14.02.1972
Neðri deild: 41. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2400 í B-deild Alþingistíðinda. (2562)

Launa og kaupgjaldsmál

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Ég get nú látið mér nægja aðeins örfáar mínútur, því að það hefur komið svo skýrt fram í þessum umr. sem verða má, að fullyrðingar hv. 7. þm. Reykv., formanns Alþfl., varðandi mig voru algerlega rangar og standast ekki. Rétt í þessu var að yfirgefa pontuna hæstv. fjmrh., sem skýrði frá því alveg greinilega, að það, sem ríkisstj. hefði ákveðið í þessum efnum, hefði verið það, að hún hefði ekki talið vera grundvöll til almennrar endurskoðunar, enda liggur auðvitað samþykkt ríkisstj. skrifleg fyrir. Hún er um þetta, að ríkisstj. taldi ekki hafa verið grundvöll til almennrar endurskoðunar, en það er vitanlega ekki á neinn hátt það sama og að neita því að tala við opinbera starfsmenn. Slíkt er aðeins túlkun þeirra, sem vilja afflytja málið, að halda því fram.

Hitt gefur auðvitað auga leið, þegar afstaða ríkisstj. er sú, að hún telur, að ekki hafi verið lagalegur grundvöllur til almennrar endurskoðunar, að ástæðulaust er með öllu að setjast að samningaborði um það atriði, þar sem annar álítur, að það hafi verið lagalegur grundvöllur til endurskoðunar, en hinn ekki. En kjaramálið sem heild var vitanlega eftir, og hægt var að ræða um það, ef menn óskuðu eftir að ræða um það sérstaklega. En vitanlega var ekki góðs viti að klifa á því í sífellu, að ríkisstj. neitaði að tala við opinbera starfsmenn.

Hv. 7. þm. Reykv. talar um það, að framkoma mín á tilteknum fundi hafi ekki verið drengileg í garð fjmrh. Hann ætlar að fara að leiðbeina okkur í þeim efnum, en alveg er augljóst af því, sem hæstv. fjmrh. hefur sagt hér, að hann hefur skilið ummæli mín í þessum efnum á allt annan veg. Hins vegar eru til menn í þessu landi, sem nota blöð sín og fjölmiðla til þess að klifa á því í sífellu, og ég á svo sem alveg von á því að lesa það í blöðunum á morgun, að í þessum umr. hafi Lúðvík ráðizt á Halldór fjmrh., — þannig hafa fyrirsagnirnar verið. Þetta er þeirra drengskapur, sem slíkt skrifa. Þannig var þetta eftir fundinn í Háskólabíói og af framhaldinu heyrðu menn aðeins hjá hv. 7. þm. Reykv. Nei, ekki er um það að ræða, að neitt ósamkomulag sé innan ríkisstj. út af þessu máli eða varðandi þær ákvarðanir, sem þar hafa verið teknar um þetta mál. Fullkomin samstaða hefur verið um það, að við höfum talið, að samningarnir frá því í des. hafi ekki gefið tilefni til þess, að það ætti að færa þær launabætur almennt yfir á launakjör opinberra starfsmanna eða þeir samningar gæfu tilefni til þess að taka upp almenna endurskoðun á þeim samningum. En hins vegar hefur hitt komið fram, að ríkisstj. hefur verið alveg sammála um, að rétt væri að fallast á að hækka laun þeirra ríkisstarfsmanna, sem ynnu við sambærileg störf og þar var samið um, ef það sýndi sig, að þeir væru með lægri laun.

Hv. 5. þm. Reykv. ætlaði að reyna að fleyta sér út úr þeim vanda, sem hann var kominn í, með því að segja, að forseti Alþýðusambandsins hefði látið orð um það falla, að samningarnir, sem gerðir voru í des., hefðu fært verkalýðshreyfingunni verulegar kjarabætur. En hann hefur þá ekki fylgzt með því, að ein meginkjarabótin, sem þar var samið um, eða sem þeir samningar í heild leiddu til, var stytting vinnuvikunnar og það var lenging á orlofi, sem almennt hefur verið talið, að hafi vegið meira en t. d. þau fyrstu tvenn 4%, sem samið var um í þeim samningum og sem opinberir starfsmenn hafa helzt reynt að bera sig saman við. Nei, vitanlega var ekkert um það að villast, enda hefur það verið staðfest nú af sérstökum kjaradómi, sem hefur fjallað um launakjör verzlunarmanna, að það þótti þurfa að hækka laun verzlunarfólks mun meira en laun almenns verkafólks í landinu til samanburðar við kjör opinberra starfsmanna. Það er megingrundvöllurinn þar.

Það fór auðvitað eins og ég átti von á, þegar þeir hv. 5. þm. Reykv., Gunnar Thoroddsen, og hv. 7. þm. Reykv., Gylfi Þ. Gíslason, voru um það spurðir, hver væri afstaða þeirra til kjarna málsins. Hún var auðvitað þannig, að hv. þm. Gunnar Thoroddsen sagðist ekki hér kominn til þess að ræða efnisatriði málsins. Það var nú vissara fyrir hann að ræða ekki efnisatriði málsins, heldur snúast í kringum aukaatriðin. Það var auðvelt að gera. En hv. 7. þm. Reykv. segir: Jú, auðvitað, við í Alþfl. viljum semja. Ætli það geti ekki allir flokkar sagt, að þeir vilji semja? Hvað er sagt með slíku? Hann svarar vitanlega ekki þeirri spurningu, sem fyrir hann var lögð, hvort hann getur stutt þá afstöðu, sem ríkisstj. hefur lýst sem sinni afstöðu í þessu máli, þar sem er um kjarna málsins að ræða, að ekki sé ástæða til þess, að þær launabætur, sem samið var um við verkalýðsfélögin í des., gangi almennt í gegnum launa- og kjarasamninga opinberra starfsmanna, eða hvort hann er á þeirri skoðun, sem opinberir starfsmenn túlka, að þeir eigi rétt á því að fá þessar launabætur sér til handa almennt í gegnum sinn kjarasamning. En báðir þessir hv. þm. skutu sér vitanlega undan því að ræða þetta meginatriði málsins. Og þá sér maður auðvitað alveg, við hvað þeir eru að fást í þessum efnum. Eins og hér hefur komið fram, er það augljóst mái. að þeirra iðja í þessum efnum miðar ekki í þá átt að reyna að leysa þann vanda, sem hér er við að glíma, því að auðvitað er það vandi, mikill vandi.

Það er leitt, að til þess skuli koma, að forustumenn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, sem tala fyrir munn jafnþýðingarmikilla og ágætra launþegasamtaka og þar er um að ræða, skuli hafa tekið þá afstöðu að halda fast við að heimta, að þær launabætur, sem verkamenn sömdu um, eins og ástatt var fyrir þeim, þurfi þeir endilega einnig að fá viðurkenndar á alla launaflokka opinberra starfsmanna. Og ég er á þeirri skoðun enn, að það hafi verið rétt afstaða hjá ríkisstj. að halda sig við það að leiðrétta í þeim tilvikum, þar sem þess þarf með, launakjör opinberra starfsmanna, þannig að öruggt sé, að þeir hafi í engu lakari kjör en þau, sem samið var um í des. við almennu verkalýðsfélögin. Ég sé hins vegar ekki ástæðu til þess, að ofan á þann kjarasamning, sem opinberir starfsmenn hafa haft, fái þeir þær leiðréttingar, sem verkamenn fengu, og færu á þann hátt fram úr verkamönnum á nýjan leik, sem auðvitað mundi leiða til nýrra vandamála í þessum efnum, í launa- og kjaramálum í landinu.