14.02.1972
Neðri deild: 41. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2388 í B-deild Alþingistíðinda. (2554)

Launa og kaupgjaldsmál

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég tel rétt að staðfesta það, sem fram hefur komið í ræðu hv. 5. þm. Reykv., að ef ríkisstj. hefði fyrir hádegið umræddan dag farið þess á leit við stjórnarandstöðuna, að lög um þetta efni yrðu afgreidd með afbrigðum á þeim sama degi, þá tel ég fullvíst, að stjórnarandstaðan hefði á slíka málaleitun fallizt, enda skýrt og ljóst fordæmi fyrir nákvæmlega hliðstæðri afgreiðslu. En fyrst þetta mál ber hér á góma öðru sinni á tiltölulega skömmum tíma, þ. e. deilu hæstv. ríkisstj. við BSRB, þá langar mig til þess að beina einfaldri fsp. til hæstv. ríkisstj.

Því hefur hingað til verið marghaldið fram á hinu háa Alþingi, bæði af hæstv. fjmrh., sem fyrst og fremst fer með þetta mál af hálfu ríkisstj., og af hálfu hæstv. forsrh., að það hafi verið ákvörðun ríkisstj., ég endurtek, það hafi verið ákvörðun ríkisstj. að synja um viðræður við opinbera starfsmenn í upphafi þessa máls, og sú synjun ríkisstj., segi ég enn, var rökstudd með alveg ákveðnum hætti af hálfu hæstv. fjmrh. og af hálfu hæstv. forsrh., hætti, sem öllum hv. þm. og allri þjóðinni er fullkunnugt um hver var og ég sé enga ástæðu til þess að fjölyrða um.

Síðar, eða eftir að þetta mál var rætt hér síðast á hinu háa Alþingi, hefur það gerzt, að einn hæstv. ráðh., hæstv. viðskrh., hefur lýst yfir því opinberlega, að það hafi ekki verið ákvörðun ríkisstj. að synja opinberum starfsmönnum um viðræður. Hann hefur fullyrt opinberlega á umræðufundi í Háskólabíói með opinberum starfsmönnum, að sér hafi verið ókunnugt um þessa ákvörðun ríkisstj., og er ekki hægt að skilja orð hans öðruvísi en þannig, að hann teldi sig a. m. k. óbundinn af þessari synjun, hann hafi ekki staðið að henni. Hér er um mjög óvenjuleg málsatvik að ræða. Það er mjög óvenjulegt, að fram komi andstæðar yfirlýsingar af hálfu einstakra ráðh. um það, hver hafi tekið mikilvæga ákvörðun, hvaða aðili hafi tekið mikilvæga ákvörðun. Það er mikilvæg ákvörðun af stærsta vinnuveitanda landsins að synja starfsmönnum sínum um viðræður, þegar launadeila er að hefjast.

Ég tel nauðsynlegt, fyrst málið ber hér á annað borð á góma, að hæstv. ríkisstj. skýri þingheimi og þjóðinni allri frá, hver er sannleikurinn í þessu máli, því að það skiptir sannarlega ekki litlu máli.