12.05.1972
Sameinað þing: 68. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2205 í B-deild Alþingistíðinda. (2475)

Almennar stjórnmálaumræður

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Í þingræðu þeirri, er Ólafur Björnsson flutti veturinn 1971 og kennd er við hrollvekju, komst hann m. a. svo að orði: „Ekki verður séð, að unnt sé að forðast upplausn í efnahagslífinu, nema náð verði einhverju samkomulagi við launþegasamtökin. Vissulega verður sú leið ekki auðveld.“ Þessum þm. sjálfstæðismanna var öðrum þm. ljósara, hvernig ástandið í efnahagsmálum þjóðarinnar var eftir 12 ára setu viðreisnarstjórnarinnar. Þegar þessi lýsing Ólafs Björnssonar á viðskilnaði víðreisnarstjórnarinnar í efnahagsmálum þjóðarinnar er höfð í huga, ætti öllum að vera ljóst, að núv. ríkisstj. hefur fengið mikinn vanda í arf frá viðreisnarstjórninni. Skal nú gerð frekari grein fyrir þeim viðskilnaði og komið þá fyrst að hækkun fjárlaga.

Fjárlög hækkuðu 1972 um 5.3 milljarða frá fjárlögum 1971. Og sundurliðast hækkunin þannig: 2.2 milljarðar er arfur frá viðreisnarstjórninni vegna kjarasamninga við opinbera starfsmenn og laga frá Alþ. 1971. 1300 millj. flytjast frá sveitarfélögum til gjalda hjá ríkissjóði vegna almannatryggingakerfisins og kostnaðar við löggæzlu. Hér er því ekki um að ræða aukin útgjöld hjá stjórnsýslunni í heild, aðeins tilfærslu innan hennar. Þessir tveir útgjaldaliðir eru samtals 3 500 millj. kr. Er þá eftir 1800 millj. kr. hækkun, en það er hin raunverulega útgjaldahækkun samkv. ákvörðun núv. ríkisstj. Helmingur af þessum 1800 millj. er aukin framlög til verklegra framkvæmda og atvinnumála. Hinn helmingurinn er að uppistöðu til aukið framlag til almannatrygginga og reksturs ríkisins. Núv. stjórnarandstaða hafði það eitt til málanna að leggja, þegar fjárlögin voru til afgreiðslu, að auka útgjöld ríkissjóðs verulega. Hins vegar kom engin till. frá hennar hendi um að draga úr útgjöldum.

Samkv. framansögðu má ljóst vera, að 2/3 af hækkun útgjalda á fjárlögum 1972 er arfur frá viðreisnarstjórninni. Reyndar er þessi arfur nokkru meiri, ef betur er að gáð, og nú skal það rakið. Fyrst er að geta þess, að viðreisnarstjórnin skildi eftir sig miklar skuldir á ýmsum framkvæmdaliðum ríkissjóðs. T. d. var unnið fyrir 80 millj. kr. fjárhæð að hafnarframkvæmdum á árinu 1971 umfram það, sem fjárlög gerðu ráð fyrir það ár, en að verulegu leyti varð að greiða það með fjárveitingum á fjárlögum þessa árs. Í einu kjördæmi landsins hafa þrír skólar verið í byggingu frá 1969. Síðasta greiðsluár ríkissjóðs vegna þessara skóla átti því að vera árið 1972. Í árslok 1971, er ríkissjóður átti að vera búinn að greiða ¾ af heildarframlagi sínu, hafði hann greitt rúmlega 45%. Vegna þessara vanskila viðreisnarstjórnarinnar hefðu fjárlög ársins 1972 þurft að hækka um 40–50 millj. kr., en ekki reyndist unnt að taka í þau fjárlög allan þann arf. Gert er ráð fyrir því, að íþróttasjóður greiði 40% af stofnkostnaði í íþróttamannvirkjum. Til þessara framkvæmda hafði íþróttasjóður á fjárlögum síðari ára viðreisnarstjórnarinnar 5 millj. kr. á ári. Skuldir hans voru orðnar 74 millj. kr., er viðreisnarstjórnin lét af völdum. Jafngilti sú fjárhæð 15 ára fjárveitingu viðreisnarstjórnarinnar. Á núgildandi fjárlögum er fjárveitingin hækkuð um 160% eða 13 millj. kr.

Þá er komið að þætti fyrrv. landb.- og samgmrh., Ingólfs Jónssonar. Meðal margra bréfa, sem hann skrifaði á síðustu 3–4 dögum, sem hann sat í landbrn., eftir afsögn viðreisnarstjórnarinnar, er bréf til Búnaðarbanka Íslands, þar sem bankanum er lofað greiðslu á fjárlögum ársins 1972 vegna bændaskólans á Hvanneyri að fjárhæð 7.5 millj. kr. Á stjórnarárum þessa landbrh. hafði honum tekizt að útvega mest 5 millj. kr. til skólabyggingarinnar á Hvanneyri. Var hann því með bréfinu að ráðstafa skólanum fé fram í tímann, er nam 1½ árs fjárveitingu. Ekki hafði landbrh. samráð við fjmrh. viðreisnarstjórnarinnar um þetta afrek sitt. Hér skal nefnt annað bréf, er fyrrv. landbrh. skrifaði á valdadögum sínum. Það var einnig til Búnaðarbankans. Hét hann þar stofnlánadeild landbúnaðarins öllu því fjármagni, sem deildin þyrfti til útlána á árinu 1971 umfram eigið ráðstöfunarfé. Þessi fjárþörf varð 180 millj. kr. Í framkvæmdaáætlun 1971 voru stofnlánadeildinni ætlaðar 60 millj. kr. eða 1/3 af fjárþörfinni. Ekki urðu efndir Ingólfs Jónssonar frekari en það. Það féll því í hlut núv. ríkisstj. að útvega 120 millj. kr., svo að stofnlánadeildin gæti annað verkefnum sínum á árinu 1971. Af stjórnarandstöðunni er það talið bera vott um eyðslu og lélega fjármálastjórn, að stofnlánadeildin er nú að útvega 200 millj. kr. af framkvæmdaáætlun til þess að sinna verkefnum ársins 1972. Að vísu er það stórt stökk frá 60 millj. hans Ingólfs. En ég vil ætla, að farsælla muni reynast að annast fjárútvegunina, þegar heildarfjáröflun til fjárfestingarsjóða er gerð, með framkvæmdaáætlun, heldur en að slá víxillán, eins og gert hefur verið á undanförnum árum. Sýnist mér þessi mikla fjárþörf stofnlánadeildarinnar bera vott um athafnasemi og framfarahug í íslenzkum landbúnaði, og er það gleðilegt.

Enn skal getið um bréf, sem Ingólfur Jónsson skrifaði Búnaðarhankanum, þar sem hann gaf fyrirheit um 5 millj. kr. til veðdeildar bankans á árinu 1971. Fyrirheitinu gleymdi hann hins vegar. Núv. ríkisstj. útvegaði veðdeildinni 20 millj. kr. til útlána á árinu 1971, svo að deildin gat að mestu sinnt verkefnum sínum það ár, þrátt fyrir getuleysi fyrrv. landbrh. Á framkvæmdaáætlun 1972 eru deildinni ætlaðar 35 millj. kr., 3 millj. eru á fjárlögum og einnig hefur lífeyrissjóður bænda lánað veðdeildinni verulegar fjárhæðir.

Þegar samgrh., Ingólfur Jónsson, lét af völdum, skorti um 140 millj. á, að tekjur vegáætlunar nægðu fyrir gjöldunum árið 1971. Voru þá skuldir vegna vegaframkvæmda á s. l. 12 árum orðnar um 1200 millj. kr. Í ráðherratíð Ingólfs Jónssonar hafa tekjustofnar Vegasjóðs stöðugt hækkað. Hins vegar féll fjárveiting á fjárlögum að mestu niður í stjórnartíð hans. Nú greiðir ríkissjóður 200 millj. kr. til vegaframkvæmda og tekur að auki að sér að verulegu leyti afborganir og vexti af lánum Vegasjóðs, sem hann áður greiddi. Einnig tekur ríkissjóður stór lán vegna vegaframkvæmda samkv. vegáætlun, sem nú er verið að ganga frá á Alþ. Þeirra þáttaskila, sem núv. ríkisstj. hefur valdið með stórauknum framlögum til vegamála, munu landsmenn njóta og kunna að meta þau.

Stjórnarandstæðingar hafa verið allháværir út af framkvæmda- og fjáröflunaráætlun ársins 1972. Þó hefur farið svo sem við fjárlagaafgreiðsluna, að engin ábending hefur komið frá þeim til lækkunar. Samanburður á framkvæmda- og fjáröflunaráætlun milli áranna 1971 og 1972 er óraunhæfur, þar sem opinberar framkvæmdir og fjáröflun til opinberra sjóða árið 1971 fór langt fram úr framkvæmda- og fjáröflunaráætlun

þessa árs og halli var á áætluninni um 70 millj. kr. Mér er ljóst, að mikið fjármagn þarf vegna framkvæmda- og fjáröflunaráætlunarinnar 1972, þar sem mikill framkvæmdavilji og bjartsýni ríkir hjá þjóðinni. Virkjanaframkvæmdir verða að halda áfram. Skipasmíðar verður að efla. Lífsnauðsyn er, að frystiiðnaður okkar verði orðinn samkeppnisfær, svo að mörkuðum okkar í Bandaríkjunum verði ekki stefnt í hættu. Þessu verkefni hafði viðreisnarstjórnin ekki sinnt. Í uppbyggingu vinnslustöðva landbúnaðarins er stórt verkefni fram undan. Til allra þessara framkvæmda þarf mikið fjármagn. Ríkisstj. er að vinna að útvegun þess.

Lítið samræmi er í málflutningi stjórnarandstæðinga og athöfnum þeirra, þegar litið er til þess, hve hátt sjálfstæðismenn spenna bogann í sveitarfélögum, þar sem þeir fara með völd, svo sem í Reykjavík, Garðahreppi og víðar. Þar ætla þeir að skattleggja þegna sína eins þungt og þeim frekast er unnt á sama tíma og þeir tala um ofsköttun og ofþenslu í þjóðfélaginu. Þetta getur ekki farið saman.

Á Alþ. því, sem nú situr, hafa verið gerðar veigamiklar breytingar á lögum um tekju- og eignarskatt og lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Þessar breytingar eru þó ekki fólgnar í því að breyta hlutfallinu í tekjuöflun ríkisins milli beinna og óbeinna skatta. Af þeim atriðum, sem mestu máli skipta í þessum skattalagabreytingum, vil ég nefna þessi: Í fyrsta lagi, að afnumdir eru persónuskattar til almannatryggingakerfisins og sjúkrasamlaga. En þessir skattar voru innheimtir án tillits til tekna og hefðu orðið mjög tilfinnanlegir á þessu ári, þar sem þeir hefðu orðið 22 þús. á hjón, um 16 þús. á einhleypan karlmann og um 14 þús. á einhleypa konu. Með þessari breytingu á sér stað meiri skattalegur jöfnuður en áður hefur þekkzt hér á landi. Í öðru lagi eru aðstöðugjöld lækkuð um 1/3, en aðstöðugjöld hafa þótt óréttlát, þar sem lagt er á atvinnureksturinn án tillits til nettótekna og miðast við kostnaðinn. Í þriðja lagi er verkaskipting milli ríkis og sveitarfélaga. Er hún einfaldari en áður, og ríkissjóður látinn fjármagna tryggingakerfið og lögreglukostnaðinn. Í fjórða lagi eru fasteignaskattar gerðir afgerandi tekjustofn, sem þeir hafa ekki verið til þessa. Það hefur lengi verið baráttumál íslenzkra sveitarfélaga, og hefur einn af þm. Sjálfstfl., Ólafur G. Einarsson, verið einn af aðaltalsmönnum þess. Í fimmta lagi er skattakerfið gert einfaldara en áður og þannig stefnt að því að taka upp staðgreiðslukerfi skatta. Verður unnið áfram að endurskoðun skattalaga með það markmið í huga. Þá verður gerð könnun á því, hvort ekki mundi reynast rétt að taka hér upp virðisaukaskatt í stað söluskatts. Leitað verður eftir skattalegu formi til aukins sparnaðar. Stjórnarandstaðan hefur haldið uppi harðri baráttu gegn þessum skattalagabreytingum. Ég vil vekja athygli á því, að hún hefur þó ekki markað neina heildarstefnu nú í umr. um skattamálin frekar en hún gerði á þeim 12 árum, sem hún sat að völdum. Hins vegar lögðu fulltrúar Sjálfstfl. í fjhn. beggja deilda til að lækka tekjur ríkissjóðs af tekjuskattinum á þessu ári um 1600 millj. kr., án þess að geta nokkra till. um að bæta ríkissjóði upp þetta tekjutap. Öðruvísi mér áður brá. Það var hlutverk Alþfl. í afstöðu hans til skattafrumvarpanna að greiða atkv. gegn þeim, þrátt fyrir það, að þar væru ákvæði um afnám persónuskatta, sem fyrst og fremst koma þeim að notum, sem verst eru settir í þjóðfélaginu og minnstar hafa tekjur, svo og unglingum í skólanámi. Svo ill eru örlög Alþfl. nú orðin. Í sambandi við baráttu stjórnarandstöðunnar gegn skattafrv. vil ég vekja athygli á því, að þegar þeir Magnús Jónsson og Gylfi Þ. Gíslason tóku þátt í sjónvarpsþætti fyrir nokkru, töldu þeir margt í þessum breytingum vera að þeirra skapi, þegar þeir ræddu málin í rólegheitum.

Því hefur verið haldið fram, að óþarfi hafi verið að fara í þessar skattalagabreytingar nú. Því er til að svara, að skattalög þau, sem viðreisnarstjórnin endaði á að setja í fyrravor, voru óframkvæmanleg að dómi núv. ríkisstj. vegna þeirra forréttinda, sem þeim voru veitt, sem bezt eru settir í þjóðfélaginu. Hagur hinna hlaut hins vegar enga lagfæringu. Eftir að tryggingalöggjöfinni var breytt á þann hátt að tryggja lágmarkslaun handa þeim þegnum þjóðfélagsins, sem verst eru settir, var óhugsandi að fjármagna tryggingakerfið eins og áður hefur verið. Það var ofraun vegna persónuskattanna og þeirra framlaga, sem sveitarfélögin hefðu þá orðið að greiða til almannatrygginga.

Herra forseti. Í upphafi ræðu minnar gerði ég grein fyrir skoðun Ólafs Björnssonar prófessors á efnahagsmálum þjóðarinnar í lok valdatímabils viðreisnarstjórnar. Ég hef í ræðu minni hér að framan sýnt fram á það með rökum, að rétt var skýrt frá í þessari ræðu Ólafs Björnssonar. Arfurinn, sem núv. ríkisstj. tók við frá fyrirrennurum sínum í efnahagsmálum, var allt annað en glæsilegur. Það er þó langt frá því, að mér hafi enzt tími til þess að tína þar til allt. T. d. vil ég til viðbótar minna á fjárhag Síldarverksmiðja ríkisins, Rauðku á Siglufirði, Slippstöðvarinnar á Akureyri og Norðurstjörnunnar í Hafnarfirði. Þar er um að ræða stórar fjárhæðir, er varða ríkissjóð. Ríkisstj. hefur gengið markvisst til verka í efnahagsmálum. Veigamesta atriðið, að hennar dómi eins og Ólafs Björnssonar, til þess að forðast efnahagshrun, eins og hann spáði, var að ná samkomulagi við stærstu launþegasamtök landsins. Það tókst án verkfalla. Þar með var tryggður vinnufriður til tveggja ára. Ríkisstj. hefur og hafið framkvæmd á stórfelldri uppbyggingu á öllum sviðum atvinnulífsins og félagslegum umbótum. Allar þessar aðgerðir eru forsenda þess að hægt sé að skapa hér á landi öryggi og festu í efnahagsmálum. En sigur í landhelgismálinu er þó undirstaða alls annars.

Ríkisstj. gerir sér einnig ljóst, að festu þarf í peninga- fjárfestingar- og fjáraflamálum. Þess vegna mun hún við gerð næstu fjárlaga tengja saman fjárlög, framkvæmda- og fjáröflunaráætlun. Undirbúningur þess er hafinn.

Að lokum þetta: Arfur sá, er ríkisstj. tók við af viðreisnarstjórninni, var slíkur, að aðeins með markvissri stefnu og þrotlausu starfi verður efnahagsmálum þjóðarinnar bjargað frá því hruni, sem Ólafur Björnsson spáði sem afleiðingu viðreisnarstjórnartímabilsins.

Ég þakka áheyrnina. — Góða nótt.