04.05.1972
Neðri deild: 70. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2062 í B-deild Alþingistíðinda. (2348)

145. mál, iðnfræðsla

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Eftir þessa rækilegu ræðu frsm. er raunar óþarft að koma hingað upp til að mæla með frv., en mér finnst samt rétt að gera með nokkrum orðum grein fyrir afstöðu minni til þessa máls. Það hefur verið réttilega talað um það, að skattar á atvinnurekendum væru orðnir býsna margir og það væri ekki rétt að bæta nýjum við, og það finnst kannske einhverjum við eiga í þessu tilefni eða í þessu sambandi, að eðlilegra sé að leggja það fé fram, sem hér um ræðir, til Iðnnemasambandsins beint frá ríkinu en gera það með þeirri skattheimtu, sem ræðir um í frv. En ég held, að þegar menn athuga þetta nánar, þá sjái þeir, að þetta mál er nokkuð sérstaks eðlis og með því að tryggja þann tekjustofn, sem frv. fjallar um, þá fær Iðnnemasambandið miklu öruggari tekjur heldur en ef þarf að leita á náðir Alþ. hverju sinni, þegar ákveða skal. hve hátt framlag það eigi að fá. En það, sem hafði svo mikil áhrif á mig í þessu sambandi, að ég féllst á þessa skattheimtu, var það, að í sambandi við þær breytingar á skattalögunum, sem gerðar voru hér fyrr á þinginu, var létt verulega sköttum af iðnmeisturum umfram aðra atvinnurekendur. Iðnmeistarar hafa hingað til greitt bæði sjúkrasamlagsgjöld og almannatryggingagjöld fyrir iðnnema, en með þeim breytingum, sem urðu á skattalögunum á síðasta þingi, þá fellur þessi kvöð alveg niður, vegna þess að ríkið hefur tekið að sér að greiða sjúkrasamlagsgjöldin og almannatryggingagjöld, sem iðnmeistarar greiddu áður.

En í sambandi við þetta mál finnst mér rétt að minna á frv., sem ég flutti ásamt hv. 3. þm. Norðurl. e., Ingvari Gíslasyni, á síðasta þingi um breyt. á l. um iðnfræðsluna. Efni þessa frv. var á þá leið að fjölga fulltrúum í iðnfræðsluráði um tvo, þannig að Iðnnemasambandið tilnefndi þrjá fulltrúa í iðnfræðsluráð í staðinn fyrir einn nú. Atvinnurekendur tilnefna nú þrjá fulltrúa í iðnfræðsluráð. Það liggur í augum uppi, að iðnfræðsluráðið er sú stofnun, sem hefur fjallað langsamlega mest um þessi mál og skiptir þess vegna mjög miklu máli, hvernig þar er á málum haldið. Þar er ákveðið í stórum dráttum, hvernig iðnfræðslulögin eru framkvæmd og hvernig leyst eru mörg ágreiningsmál. sem kunna að koma upp á milli iðnmeistara og iðnnema. Og maður getur vel gert sér það í hugarlund, að þar sem um níu manna ráð er að ræða, og aðeins er þar einn ungur maður frá iðnnemum, geti oft og tíðum verið nokkuð örðugt verkefni fyrir hann að halda á málum þeirra þar. Og þess vegna væri það eðlilegt fyrirkomulag, að þeir ættu þarna jafnmarga fulltrúa og atvinnurekendur, eða þrjá. Því miður náði þetta frv. ekki fram að ganga á síðasta þingi, en hins vegar hafði það þau áhrif, að sú breyting var gerð á iðnfræðslulögunum í fyrra, að fjölgað var fulltrúum iðnnema í skólanefndum iðnskólanna, og það var áreiðanlega spor í rétta átt. Sú stefna er nú yfirleitt uppi annars staðar og ber líka á henni í vaxandi mæli hér, að nemendur sjálfir fái að tilnefna fleiri eða færri og jafnvel fleiri fulltrúa í þær nefndir, sem sjá um fræðslumál og skólakennslu. Þetta hefur verið gert í Háskóla Íslands í nokkrum mæli og verður vafalaust gert í enn ríkari mæli í framtíðinni. Ég held, að þess vegna hljóti það að teljast eðlileg skipan á iðnfræðsluráðinu, að þar verði fjölgað fulltrúum frá iðnnemum og réttur þeirra tryggður þar á sama hátt og t. d. stúdenta við Háskólann. Ég hef hins vegar ekki viljað hreyfa þessu máli hér í sambandi við þetta frv., vegna þess að um það kann að vera einhver ágreiningur, og ég hef ekki viljað verða til þess að torvelda framgang þessa máls. Hins vegar mun ég eiga þátt í því, og vænti þess að fá þar fullan stuðning, að þetta mál um fjölgun iðnnema í iðnfræðsluráði verði tekið upp á næsta þingi, og ég vænti þess, að það muni ná fram að ganga þá.