17.05.1972
Neðri deild: 82. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2056 í B-deild Alþingistíðinda. (2339)

253. mál, þingsköp Alþingis

Frsm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir um breytingu á þingsköpum Alþ., var flutt af allshn. þessarar hv. d. og að verulegu leyti byggt á 6 ára gömlu frv. frá mþn., en er nú komið hingað aftur til d. frá hv. Ed., og hefur hún gert á því breytingar, sem ég víl leyfa mér, af því að ég hef verið frsm. þessa máls hér í d., að vekja athygli á. Breytingarnar, sem Ed. hefur gert á frv., eru eftir því, sem mér virðist, við 5. gr. og við 13. gr.

Breytingin við 5. gr., en sú grein fjallar um þn., er um að breyta nafni á einni af fastanefndum þd., þannig að fjhn. verði eftirleiðis nefnd fjárhags- og viðskiptanefnd, og er með þessu tekið tillit til ábendingar, sem gerð hefur verið um þetta efni að vísu með nokkuð öðrum hætti við umræður um málið.

Í öðru lagi hefur verið gerð breyting á 13. gr. frv., og þar er raunar um tvær breytingar að ræða. Önnur er um það, að áður en stefnuræðu forsrh. er útvarpað, skuli eftirrit af ræðunni afhent þm. sem trúnaðarmál eigi síðar en viku áður en hún er flutt. Hin breytingin er þess efnis að fella niður að útvarpa fjárlagaræðu, framsöguræðu fjmrh., við 1. umr. fjárlaga og umræðu um hana.

Ég vil segja það um þessar breytingar, sem ég nú hef nefnt, að mér virðist fyrir mitt leyti eðlilegt, að hv. Nd. geti á þær fallizt, þannig að afgreiða megi frv. svo breytt sem lög frá þingi.

Ég vil svo bæta því við auk þess, sem ég nú hef sagt, að ég vil vona það fyrir mitt leyti, að reynslan leiði í ljós, að sú breyting, sem gerð verður á þingsköpunum, ef þetta frv. nær fram að ganga, reynist til bóta að ýmsu leyti. Þess er þó að gæta, að undanþágur frá þingsköpum eru á valdi þm. á hverjum fundi, og ekki má gera ráð fyrir, að breytingar þær, sem nú eru væntanlegar á þingsköpunum, hafi í för með sér neina stórbreytingu á starfsháttum þingsins. Þeir aðilar, sem einkum móta starfshætti þingsins á hverjum tíma, eru þingforsetarnir og ríkisstj., sem að jafnaði hefur mikil áhrif, hver sem hún er, á ganghraða þingmála og að jafnaði flytur sjálf mörg hin stærstu mál. Glöggt er gests augað, og einn hinna nýkjörnu þm., þ. e. sem nú situr á þingi í fyrsta sinn, hefur oftar en einu sinni í vetur haft orð á því við mig, að honum þætti nefndastörfum vera áfátt í þinginu. Hann benti mér á það, að hann hefði tekið eftir því, að sumar n., sem hann tilgreindi, hefðu ekki verið boðaðar á fund vikum saman, þótt þar lægju fyrir mál til afgreiðslu. Ég geri ráð fyrir, að það sé ekki einsdæmi um þær n. eða á þessu þingi. Sjálfur hef ég þótzt veita því athygli í seinni tíð, að n. leggi minni alúð við störf sín nú en þær gerðu fyrir 30–40 árum, þegar ég átti fyrst sæti á Alþ. eða hafði kynni af þingstörfum. En það hygg ég miklu skipta fyrir löggjafarstarfið, að þn. vinni vel og láti ekki sinn hlut eftir liggja. Ekki má þá heldur gleyma því, að þingflokkarnir, sem nú eru orðnir fimm talsins og fer trúlega fjölgandi að öðru óbreyttu, ráða mjög miklu um starfshætti þingsins, og það liggur við, að segja megi, að Alþ. skiptist nú í fimm þing líkt og stéttaþingin fyrr á öldum.

Utanstefnur viljum vér engar hafa, stóð í Gamla sáttmála. En þátttaka Íslands í alls konar bandalögum og þjóðasamstarfi fer nú sívaxandi og jafnframt það, að alþm. sé nú oft og mörgum utan stefnt af þeim sökum, stundum þegar verst gegnir, og fjarvistir hinna reglulega kjörnu þm. aukast einnig af öðrum sökum. Það hefur líka sín áhrif, að fundir eru nú orðið lengst af á þinginu ekki haldnir nema fjóra daga í viku, og segir það þá til sín, ef nefndastörf aukast þá ekki að sama skapi. Allt það, sem ég nú hef nefnt, hefur áhrif á starfshætti þingsins, en hornsteinn þingstarfanna, löggjafarinnar og hins sjálfstæða þjóðríkis á Íslandi er auðvitað stjórnarskráin. Hin fyrirheitna lýðveldisstjórnarskrá er enn ófengin. Endurskoðun gömlu stjórnarskrárinnar er enn ólokið 28 árum eftir lýðveldisstofnunina. Á því leikur vís enginn vafi, að meiri hluti þjóðarinnar vill láta endurskoða stjórnarskrána, og ég held, að meiri hl. alþm. muni einnig vera þess sinnis, en það mál er nú einnig á lokastigi hér í þinginu.