10.05.1972
Neðri deild: 74. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2052 í B-deild Alþingistíðinda. (2321)

253. mál, þingsköp Alþingis

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Mál þetta hefur þegar verið svo ítarlega rætt, að ég mun ekki gera það efnislega, enda, legið fyrir hv. Alþ. mörg undanfarin þing. Ég vildi aðeins leyfa mér að fylgja með örfáum orðum úr hlaði brtt., sem ég vil leyfa mér að leggja hér fram skrifl. og leyfa mér að flytja ásamt hv. 1. þm. Sunnl. Þessi brtt. er við 5. gr. frv. þess efnis, að á eftir 2. tölul. 1. mgr. komi nýr liður og töluröð breytist samkv. því, þ. e. undir 3. lið komi: „atvinnumálanefnd, skipuð 7 mönnum.“ Það verði sem sé kjörin til viðbótar ein n. í Sþ., sem beri nafnið atvinnumálanefnd. Einnig leggjum við til í till. okkar, að í b-lið, á undan síðasta málsl. 2. mgr. komi: „Til atvinnumálanefndar skal vísa þeim málum. sem landbúnaðar-, sjávarútvegs- og iðnaðarnefndir í deildum mundu fjalla um, ef borin væru fram í frumvarpsformi.“

Þessi till. er borin fram að gefnu tilefni sérstaklega vegna þess, að það hefur legið fyrir nú í vetur, að það eru ekki aðeins tugir mála, sem hefur verið vísað til allshn., heldur geri ég ráð fyrir, að þau mál fari að nálgast 100 nú, og sízt ætla ég að draga úr þeirri staðreynd, sem öllum er ljós, að þessi hv. n., allshn. Sþ., hefur sjaldan unnið betur en hún hefur gert á yfirstandandi þingi. Hins vegar er það svo, að flutningur þessarar brtt. okkar er fyrst og fremst af hagræðingarástæðum, og teljum við, að með samþykkt hennar megi mikil vinna sparast og fleiri mál gætu þar náð afgreiðslu til Sþ.

Ég vil leyfa mér, herra forseti, að óska þess, að leitað verði afbrigða fyrir þessari till. og hún borin upp.