12.05.1972
Sameinað þing: 68. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2193 í B-deild Alþingistíðinda. (2472)

Almennar stjórnmálaumræður

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Frændur okkar Írar eru mjög pólitískir og harðir í horn að taka í þeim efnum eins og heyra má í daglegum fréttum. Til er gömul saga á þá lund, að írskur sjómaður var á skipi, sem fórst í hafi. Hann bjargaðist á ókunna strönd og komu menn þar að, sem drógu hann á land. Þegar Írinn rankaði við sér, leit hann á heimamenn og spurði:

Er ríkisstjórn í þessu landi?

Ó-já, svöruðu heimamenn.

Þá er ég á móti henni, sagði Írinn.

Enda þótt við Alþfl.-menn höfum miklar mætur á Írum, höfum við ekki tekið upp að öllu stefnu írska sjómannsins, eftir að okkur rak upp að strönd stjórnarandstöðunnar. Við höfum að vísu lýst yfir mótstöðu við núv. ríkisstj., en sú mótstaða er málefnaleg og við höfum ekki aðeins gagnrýnt það, sem miður fer, heldur einnig reynt að styðja þau mál, sem við teljum horfa til bóta.

Þegar fyrrv. ríkisstj. lét af völdum eftir 12 ára samstarf Alþfl. og Sjálfstfl., skildu leiðir þessara flokka og hvarf hvor um sig til síns uppruna, til sinnar ómenguðu stefnu. Þessir tveir flokkar höfðu hagað stjórnarsamstarfi sínu á þá lund, að deilur þeirra í milli fóru að mestu leyti fram að tjaldabaki, en mál voru ekki flutt á Alþ., fyrr en samkomulag hafði náðst um þau. Þetta var talið stuðla að sterkari ríkisstj., en ýmsum, sem utan við stóðu, sýndist flokkarnir renna miklu meira saman en þeir í raun og veru nokkru sinni gerðu.

Sjálfstfl. hefur nú snúið til hægri og tekið upp harða kapítalíska stefnu. Formaður flokksins vegsamar í eldhúsumr. gróða og gróðastefnu og telur til hinna beztu dyggða. Það hefði hann aldrei gert, meðan hann var forsrh. samsteypustjórnar. Sjálfstæðismenn leggja nú megináherzlu á baráttu gegn stórauknu miðstjórnarvaldi ríkisbáknsins, eins og þeir kalla það, en í samstarfinu við okkur komu þeir upp Seðlabanka Íslands, sem er mikið ríkisbákn og langmesta miðstjórnarvald, sem þekkzt hefur í íslenzku efnahagslífi. Þá voru þeir ekki eins áhyggjufullir yfir vægum lýðræðissósíalisma og þeir eru nú orðnir.

Við Alþýðuflokksmenn höfum á sama hátt snúið okkur til vinstri og dustað rykið af ýmsum baráttumálum jafnaðarmanna, sem við gátum ekki fengið framgengt í síðustu ríkisstj. Við höfum nú tekið afstöðu á móti ýmsu, sem við gengum inn á til samkomulags á þeim árum, en að sjálfsögðu er það grundvöllur samsteypustjórna, að flokkar, sem í henni eru, komi hver um sig einhverju fram, en láti undan og komi til móts við samstarfsflokka sína í öðrum málum.

Þm. Alþfl. hafa í vetur flutt fjölda frv. og till. um hagsmunamál launþega og neytenda, svo og um tryggingar og önnur mál, sem varða bættan hag og aukið öryggi alls almennings. Því miður hefur ríkisstj. lítið sinnt þessum till., t. d. um skattamál sjómanna, vinnutíma bátasjómanna, tryggingar fyrir tannlækningar, neytendalöggjöf, vernd gegn húsnæðisokri og ýmislegt fleira. Þm. Alþfl. hafa m. a. flutt till., sem stefnir að því, að þjóðin sem heild skuli eignast óbyggðir landsins til þess að varðveita og nota í sameiginlega þágu í framtíðinni. Þetta er í eðli sínu einhver mesta þjóðnýtingartillaga, sem fram hefur komið á Alþ. um árabil, en hún hefur fengið góðar undirtektir hjá fólki í öllum flokkum, sem skilur eðli þessa máls.

Örlög till. urðu athyglisverð. Í þingnefnd tóku Framsfl.-menn og sjálfstæðismenn saman höndum um að vísa till. frá, en Alþýðuflokksmenn, Alþýðubandalagsmenn og frjálslyndir studdu hana. Mál eins og þetta leiða í ljós betur en margt annað, hverjir raunverulega eru vinstri menn og hverjir hægri menn í íslenzkum stjórnmálum.

Sá þáttur í stefnu núv. ríkisstj. sem Alþfl. hefur hvað helzt veitt stuðning, eru yfirlýsingar stjórnarinnar um aukna áætlunargerð og skipulegri vinnubrögð við fjárfestingu og uppbyggingu landsins. Þessar hugmyndir eru nákvæmlega þær sömu og jafnaðarmenn um heim allan halda fram, og við höfum fagnað því, að nú skyldi stíga ný skref á þessari braut hér á Íslandi. Það var áður búið að taka upp áætlunargerð með góðum árangri á mörgum sviðum. Árleg framkvæmdaáætlun ríkisins er í eðli sínu skref í þessa átt, og það eru landshlutaáætlanir vissulega líka. Þá tíðkast áætlunargerð í vegamálum og raunar í margvíslegum öðrum framkvæmdum. Má því segja, að víðtækari áætlunargerð fyrir efnahagskerfi okkar allt og ýmsa hluta þess sé eðlilegt framhald af þeirri byrjun, sem þegar er fyrir hendi.

Yfirleitt þykir mega dæma eftir fyrstu mánuðum hverrar ríkisstj., hvernig hún muni í stórum dráttum verða, enda þótt ekki sé unnt að kveða upp lokadóma fyrr en síðar. Ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar hefur nú setið í 10 mánuði, og enn sem komið er virðist hana annaðhvort skorta vald eða vilja til að framkvæma hin fögru fyrirheit um áætlunargerð og skipulega uppbyggingu. Þetta verkefni hefur verið falið Framkvæmdastofnun ríkisins, sem komið var á fót snemma á þessu ári. Sú stofnun er að vísu yngri en sjálf ríkisstj. og varla hægt að vænta mikils starfs af henni enn þá, en hún hefur óneitanlega farið hægt af stað.

Skuttogaramálið var tilvalið verkefni til áætlunargerðar. Það er viðurkennt af öllum landsmönnum, að þjóðin þurfi sífellt að endurnýja og auka fiskiskipaflota sinn. Hingað til hefur þetta oftast verið gert í miklum gusum. Fjöldi skipa hefur verið keyptur á skömmum tíma, en síðan fá eða jafnvel engin langar stundir á milli. Þessu er aðeins hægt að kippa í lag með skipulagðri áætlunargerð um reglulega öflun fiskiskipa, og þess má einnig minnast, að framtíð skipasmiðaiðnaðarins hér á landi byggist á því, að skipabyggingar verði samfelldar og öruggar á komandi árum.

Framkvæmdastofnunin lagði ekki til atlögu við þetta vandamál. Þetta er bylgja, sem verður yfir okkur að ganga, sögðu ýmsir og ypptu öxlum, eins og gert hefur verið um slík mál undanfarna áratugi. Það vottaði ekki fyrir því, að sjálf ríkisstj. hefði áhuga á að taka þetta mál föstum tökum eða kæmi auga á, að þarna var fyrsta stóra verkefnið fyrir hina nýju áætlunarstefnu. Það verður því að segjast eins og það er, að bæði stjórnin og stofnunin misstu fyrsta augljósa tækifærið til að framkvæma hin fögru fyrirheit um áætlunargerð og skipulega uppbyggingu atvinnuveganna. Svipaða sögu mætti segja um ýmis smærri mál, og fyrsta framkvæmdaáætlun ríkisstj. ber þess vissulega ekki vott, að hún hafi verið skipulega unnin í samræmi við neina heildarstefnu í efnahagsmálum. Þessi áætlun er því miður verðbólguaukandi, hvernig sem á hana er litið, og hlýtur að magna það vandamál, sem er nú þegar erfiðast fyrir stjórnina, en mun verða henni þyngra í skauti, þegar fram líða stundir. Hæstv. ráðh. ættu að rifja upp feril gömlu vinstri stjórnarinnar í efnahagsmálum og sjá, hvort þeir gætu ekki eitthvað lært af þeirri reynslu. Verðbólgan varð því rn. að falli.

Landbúnaðarmál hefur lítið borið á góma á því þingi, sem innan skamms verður lokið. Breytingar á ræktunarlögum, sem auka aðstoð við bændur um rúmlega 17 millj. kr., verða vafalaust samþ. með atkv. flestra eða allra þm. Hins vegar virðist frv. um framleiðsluráð landbúnaðarins, sem felur í sér verulegar stefnubreytingar í landbúnaðarmálum, vera strandað í n., ekki vegna mótspyrnu stjórnarandstæðinga, sem að vísu er fyrir hendi, heldur vegna ágreinings innan stjórnarflokkanna. Ekki er sú byrjun góð.

Í sambandi við athugun þessa frv. veitti framleiðsluráðið þn. samkv. ósk athyglisverðar upplýsingar um bústærð á Íslandi, en í þeim upplýsingum er e. t. v. að finna eina skýringu á því, hvers vegna bændur hafa verið og eru launalægsta stétt þjóðarinnar. Þessi skýrsla var gerð í árslok 1969 og nær til 5100 bænda. Þá var meðalbúið, sem á að tryggja bændum sömu laun og viðmiðunarstéttunum, 401 ærgildi, en aðeins 1600 af 5100 bændum höfðu þessa bústærð eða meira. Það kom sem sagt í ljós, að aðeins 31.4% bænda í landinu hafði meðalbúið, sem afkoma þeirra á að miðast við. Tveir af hverjum þremur bændum landsins voru fyrir neðan þessa bústærð. Af þessum tölum verður ljóst, að vonlaust er fyrir 15 hluta bændastéttarinnar að hafa þær tekjur af bústofni — það kunna þó að koma aðrar tekjur til — að þeir haldi í við aðrar vinnandi stéttir, eins og til er ætlazt. En þriðjungur bændanna hafði því meiri tekjur og virðist hafa haft um það bil 55% af öllum tekjum stéttarinnar af búfé.

Því betur sem þessi skýrsla er lesin, því betur kemur í ljós stórkostlegur munur á fjölmennri stétt smábænda í landi okkar annars vegar og hins vegar fámennri stétt stórbænda, sem eiga bróðurpartinn af bústofni landsins, fá bróðurpartinn af aðstoð ríkisins og tekjum bændastéttarinnar.

Ef litið er á bændur, sem áttu samkv. þessari skýrslu 600 ærgildi eða meira, kemur í ljós, að þeir voru aðeins 10% stéttarinnar. En þessi 10% bændanna áttu 24% af öllum bústofni landsins.

Ef litið er á enn stærri bændur, þá sem áttu 800 ærgildi eða meira, tvöföld vísitölubú, kemur í ljós, að þeir voru aðeins 133 að tölu, en þessir fáu menn áttu yfir 8% af öllum bústofni landsins.

Það er líka fróðlegt að athuga aðra dálka í þessari skýrslu, þar sem smábændurnir eru taldir. Í flokknum 200 ærgildi, þ. e. hálft vísitölubú eða minna, voru samtals 29% allra bænda landsins, en þeir áttu ekki nema 10.5% af bústofninum.

Þessar upplýsingar sýna það, sem mörgum hefur verið ljóst, þótt allt of sjaldan sé á það minnzt, að eitt mesta vandamál íslenzks landbúnaðar er að draga úr hinum gífurlega mismun, sem er á milli smábænda og stórbænda og jafna bústærðina. Að vísu eru menn langt frá því að vera sammála um, hvaða bústærð sé hagkvæmust við íslenzkar aðstæður. En augljóst er, að allan þorra smæstu búanna verður annaðhvort að stækka, sameina þau öðrum búum eða leggja þau niður, svo að meðalstærðin aukist til muna og tekjur bænda verði jafnari og betri en nú er.

Ýmislegt hefur að vísu verið gert í þessum tilgangi. Einu sinni voru veittir sérstakir styrkir til að stækka tún, sem voru minni en fyrst 15 og síðan 25 hektarar. En eftir fá ár var markið afnumið og stórbændurnir fengu sama styrk og hinir smáu. Aðstoð hefur um árabil verið veitt til byggingar íbúðarhúsa í sveitum. Í upphafi var hún takmörkuð við þá, sem höfðu viðmiðunarbú eða minna. Svo var takmarkið afnumið, og stórbændurnir fá nú sama styrk og hinir. Þannig hefur þróunin allt of oft verið hér á landi. Ýmiss konar aðstoð er fyrst veitt í nafni smábænda, en innan skamms eru hinir stærri búnir að krækja sér í sömu aðstoðina, og mismunur búanna heldur áfram að aukast. Það er því ástæða til að benda á þessa stéttaskiptingu bústærðarinnar, sem er ein höfuðmeinsemd íslenzks landbúnaðar í dag.

Við verðum að halda uppi traustum landbúnaði á Íslandi, bæði af efnahagslegum og félagslegum ástæðum. Við verðum að þétta byggðina og jafna bústærðina til muna, en til þess þarf annað og meira átak en gert hefur verið til þessa. Með fjölbreyttari búgreinum yrði rekstur búanna hagkvæmari, landbúnaðurinn þyrfti á minni aðstoð að halda, tekjur bænda yrðu jafnari og meiri, búvöruverð tiltölulega lægra og heildarafkoman öll á betri veg.

Fyrsta alvarlega frv. ríkisstj. um landbúnaðinn er siglt í strand vegna ósamkomulags í stjórnarliðinu. Það verður fróðlegt að sjá, hvort vinstri stjórnin tekur á þessu vandamáli, og þar á ég við innbyrðis misrétti og misjafna aðstöðu bændanna, eins og vinstri stjórn ætti að gera, eða hvort stjórnin heldur áfram að reka stórbændapólitík undanfarinna áratuga.

Herra forseti. Það hefur verið fróðlegt að hlýða á þessar fyrstu eldhúsumr. eftir stjórnarskiptin. Menn og flokkar hafa skipt um hlutverk stjórnar og stjórnarandstöðu, en þó er, eins og allir heyra, næsta ótrúlegt, hve hlutverkin hafa litíð breytzt þrátt fyrir allt.

Ýmsum þótti sú ræða, sem hæstv. iðnrh., Magnús Kjartansson, flutti á föstudagskvöld, sæta nokkrum tíðindum. Hann rifjaði m. a. upp, að Alþfl. hefði í fyrrasumar verið boðin aðild að núv. ríkisstj. Þetta vissu hlustendur. En síðan bætti Magnús við þessum orðum: „Og það boð stendur enn.“ Ekki gat ég skilið ráðh. öðruvísi en svo, að hann væri nú að bjóða Alþfl. á nýjan leik að ganga í ríkisstj., og hljóta þetta að þykja nokkur tíðindi.

Það er að vísu undarlegt, að iðnrh. skuli gera slíkt boð í umr. á Alþ. og grípa þannig fram fyrir hendur forsrh., sem slíkir hlutir heyra að sjálfsögðu undir. Því eru menn að vísu vanir hjá þessum hæstv. ráðh. Hann gefur stefnuyfirlýsingar um utanríkismál og svo að segja hvaða málaflokk, sem honum dettur í hug, eins og sá, sem valdið hefur, og lætur sig engu skipta, þó að þessi mál heyri undir starfsbræður hans í rn. Það er einnig undarlegt, að hæstv. iðnrh., Magnús Kjartansson, skuli bjóða Alþfl. í stjórn til sín rétt eftir að hann hafði í sömu ræðu útlistað hið hroðalega starf Alþfl. undanfarin ár. Hann átti að hafa fórnað frelsi þjóðarinnar, selt útlendingum landið og atvinnuvegina, svikið verkalýðinn og hrakið 5 þús. manns til útlanda o. s. frv. o. s. frv. Þessi lestur Magnúsar, sem Þjóðviljinn var fljótur að endurprenta, eins og hans var von og vísa, var glórulaus og ósvífin sögufölsun, sem sýnir fyrirlitningu ráðh. á dómgreind almennings. En hann er ekki vandur að félagsskap, því að rétt eftir slíka lýsingu býður hann þessum voðalega flokki að koma upp í stjórnarsængina til sín.

Í þessu sambandi vil ég biðja menn að íhuga vandlega, hvers vegna einn ráðh. í ríkisstj. gerir Alþfl. nú tilboð um að ganga í stjórnina, en slíkt boð hefur ekki verið gert opinberlega síðan stjórnin var mynduð eða áður en hún var mynduð í fyrrasumar. Ég spyr aftur, hvers vegna? Hefur ríkisstj. ekki meiri hl., sem hefur reynzt nægilega stór til að stjórna landinu í meira en áratug? Er ekki samstaða stjórnarflokkanna með ágætum, að því er forsrh. hefur nýlega fullyrt? Hvað er þá að? Við þessum spurningum eru augljós svör. Ríkisstj. er ekki nálægt því eins samstæð og sterk og hún vill vera láta. Ríkisstj. óttast þau vandamál, sem eru fram undan, og finnur vanmátt sinn til að taka þau föstum tökum. Ríkisstj. óttast að hafa jafnaðarmanna- og launþegaflokk eins og Alþfl. í andstöðu. Það mundi vera þægilegra fyrir hana að berjast við íhaldsflokk einan. Þess vegna er þetta boð ótvíræð vísbending um mikinn veikleika.

Eitt mál hef ég enn ekki nefnt, sem kann að hafa verið í huga Magnúsar Kjartanssonar framar öðru, er hann gerði tilboð sitt. Það er sameining íslenzkra jafnaðarmanna í einum flokki, sem hefur verið á dagskrá undanfarin tvö ár. Bæði Framsfl. og Alþb. hafa kosið nefnd til að fjalla um sameiningarmál og ræða við aðra aðila um flokkaskipan á vinstra armi stjórnmálanna í næstu framtíð. Þó bendir allt til þess, að hvorugur þessara flokka hafi nokkurn áhuga á sameiningu við aðra, fyrst um sinn a. m. k. Hins vegar hafa farið fram í fullri alvöru viðræður milli Alþfl. og SF um sameiningu þessara tveggja flokka. Rökin fyrir slíkri sameiningu eru augljós. Það er fásinna að hafa tvo flokka, sem báðir telja sig berjast fyrir lýðræðislegri jafnaðarstefnu. Þeir hljóta að eyða orku og fylgi hvor fyrir öðrum, þeir munu aldrei geta náð verulegum árangri í kosningum fyrr en þeir standa saman sem eitt voldugt pólitískt afl. Þetta virðast flestir, sem aðhyllast stefnu þessara flokka, viðurkenna. En það hefur samt sem áður gengið allt of hægt að þoka þessum málum fram og stíga þau skref, sem stíga verður, áður en til sameiningar kemur. Á síðasta hausti voru haldnir nokkrir formlegir fundir með flokkunum, en í seinni tíð hafa frjálslyndir að því er virðist gefið sér lítinn tíma til þess að sinna þessu máli eða leggja fram nauðsynlega vinnu til að undirbúa það. Hugmyndir og áætlanir um raunhæf skref hafa yfirleitt komið frá Alþfl.-mönnum, en frjálslyndir virðast ekki hafa tíma eða áhuga, enda þótt þá skorti ekki stór orð á stundum.

SF sögðu í stefnuskrá, sem þau gáfu út á sínum tíma, að meginmarkmið samtakanna væri sameining allra lýðræðissinnaðra vinstri manna, jafnaðarmanna og samvinnumanna, í einum flokki. Nú reynir á, hvort þetta meginmarkmið hefur verið sett til hliðar eða ekki, og Alþfl. skorar á samtökin að taka sig á í þessum efnum.

Sameining tveggja flokka í einn jafnaðarmannaflokk verður erfitt mál í framkvæmd, og það getur komið illa við marga. Þessi sameining er ekki gerð fyrst og fremst fyrir okkur, sem lengi höfum starfað í flokkunum tveim, hún verður gerð fyrir framtíðina. Þess vegna mega persónulegar tilfinningar eða hagsmunir einstaklinga eða hópa ekki ráða afstöðu til málsins. Okkur ber skylda til að fá næstu kynslóð í hendur einn, sameinaðan, heilan og sterkan flokk, sem starfar að framgangi jafnaðarstefnunnar á Íslandi. Sú stefna hefur þegar ráðið miklu um mótun hins bezta í íslenzku þjóðfélagi, og hún mun enn eiga erindi við komandi kynslóðir Íslendinga og leiðbeina þeim við að gera gott þjóðfélag enn betra.

Þökk þeim, sem hlýddu. — Góða nótt.