09.12.1971
Efri deild: 26. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2004 í B-deild Alþingistíðinda. (2186)

112. mál, sala Holts í Dyrhólahreppi

Flm. (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. Málið, sem hér er á dagskrá, er þess efnis, sem greinir í 1. gr. frv., en hana leyfi ég mér að lesa upp, með leyfi hæstv. forseta:

Ríkisstj. er heimilt að selja Jóhönnu Sæmundsdóttur, Nykhól, Dyrhólahreppi, eyðijörðina Holt í sama hreppi. Verð jarðarinnar fer eftir því, sem um semst. Náist ekki samkomulag um kaupverð, skal það ákveðið með mati dómkvaddra manna.“

Vil ég leyfa mér, þó að ég hafi oft gert það áður í þessari hv. d., að rekja málsefnið með nokkrum orðum, og þá ekki sízt vegna hinna nýju þm., sem margir eru hér í hv. d. og hafa lítt eða ekki kynnt sér þetta mál.

Á árinu 1936 keypti ríkissjóður jörðina Holt í Dyrhólahreppi. Eigendur jarðarinnar voru hjónin Jóhanna Sæmundsdóttir og Þorsteinn Einarsson, sem þar höfðu búið með myndarbrag um langan tíma. Þorsteinn Einarsson er látinn fyrir mörgum árum. Vissulega voru það ríkar ástæður, sem leiddu til þess, að til kom þessarar jarðarsölu, og vissulega mun eigendum hafa verið harla sárt að sjá þannig á bak jarðeigninni, jarðeign, sem hafði veitt þeim margan yndisarð og nokkuð góða afkomu. En ástæðurnar fyrir jarðarsölunni voru þessar í stórum dráttum: Ríkið ákvað að framkvæma fyrirhleðsluaðgerðir og jafnframt gera aðrar breytingar á vatnasvæði jarðarinnar. Veita átti í einn farveg ánum Hafursá og Klifandi vegna brúargerðar, og það var þá talið mjög líklegt, að sakir þessara aðgerða af opinberri hálfu yrði jörðin Holt alls ekki byggileg. Þegar málum var þannig komið, var nauður ein að taka því sem hverju öðru óhjákvæmilegu mótlæti að láta jörðina af hendi til ríkissjóðs með þeim kostum, sem einir voru í boði. En samt sem áður hélt Jóhanna Sæmundsdóttir ábúðarrétti sínum, og það var þó sannarlega raunabót. Hefur Jóhanna síðan nytjað þessa jörð, Holtið, ásamt fólki sínu, en þó frá annarri jörð, sem er í nágrenninu. Þegar fram liðu stundir, kom smám saman í ljós, að vatnságangur og spjöll önnur voru mun minni en óttazt hafði verið í upphafi. Þá tóku að sjálfsögðu að segja til sín þau bönd, sem tengdu ekkjuna við gömlu eignar- og ábýlisjörðina. Þess vegna hefur ekkjan um langt skeið sótt fast að eignast jörðina að nýju, og sérhverjum velþenkjandi manni hlýtur að finnast sú ósk ekkjunnar ofur eðlileg. Miðað við þá stefnu, sem á Alþ. hefur fram að þessu verið fylgt að því er varðar sölu á ríkisjörðum, mætti ætla, að slíkt mál sem þetta, svo einfalt sem það er í sniðum og venjulegt að öllu leyti, fengi skjóta afgreiðslu og jákvæða á þinginu. En því hefur ekki verið að heilsa. Svo sem alkunna er, hefur frv. sama efnis og það, sem hér er til umr., verið flutt þing eftir þing. Á hinni löngu og torsóttu leið þess og á ýmsum tíma hefur það verið flutt af velflestum þm. Sunnl., ýmist í Ed. eða í Nd. Ekki hefur virzt til að dreifa flokkspólitískum hagsmunum, síður en svo. En samt sem áður og þrátt fyrir allt þetta hefur fyrirstaðan við framgang þess verið slík, að líkast hefur verið því sem hagsmunum ríkissjóðs væri teflt í tvísýnu eða jafnvel í verulega hættu, ef þetta frv., sem lætur svo lítið yfir sér, hefði verið samþ. á Alþingi.

Þá er að geta þess, að innan Dyrhólahrepps, þar sem þessi jörð er, er slík eining og hefur verið a. m. k. um tíma, að hreppsnefnd hefur einróma mælt með sölunni til ekkjunnar og telur þá ráðstöfun vera hreppsfélaginu til góðs eins, og verður að telja það réttilega metið og álitið, enda þarf engan að undra, þótt hreppsnefndin taki þráðinn upp með þessum hætti, engan, sem þekkir til ekkjunnar og hennar fólks. Hinu hefur verið haldið fram af fyrri andófsmönnum þessa máls, að ríkissjóður kynni að verða fyrir tilfinnanlegu tjóni, ef af sölu yrði. Og í raun og veru hefur það verið eina mótbáran. En mér og mörgum öðrum sýnist, að sú mótbára hafi ekki verið studd þeim rökum, að á henni verði byggt um úrslit þessa máls. Og þá er einnig á það að líta, að í frv. er aðeins heimild til handa ríkisstj. að selja ekkjunni þessa jörð. Ekki tel ég, að núv. hæstv. ríkisstj. sé það ætlandi fremur en fyrrv. ríkisstj., að hún gæti ekki metið, svo að sanngjarnt og rétt væri, hagsmuni ríkissjóðs, áður en heimild yrði notuð. Auk þess gæti ríkisstj. sett viss skilyrði, þegar til afsals kæmi, skilyrði, sem ríkisstj. þætti henta að setja upp í afsalinu. Og ég sé það í máli, sem hefur verið fyrir Nd. og nál. er komið um, það er í sambandi við frv. til l. um heimild fyrir ríkisstj. að selja jörðina Ytri-Bug í Fróðárhreppi á Snæfellsnesi, að landbn. Nd. hefur breytt þessu heimildarfrv. á þá leið, að kaupendum jarðarinnar sé óheimilt að selja jörðina eða hluta hennar öðrum en ríkissjóði eða næstu sveitarfélögum. Það mun ekki oft hafa verið sett inn slík breyting, að ég hygg, í sambandi við jarðasölur úr hendi ríkissjóðs eða á ríkisjörðum. En þarna kemur fram breyting, sem að minni hyggju má telja eðlilega til þess að festa jarðeign eins og unnt er, svo að hún ekki gangi kaupum og sölum endalaust. Heimildarákvæði, sem frv. hefur að geyma, hefur að minni hyggju ekki hina minnstu hættu í för með sér fyrir ríkissjóð af þessum sökum, að ríkisstj. getur sett hvert það skilyrði, þó eðlilegt, inn í afsalið, sem tryggir það, að vel fari um jörðina og ríkissjóður hafi engin óþægindi af sölunni. Þannig sýnist í raun og veru algerlega óþarft, að nokkur þm. beri framar ugg í brjósti um það, að hagsmunum ríkissjóðs verði ekki þrátt fyrir söluna sæmilega vel borgið á þessu sviði.

Herra forseti. Ég vil geta þess, að í grg. fyrir frv. hefur skolazt örlítið til í frásögn um gang.málsins, og óskast það að sjálfsögðu afsakað. Og þetta verður lagfært við endurprentun á frv., þegar að því kemur, að prentvélar fara í gang.

Í síðasta sinn, sem frv. var til meðferðar hér í þessari hv. d., var það ekki samþ., heldur var það fellt eftir 2. umr. með að vísu mjög naumum meiri hl., og ég leyfi mér að segja, að það hafi komið mjög á óvart af þeirri reynslu, sem fengin var hér í Ed. um framgang málsins, og kannske að það megi teljast til nokkurrar óheppni, sem ég vona, að ekki komi til í þetta sinn, því að jafnan hefur þetta mál átt vísan stuðning meiri hl. dm. og tvívegis verið samþ.

Það má í raun og veru margt fleira um þetta mál segja, en ég vil ekki tefja þdm. með löngu máli. Það eru ýmiss konar málsatriði, sem mætti drepa á, en ég geri það ekki hér í framsöguræðu minni, en að því gæti komið, að þau atriði verði dregin fram. Þau atriði tel ég þó ekki vera þess eðlis, að þau tilheyri kjarna málsins, en mætti vera, að það kæmi fram í ræðum, ef til þess kæmi, ræðum þeirra, sem væru andvígir framkvæmd málsins, að þyrfti að taka til þeirra og fleiri gagna.

Að lokum, herra forseti, auk hins eðlilega og réttmæta efnis þessa frv. hefur ekki síður þótt rétt að flytja frv. enn einu sinni sakir þeirrar breytingar, sem orðið hefur á þingmannaliði, og kanna enn einu sinni fylgi frv. hér í hv. d. Og þannig er þess freistað að koma nú, ef unnt er, málinu gegnum þingið til fulls lagagildis.

Herra forseti. Svo óska ég þess, að að lokinni þessari umr. verði málið samþ. til 2. umr. og til landbn.