09.05.1972
Sameinað þing: 65. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2437 í B-deild Alþingistíðinda. (2607)

Fiskveiðilandhelgismál

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs utan dagskrár til þess á opinberum vettvangi að vara við blaðamennsku eins og þeirri, sem birtist í einu stjórnarblaðinu, málgagni hæstv. sjútvrh., Þjóðviljanum, í morgun. Þar segir í fyrirsögn fyrir fimm dálka grein á forsíðu blaðsins: „Borgarstjórinn leggur fram friðarplan. Er hann fyrsti bandamaður Breta á Íslandi?“

Þar sem um fiskveiðilögsögudeiluna við Breta er að ræða, er hér í rauninni verið að dylgja um, að pólitískur andstæðingur sé að svíkja málstað Íslands, drótta að honum athæfi, sem nálgist landráð. Tilefni æsiskrifa Þjóðviljans er frétt í brezka blaðinu Hull Daily Maíl, sem ég var búinn að leiðrétta í Morgunblaðinu s. l. föstudag, svo að langan tíma hefur tekið að smíða reykbombuna til að koma höggi á pólitískan andstæðing. Efnisatriði brezku fréttarinnar er orðrétt, eins og Þjóðviljinn þýðir hana, með leyfi forseta:

„Áætlunin, sem kom fram frá borgarstjóranum í Reykjavík á fundi í neðri málstofunni í gærkvöld, gerir ráð fyrir, að Bretland og Ísland samþykki að takmarka og skipta með sér fiskaflanum innan 50 mílna markanna, sem gerð er tillaga um.“

Um þessa frétt hins brezka blaðs segi ég í viðtali við Morgunblaðið s. l. föstudag, með leyfi forseta:

„Þessar staðhæfingar eru efnislega rangfærðar, sagði Geir Hallgrímsson. Á fundi fiskimálanefndar brezku þingflokkanna taldi ég samkv. því, sem fram hefði komið frá íslenzkum stjórnvöldum, að um samkomulagsgrundvöll gæti verið að ræða, þannig að Bretar og Þjóðverjar minnkuðu aflamagn sitt á Íslandsmiðum, en við værum auðvitað að færa út fiskveiðitakmörkin annars vegar til að vernda fiskstofnana og hins vegar til að auka okkar eigið veiðimagn. Verndun fiskstofnanna gæti komið öðrum þjóðum að gagni við veiðar utan fyrirhugaðrar fiskveiðilögsögu, þegar til lengdar léti, því að án slíkrar útfærslu mundu hvorki við, Bretar eða aðrir draga fisk úr sjó. Þá kæmu til greina takmörkuð veiðiréttindi á ákveðnum veiðisvæðum um tiltekinn tíma innan 50 mílna fiskveiðilögsögu til bráðabirgða. Þá væri e. t. v. nauðsynlegt að takmarka allt í senn, veiðisvæði, aflamagn og skipafjölda. Af brezkri hálfu var því svarað til, að viðurkenning á 50 mílna fiskveiðilögsögu okkar kæmi undir engum kringumstæðum til greina fyrir hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. En því var ekki neitað, að við gætum gert þegjandi samkomulag um að vera ósammála. Við færðum út, Bretar mótmæltu, en til bráðabirgða gengjust Bretar inn á ákveðnar veiðitakmarkanir í einu eða öðru formi.“

Hér lýkur tilvitnuninni í viðtal Morgunblaðsins við mig. Í engu því, sem ég lét í ljós um samkomulagsgrundvöll í fiskveiðilögsögudeilunni við Breta, tel ég mig hafa farið út fyrir það, sem forsrh., utanrrh. og sjútvrh. hafa á ýmsum stigum málsins látið í ljós sem mögulegan samkomulagsgrundvöll. Ég tel það skyldu Íslendinga, sem tækifæri hafa á erlendum vettvangi, að skýra viðhorf og málstað Íslands í landhelgismálinu. Í þeim anda tók ég því boði og einstöku tækifæri að sitja og taka þátt í umr. á sameiginlegum fundi fiskimálanefndar Íhaldsflokksins og Verkamannaflokksins í neðri málstofu brezka þingsins.

Ég hef gert forsrh. og utanrrh. grein fyrir þessum fundi, svo og því, sem fram kom í viðræðum mínum við brezka ráðamenn um landhelgismálið, þegar ég var í London. Í því sambandi bar og á góma hina röngu blaðafregn í Hull Daily Maíl um afskipti mín af málinu sem og ósanna frétt Financial Times um, að forseti Sjómannasambands Íslands hefði fallið frá fylgi við útfærslu fiskveiðilögsögunnar, hvort tveggja sem dæmi um fréttaflutning erlendis, sem ekki verður ráðið við. Við ráðum nefnilega ekki fréttaflutningi brezkra blaða og vitum af mörgum dæmum, að oft er bæði þar og í öðrum blöðum margt missagt.

Ekkert er að því að vekja hér athygli á slíkum skrifum erlendis, m. a. til þess að hið sanna komi í ljós, eins og Morgunblaðið gerði s. l. föstudag, en að nýta slík skrif, eftir að þau hafa verið leiðrétt, í þeim tilgangi að koma höggi á pólitískan andstæðing, er forkastanleg hlaðamennska. Sérstaklega ber að harma slíka blaðamennsku, þegar sama dag er tilkynnt, að utanrrh. og sjútvrh. muni fara til viðræðna við brezka ráðamenn til að finna lausn á fiskveiðilögsögudeilunni. Verður tæpast trúað, að æsifrétt Þjóðviljans um pólitískan andstæðing sé í raun veganesti þess blaðs til samherja í ríkisstj., áður en þeir fara til Bretlands.

Herra forseti. Allir góðir Íslendingar óska utanrrh. og sjútvrh. góðs gengis í viðræðum þeirra í London og vonast til þess, að þær muni leiða til lausnar fiskveiðilögsögudeilunnar, þannig að hagsmunum Íslendinga sé vel borgið. Við skulum ekki láta ábyrgðarlaus blaðaskrif spilla friðsamlegri lausn deilumáls okkur í hag.