22.03.1972
Neðri deild: 55. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2022 í B-deild Alþingistíðinda. (2219)

231. mál, dýralæknar

Frsm. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Eins og fram kemur í grg. með þessu frv., þá hefur landbn. Nd. flutt þetta frv. að beiðni landbrh., en nm. áskilja sér rétt til þess að flytja eða fylgja brtt., sem síðar munu koma fram. Annars er þetta mál þannig til komið, að oddvitarnir í Svarfaðardalshreppi og Árskógsstrandarhreppi ásamt sveitarstjóranum á Dalvík hafa beðið um flutning á þessu máli. Hér sem fskj. fylgir yfirlýsing frá yfirdýralækni ásamt dýralækni á Akureyri, Guðmundi Knútsen, þar sem þeir mæla með því, að þetta frv. verði samþ., en 1. gr. frv. er þannig, með leyfi forseta:

„1. gr. Í stað 11. liðar 2. gr. laganna komi tveir töluliðir, svofelldir, og breytast töluliðir gr. samkv. því:

11. Dalvíkurumdæmi: Ólafsfjörður, Dalvík, Svarfaðardalshreppur, Hrísey, Árskógsstrandarhreppur.

12. Vestur-Eyjafjarðarumdæmi: Akureyri, Hrafnagilshreppur, Glæsibæjarhreppur, Öxnadalshreppur, Skriðuhreppur, Arnarneshreppur.“

En það, sem kemur fram í umsögn þessara lækna, yfirdýralæknis og dýralæknisins í þessu umdæmi, Vestur-Eyjafjarðarumdæmi, er, að þetta umdæmi eins og það er, er mjög stórt og bústofn í hinu nýja, fyrirhugaða dýralæknisumdæmi, að sögn yfirdýralæknis, yrði um 11 þús. fjár, 1600 nautgripir og 250 hross. Á Dalvík er sláturhús, sem þessi Guðmundur Knútsen á Akureyri hefur verið eftirlitsmaður með, en hann er líka eftirlitsmaður með sláturhúsinu á Akureyri og hefur þar meira en nóg verkefni í sláturtíðinni. Það hefur verið þannig á undanförnum árum, vegna þess hve þetta dýralæknisumdæmi, Vestur-Eyjafjarðarumdæmi, er stórt og annasamt, að um margra ára bil hefur verið maður úti í Svarfaðardal, sem hefur þó ekki lækningaleyfi, sem hefur reynt að hlaupa í skarðið, þegar ekki hefur vegna anna eða færðar verið hægt að ná í dýralækni á Akureyri.

Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa þessi orð hér að þessu sinni fleiri. Að lokinni þessari umr. legg ég til. að málinu verði vísað til 2. umr. og landbn.