08.05.1972
Neðri deild: 72. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2407 í B-deild Alþingistíðinda. (2570)

Launa og kaupgjaldsmál

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Út af fsp. hv. 3. landsk. þm., um deilu á milli ríkisspítalanna og borgarsjúkrahússins og Læknafélags Reykjavíkur, tel ég ástæðu til að gefa skýringu á þessu máli, sem ekki hefur áður verið gert á opinberum vettvangi. En í því sambandi vil ég minna á það, sem hv. 3. landsk. þm. vék að, upphaflegar deilur lækna og ríkisvaldsins, sem hljóta að koma inn í það, sem nú er að gerast.

Þann 24. jan. s. l. sendi Læknafélag Reykjavíkur heilbr.- og trmrn. till. að samningi milli Læknafélags Reykjavíkur annars vegar og stjórnarnefndar ríkisspítalanna og Reykjavíkurborgar hins vegar. Að formi til var hér um að ræða kröfur um nýjan samning, en ekki breytingar á samningi þeim, er féll úr gildi um s. l. áramót. Árið 1966 kom til harðvítugrar deilu milli sjúkrahúslækna og vinnuveitenda þeirra. Sjúkrahúslæknarnir voru þá allir fastráðnir ríkisstarfsmenn og kjör þeirra því ákveðin með sama hætti og annarra starfsmanna ríkisins. Í tengslum við deilur þessar sögðu allir læknar sjúkrahúsanna upp störfum að undanskildum yfirlæknum. Um síðir tókust samningar milli Læknafélags Reykjavíkur og spítalanna, er höfðu í för með sér stórkostlega hækkun á launaútgjöldum ríkisspítalanna. Fyrrv. fjmrh. lýsti samningum svo í fjárlagaræðu haustið 1966, að læknar hefðu neytt þeirrar aðstöðu sinnar að hafa í bókstaflegri merkingu líf fjölda fólks í hendi sinni og hefðu samningar af hálfu ríkisins verið algerir nauðungarsamningar.

Í stórum dráttum urðu þær breytingar á kjörum lækna árið 1966, að fastakaup þeirra hækkaði mjög mikið, en hins vegar áttu þeir að skila lengri vinnutíma gegn þessu kaupi en almennt tíðkaðist. Læknar sættu sig og við yfirvinnukaup, sem telja verður, að hafi verið mjög hógvært miðað við föstu launin. Form ráðningarinnar breyttist þannig, að gert var ráð fyrir tveggja mánaða uppsagnarfresti af hálfu beggja samningsaðila. Samningum þessum frá 1966 hefur síðan verið breytt, en eigi geta þær breytingar talizt úrskeiðis miðað við almenna launaþróun í landinu. Var það von manna, að átökin 1966 og eftirköst þeirra hefðu gert læknum ljóst, að þeir væru ekki einir eða einangruð stétt í þjóðfélaginu og þjóðfélagið sem slíkt gæti því illa unað, ef ein stétt gæti nánast helgað sér hluta af ráðstöfunarfé þjóðfélagsins að vild.

Eins og getið var hér að framan, settu læknar fram kjarakröfur sínar 24. jan. s. l. Skrifstofu ríkisspítalanna var falið að áætla aukningu útgjalda ríkisspítalanna, yrði gengið að kröfum þessum. Niðurstaða þessara útreikninga varð sú, að kröfur Læknafélags Reykjavíkur fælu í sér 102 millj. kr. útgjaldaaukningu til 107 lækna. Hér var því að ræða um kröfur, sem námu um 1 millj. kr. á mann í hækkun á ári. Segja má, að ríkisstj. hefði ekki átt að gefa kröfum sem þessum gaum, sem hlytu eðli málsins samkv. að vera á miklum misskilningi byggðar. Minnugir þeirrar reynslu, sem fékkst 1966, var þó gengið til samningaviðræðna við Læknafélag Reykjavíkur, og var máli þessu mjög fljótlega vísað til sáttasemjara ríkisins. Gerð hefur verið athugun á tekjum nokkurra þeirra lækna, sem hér eiga hlut að máli, eins og þær voru í des. og jan. og febr. s. l. Sérfræðingur í fullu starfi á ríkisspítala hafði á þessum tíma í fast kaup 74 997 kr. á mánuði. Á handlækningadeild höfða þrír sérfræðingar að meðaltali 19.5 stundir í eftir- og næturvinnu hvern mánuð og 95 stunda viðveru vegna gæzluvakta. Þeir höfðu fyrir það 13 169 kr., þannig að meðalmánaðargreiðsla þeirra í heild var 88 166 kr. Samsvarandi tölur fyrir aðstoðarlækna á handlækningadeild voru 65 896 kr. Þrír sérfræðingar á lyflækningadeild höfðu á þessum tíma 89 980 kr. og aðstoðarlæknar 81 059 kr. Í stórum dráttum má segja, að hér sé um að ræða laun fyrir venjulega vinnuviku að viðbættri 1–l.5 stund á dag í yfirvinnu og 50-90 stundum á mánuði á gæzluvakt, sem ekki felur í sér eiginlega vinnu, heldur viðveru í kallfæri, t. d. í síma. Á röntgendeild var svipaða sögu að segja um sérfræðinga, nema yfirvinna og gæzluvaktir eru meiri. Yfirvinna var 2 stundir á vinnudag og gæzlustundir 140 stundir á mánuði. Meðalkaup var 98 091 kr. Á fæðingardeild var meðalkaup 92 105 kr. og á rannsóknardeild 94 762 kr. Það skal skýrt tekið fram að þessara launa njóta þessir læknar í 11 mánuði á ári, þ. e. orlofsgreiðsla er innifalin í kaupinu. Þess er enn fremur að gæta, að sumir þeir sérfræðingar, sem hér eiga hlut að, gegna samhliða dósentsstörfum við Háskólann, sem gefa þeim rúmlega 140 þús. kr. á ári. Loks „praktisera“ þeir nokkuð á stofu, en afar mismikið og með mismiklum tekjum. Kandídatar eru þannig launaðir, að föst laun eru 44–48 þús. kr. á mánuði, en yfirvinna er mikil, 120–140 stundir á mánuði, svo að heildarlaun þeirra eru 83–93 þús. kr. á mánuði. Kröfur sjúkrahúslækna miða að því, að þeirra eigin sögn, að ná sama kaupmætti fastra launa og þeir höfðu eftir samningana, sem lýst var hér að framan og gerðir voru 1966. Í þeim samningum fengu þeir mjög mikla hækkun fastra launa, en á móti féll niður mikið af fríðindum alls konar, launagreiðslur í sumarleyfum féllu niður, laun í veikindum voru stórlega skert, yfirvinnugreiðslur voru lækkaðar og vinnutími stórlengdur. Að vísu vildu læknar aldrei standa við þann hluta samningsins, sem fól í sér vinnutímalengingu. Í þeim samningum, sem síðan hafa verið gerðir, hafa læknar fengið rýmkun á launagreiðslum í veikindum og aukin fríðindi, eins og mánaðar leyfi sérfræðinga á launum annað hvert ár ásamt ferðakostnaði og dagpeningum erlendis, til að halda við þekkingu sinni. Að þessu leyti eru föst laun þá og þau, sem nú er krafizt af hálfu lækna, ekki sambærileg, enda fylgja launakröfunni nú kröfur, sem fela í sér nær allt það, sem læknar létu af hendi við hækkun föstu launanna 1966. Í grófum dráttum sagt fólu upphaflegar kröfur læknanna í sér 80–90% hækkun greiðslna, launa og annarra greiðslna, samkv. mati skrifstofu ríkisspítalanna. Þannig var krafizt 24% hækkunar fastra launa, vinnutímastyttingar úr 42 í 36 stundir, hækkunar yfirvinnutaxta um 122—180% og gæzluvistartaxta um 190–240%. Þá er krafizt ýmissa annarra breytinga, t. d. hækkunar þóknunar fyrir staðgengilsstörf, lengingar sumarleyfis upp í allt að 42 virkum dögum eftir 15 ára starf, lífeyrissjóðsframlags, sem áður var fólgið í föstum launum, námsferða til útlanda fyrir aðstoðarlækna, framlags í Vísindasjóð og aukafrís vegna vaktavinnu. Í samningsviðræðum fyrir milligöngu sáttasemjara ríkisins hafa þessar kröfur verið ræddar og af hálfu lækna gert tilboð um nokkrar tilslakanir þar á.

Af hálfu ríkisins hefur verið gert tilboð um hækkun fastra launa í áföngum, samtals 13% á föst laun, þar af 3% í lífeyrissjóð. Þar munu læknar vera komnir í um 20%. Boðið hefur verið yfirvinnukaup og greiðslur fyrir gæzluvaktir hið sama og greitt er ríkisstarfsmönnum með svipaða menntun. Ýmis smærri atriði hafa verið boðin, t. d. breytt greiðsla fyrir útköll af gæzluvakt, veikindafrí á launum verði lengd, frí fyrir yfirvinnu umfram ákveðið mark á ári o. fl., auk nokkurrar vinnutímastyttingar til samræmis við ríkisstarfsmenn. Samtals fela boð ríkisins í sér 25–30% hækkun launagreiðslna til þeirra sérfræðinga og aðstoðarlækna, sem að framan er getið, eða um 37–38% hækkun til kandídata vegna mikillar yfirvinnu þeirra. Er í þeim útreikningi miðað við styttingu vinnutímans, er leiði til samsvarandi aukningar yfirvinnu. Þóttu þessi boð í rauninni ríflegri en verjandi er miðað við það, sem gerzt hefur á launamarkaðinum almennt. Af hálfu ríkisins var af þessum sökum lýst yfir því á síðasta samningsfundi, að um umtalsverða breytingu á þessu tilboði yrði ekki að ræða. Þrátt fyrir þessi boð ber svo mikið á milli samningsaðila, að viðræðum hefur verið frestað og læknar hafa hafið hópuppsagnir.

Eins og tilvitnuð orð fyrrv. fjmrh. hér að framan bera með sér, er hér um að ræða viðskipti við hóp starfsmanna með óvenju sérstæða samningsaðstöðu. Hér er einnig verið að reyna að ná samningum við þann hóp starfsmanna, sem hefur hvað hæstar tekjur allra starfsmanna í landinu, gífurlegar hækkanir til lækna mundu mjög bráðlega hafa áhrif í þjóðfélaginu.

Ég vil ljúka máli mínu með því að leggja áherzlu á, að þeim læknum, sem nú eru að segja lausum stöðum sínum, hafa nú þegar verið boðin laun, sem eru með hóflegu vinnuálagi sem svarar 110–130 þús. kr. á mánuði fyrir sérfræðinga og 90–100 þús. kr. fyrir aðstoðarlækna, og hækkunin ein, sem þeim hefur verið boðin, er 24–30 þús. kr. á mánuði. Hér er á ferðinni mál sem alþjóð varðar. Ég leyfi mér að fara þess á leit við þá lækna, sem hér eiga hlut að máli, að þegar þeir hafa gert sér fullkomlega grein fyrir því, sem í boði er af hálfu ríkisins, þá endurskoði þeir afstöðu sína til þessa máls og taki málið upp við ríkisvaldið með það fyrir augum, að auðvitað verður þetta eins og önnur mál að leysast af hálfu ríkisvaldsins með þau sjónarmið í huga, hvað þjóðfélagið getur leyft sér.