðinu og Seðlabankanum og alls staðar alveg sérstaklega dregið fram þennan áhuga þeirra og margra annarra þm. hvaðanæva af landinu, sem er almennur orðinn. Við höfum ekki sparað það. Ég held, að sé hér um mistök að ræða að hafa eingöngu sýnt okkur þm. Austf., en ekki neinum öðrum þetta frv., áður en það var lagt fram, þá hafi ríkisstj. í því eina afsökun, og hún er sú, að við séum þeir einu, sem höfum á s.l. sumri og í haust haft sérstakt samband við hana og Seðlabankann og vegamálastjóra út af þessu máli. Held ég, að hæstv. stjórn geti afsakað sig með því.