31.01.1972
Neðri deild: 36. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2379 í B-deild Alþingistíðinda. (2545)

Launa og kaupgjaldsmál

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Það er nú skiljanlegt, að forseti vilji halda stranglega uppi þingsköpum, en ég vona, að hann taki ekki hart á því, þótt menn skríki eitthvað á þeirri braut. Ég hélt, að ánægjulegt mundi verða að hlusta á þessar ræður þeirra hv. 7. þm. Reykv. og hv. 3. þm. Sunnl., því að mér virtist í upphafi, að þeir ætluðu að syngja tvísöng og þá sinn hvora röddina. Hv. 7. þm. Reykv. sagði bara, bara að semja og hækka auðvitað þá, og sagði viðmiðanir sínar réttar, — ég hef reiknað það út sjálfur, 1 800 króna munur á mánuði o. s. frv., — en hv. 3. þm. Sunnl. byrjaði hins vegar á því að tala um efnahagsástandið og bága afkomu frystihúsanna og að því er skilja mátti vegna þess, að kaupið væri orðið heldur hátt. Þann söng hefur hann nú sungið hér áður, svo að hann hefði verið sjálfum sér samkvæmur í því að halda honum áfram til enda ræðu sinnar, en það er nú sagt, að stundum geti verið gott að hafa tungur tvær og tala sitt með hvorri, og tilfellið er, að hann brá nokkuð út af sínu upphaflega markaða skeiði í lok ræðunnar, því að þá var hann orðinn æstur kaupkröfumaður.

Ég vil aðeins út af því, sem hv. 7. þm. Reykv. sagði, segja það, þar sem hann var að tala um, að stefnubreyting hefði átt sér stað hjá ríkisstj. í þessum efnum, að það er ekki rétt. Það hefur engin stefnubreyting átt sér stað hjá ríkisstj. Það hefur alltaf staðið til boða að leiðrétta og lagfæra kjör hinna lægst settu, en krafa opinberra starfsmanna var ekki þannig sett fram. Hv. þm. getur lesið kröfuna eins og hún var sett fram, hún er birt í Ásgarði. Það var sett fram krafa um 14% kauphækkanir í áföngum til handa öllum ríkisstarfsmönnum, en til viðbótar svo sérstakar hækkunarkröfur fyrir þá lægstlaunuðu, og það var gagnvart þessum kröfum, sem ríkisstj. varð að gefa sitt svar, og svar hennar var á þessa lund, eins og kunnugt er, að hún teldi ekki grundvöll til endurskoðunar. Hvernig í ósköpunum hefði verið samrýmanlegt þeirri afstöðu að svara þessu á þá lund að telja ekki grundvöll til endurskoðunar, en setjast svo samtímis á samningabekk með samtökunum? Ég get nú ekki fundið neitt samræmi í því. Það getur verið, að hv. 7. þm. Reykv. geti sameinað þannig vinnubrögð að neita í öðru orðinu, en setjast svo á samningabekk í hinu orðinu. Ég get ekki komið því heim og saman, en það hefur engin stefnubreyting orðið að því leyti til, að alltaf hefur staðið til boða að líta á þessi lægstu laun og gera þar lagfæringar, og það stendur til boða, ef ósamræmi finnst og ef það er sannað á þann hátt, að menn geti viðurkennt það, þá er sjálfsagt að leiðrétta það. En það er rétt að undirstrika, að í þessu sambandi er auðvitað og hefur alltaf verið svo, að þær hækkanir, sem síðar koma til, 6% hafa verið látin liggja á milli hluta. Það er ekkert svar gefið við því nú. Það kemur til athugunar á sínum tíma og það er þá fyrst, eins og fram kom hjá hæstv. fjmrh., sem einhver mismunur kemur fram í þessum samanburði. Það er þá fyrst, þegar þessi 6% eru komin til, ef þessi samanburður er réttur, og ég hef ekki ástæðu til þess að efast um það, en ég endurtek það, sem ég sagði áðan, ég hef tekið hann sem gildan, án þess að ég hafi sérstaklega kynnt mér þau atriði.

Það er ekki ástæða til þess að lengja þessar umr., þar sem hæstv. forseti vill nú eðlilega fara að stytta þetta og ummæli hv. 3. þm. Sunnl. voru ekki þess háttar, að ástæða sé til þess að elta ólar við þau, sem voru fullyrðingar um, að mistök hefðu átt sér stað í stjórn efnahagsmála og því um líkt, sem bezt er að láta reynsluna skera úr um. Enn fremur var hann að segja eitthvað um afskipti stjórnarinnar af vinnudeilum, og hér hefðu aldrei orðið slíkar vinnudeilur sem í tíð þessarar stjórnar. Ég held nú, að oft hafi hér orðið vinnudeilur. Ég held, að oft áður hafi orðið hér meiri verkföll en í tíð þessarar stjórnar. Ég er ekki að kenna neinni stjórn um, en ég held, að við höfum verið svo lánsamir, án þess að ég vilji eigna ríkisstj. það neitt sérstaklega, að yfirleitt hefur tekizt að binda enda á vinnudeilurnar, án þess að til verkfalla kæmi. Farmannaverkfallið er að vísu alvarleg undantekning frá því. Hann taldi það fjarstæðu hjá mér að vera að tala um misskilning í þessu sambandi. Ég var aðeins að reyna að leiðrétta þann misskilning, sem ég tel hafa komið fram í túlkun manna á þessu máli, að ríkisstj. hafi framið eitthvert lögbrot með því að setjast ekki á samningabekk. Ég tel, að henni sé það ekki skylt eftir lögum, þegar um endurskoðun án uppsagnar er að tefla. Ég efast um, að hv. 3. þm. Sunnl. geti fengið marga lögfræðinga til þess að fallast á sinn skilning. Ég efast líka um, að sú starfsaðferð, sem hann boðaði, hefði verið giftudrýgri, en hann sagði: Hví þá ekki að tala við mennina? Hvað munar um að tala við mennina? Hefði það verið nokkuð heiðarlegri framkoma eða skynsamlegri að setja fram þetta sjónarmið, sem við settum fram, að grundvöllur væri ekki til endurskoðunar, en fara svo að snakka við þá, halda þeim uppi á snakki? Ja, það þurfti ekki að fallast á kröfurnar, sagði hv. þm. Nei, draga það á langinn. Ég get ekki séð, að það hefðu verið neitt skynsamlegri vinnubrögð, og ég held fyrir mitt leyti, að það hafi verið alveg eins heiðarlegt af okkur að segja skýrt og skorinort strax, hver okkar afstaða var, hvert okkar sjónarmið væri í þessu efni, takandi það fram um leið, að við vildum í öllu þessu fara að lögum og undirstrika það, að við ættum ekki um þetta síðasta orðið, heldur Kjaradómur. Ég get ekki séð, hvaða gagn það hefði gert að fara að setjast á samningabekk með þessum mönnum, með þeim ásetningi, sem hv. 3. þm. Sunnl. virtist gera ráð fyrir, að það yrði þó ekkert orðið við kröfunum. Hverju hefðu þeir verið bættari með því? Ég efast um, að þeir hefðu verið ánægðari, er upp hefði verið staðið eftir að þannig hefði verið haldið á málum. Hitt er sjálfsagt, að óánægju gætir hjá ríkisstarfsmönnum. Það er nú einu sinni svo, að allir vilja helzt fá meiri laun fyrir sína vinnu, og það sem meira er, það þurfa margir að fá meiri laun fyrir sína vinnu, og þegar þeir fullnægja ekki sinni óskhyggju í því efni, þá vill það oftast verða svo, að þeim verður gramt í geði. Þannig verða oft árekstrar í þjóðfélaginu og við því er ekkert að segja, og maður verður að taka afleiðingunum af því og bera ábyrgð á því. Manni getur missýnzt, en ef maður fer að eftir beztu vitund og gætir þeirra hagsmuna, sem maður álítur, að maður eigi að gæta, þá held ég, að samvizka manns geti verið hrein og ekkert við því að segja, þó að eitthvað sé þá skvett á mann í leiðinni.