09.03.1972
Sameinað þing: 46. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2436 í B-deild Alþingistíðinda. (2605)

Fiskveiðilandhelgismál

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ósk hv. 1. þm. Reykv. um það, að í landhelgisnefnd verði fjallað um þær yfirlýsingar, sem fram hafa komið af hálfu ráðamanna Bretlands og Vestur-Þýzkalands, er sjálfsögð og eðlileg. Ég mun kalla landhelgisnefnd saman strax eftir þessa helgi, og þar verður kostur á að fjalla um þessi mál. En sannleikurinn er sá, að við höfum verið að bíða eftir formlegum orðsendingum frá þessum aðilum um málið, og ýmislegt er, sem þörf er á að fá skýringar á í sambandi við það. Ég hef lagt á það áherzlu einnig í viðtölum, sem ég hef átt við fulltrúa þessara ríkja, að viðtölum yrði haldið áfram og ég vona, að svo verði. Á þessu stigi sé ég að öðru leyti ekki ástæðu til að vera að gefa opinberar yfirlýsingar, nema hvað ég get að sjálfsögðu vísað til þess, sem sagt hefur verið í samþykkt Alþ. og orðsendingu ríkisstj., að samningur eða samkomulag við Breta og Vestur-Þjóðverja frá 1961 eigi að áliti Alþ. og íslenzku ríkisstj. ekki lengur við og Ísland sé því samkv. því samkomulagi ekki skuldbundið til þess að hlíta lögsögu Alþjóðadómstólsins.