15.11.1971
Neðri deild: 13. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2363 í B-deild Alþingistíðinda. (2529)

Launa og kaupgjaldsmál

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Hv. þm. Jóhann Hafstein, fyrrv. forsrh., sagði, að ég hefði komið hér í ræðustól áðan og átalið þm. Sjálfstfl. fyrir að taka hér til máls í þeim umr., sem þá fóru fram. Ég vildi nú biðja þennan hv. þm. að taka eilítið betur eftir því, sem hér fer fram í ræðustól. Ég taldi þetta athyglisvert, en ekki ámælisvert, og það er svolítið annað.

Hann taldi einnig, að ég yrði að finna stað þeim orðum, sem ég sagði hér áðan í sambandi við áþján á verkalýðshreyfingunni undir forustu viðreisnarstjórnar. Ég skal minna þennan hv. þm. og fyrrv. forsrh. á þær aðferðir, sem ríkisvaldið hefur beitt í skiptum sínum við verkalýðshreyfinguna á undanförnum árum. Ég, vil minna þennan hv. þm. á gerðardómsákvæðin á hendur sjómannastéttinni æ ofan í æ. Ég vil minna þennan hv. þm. á kaupbindingu á hendur verkalýðshreyfingunni æ ofan í æ. Ég vil minna þennan hv. þm. á afnám vísitölugreiðslu á kaup. Og ég vil í síðasta lagi minna þennan hv. þm. á ógildingu á nýgerðum kjarasamningum verkalýðshreyfingarinnar. Þetta tel ég, að verkalýðshreyfingin hafi orðið að þola og hafi verið áþján af hendi ríkisvaldsins.