14.02.1972
Neðri deild: 41. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2386 í B-deild Alþingistíðinda. (2551)

Launa og kaupgjaldsmál

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. S. l. fimmtudag, 10. þ. m., gerðist sá atburður í deilu Bandalags starfsmanna ríkis og bæja við ríkisstj., sem ég vildi gera hér að umtalsefni. Svo er mál með vexti, að í s. l. mánuði var haldið þing bandalagsins og var þar m. a. samþykkt, að þingið beindi þeirri eindregnu áskorun til ríkisstj., að hún semdi tafarlaust við BSRB og sýndi þannig í verki vilja sinn til þess að virða sanngirniskröfur og samningsrétt opinberra starfsmanna.

Síðan gerðist það, að 5500 starfsmenn, opinberir starfsmenn, rituðu undir áskoranir til stuðnings þessari ályktun þingsins. 10. febr., fyrri hluta dags, gengu svo fulltrúar BSRB á fund ríkisstj. með þessar áskoranir og fóru fram á það, að enn yrði leitað samninga og framlengdur frestur til þess, að samningsumleitanir færu fram fyrir atbeina sáttasemjara. Samkv. lögum var þetta síðasti dagur, sem sáttasemjari skyldi hafa um málið að fjalla, — það er eins mánaðar tími, sem til þess er ætlaður, — og ef ekki tækjust samningar á þeim tíma, skyldi málið ganga til Kjaradóms. Fulltrúar bandalagsins fóru fram á, að ríkisstj. gerði lagabreytingu í þá átt, að málið gengi ekki strax til Kjaradóms, heldur héldu samningsumleitanir áfram. Ríkisstj. synjaði þessarar málaleitunar, og í opinberri tilkynningu, sem hún gaf út, segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

Ríkisstj. telur með öllu óframkvæmanlegt að koma fram slíkri lagabreytingu á síðasta degi sáttameðferðar sáttasemjara í yfirstandandi kjaradeilu, þar sem tilmælin bárust eigi fyrr. Hins vegar hefði ríkisstj. talið sjálfsagt að framlengja frestinn til sáttatilrauna, væri slíkt unnt án breytinga á lögum.“

Ég tel að þessi röksemd ríkisstj. fái ekki staðizt. Ég tel, að það hefði verið í lófa lagið að fá þessa nauðsynlegu lagabreytingu um framlengingu afgreidda á einum degi á Alþ. Vitanlega þarf til þess afbrigði frá þingsköpum, en í fyrsta lagi er nú svo ákveðið í þingsköpum, að varðandi stjfrv. nægir þar einfaldur meiri hl., en auk þess er auðvitað ljóst, að það þarf velvild stjórnarandstöðu til að koma slíku máli fram. Um þetta atriði var ekki leitað til stjórnarandstöðunnar. Það var hvorki rætt við Sjálfstfl. né Alþfl. um það mál. Og eftir að hafa kynnt mér það get ég fullyrt, að bæði þm. Sjálfstfl. og Alþfl. voru reiðubúnir til að veita atbeina sinn til þess, að slík lagabreyting yrði afgreidd hér á einum degi.

Við höfum einnig fordæmi um slíkt. Það er ekki lengra að leita en til októbermánaðar 1970, fyrir rösku ári. Þá stóðu yfir samningaumleitanir milli opinberra starfsmanna og ríkisstj. Málið átti að ganga til Kjaradóms samkv. lögum 1. nóv., en 29. okt. var á einum degi afgreidd hér lagabreyting um að framlengja þennan frest um tveggja mánaða skeið. Hér liggur þannig fyrir, að það eru bæði skýr og nýleg fordæmi um, að þetta væri framkvæmanlegt, auk þess að til stjórnarandstöðunnar var ekki leitað og hún hefði verið fús til þess að veita atbeina sinn þessu máli. Ég vil vekja athygli hér á þessu, þar sem ég tel, að þessi fullyrðing ríkisstj. um, að slík lagahreyting eftir beiðni BSRB hafi verið óframkvæmanleg, fái ekki staðizt, og tel, að það verði að liggja hér fyrir, að ljóst er, að það eru aðrar ástæður en þessi, sem hafa legið að baki synjunar ríkisstj.