28.10.1971
Neðri deild: 7. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2441 í B-deild Alþingistíðinda. (2615)

Ástandið í Bangla Desh

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Í lok júnímánaðar s. l. samþykkti ríkisstj. þáverandi að leggja fram 500 þús. kr. til styrktar flóttafólki frá Austur-Pakistan. Var fé þessu skipt þannig, að til Alþjóða Rauða krossins gengu 250 þús. kr., en 250 þús. kr. voru sendar til Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Nýlega barst svo beiðni frá Flóttamannastofnuninni um aukinn stuðning og á það bent, að samkvæmt álitsgerð ríkisstj. Indlands, dags. 1. þ. m., væri nauðsynlegt að afla u. þ. b. 558 millj. dollara til þess að framfleyta 8 millj. flóttamönnum í 6 mánuði. Þegar beiðnin var send, var talið, að loforð hefðu alls verið gefin um 115 millj. dollara framlög um hendur Sameinuðu þjóðanna og sérstofnana þeirra, þar af um helmingur vörur. Borizt höfðu þá í reiðufé tæplega 44 millj. dollara. Einnig barst ríkisstj. beiðni frá Rauða krossi Íslands um viðbótarframlag frá ríkisstj. til söfnunarinnar. Ríkisstj. hefur nú, þ. e. í fyrradag, ákveðið að leggja fram til aðstoðar flóttamönnum frá Austur-Pakistan 1 millj. kr. til viðbótar áðurnefndu framlagi sínu, og nemur heildarframlag ríkisins þá 1½ millj. kr. Mun framlagið skiptast þannig, að til Rauða krossins fara 500 þús. og til Flóttamannastofnunarinnar í Genf 500 þús. kr. Hinn 27. þ. m. höfðu safnazt í frjálsum framlögum á vegum Rauða kross Íslands, eins og hv. 7. þm. Reykv. raunar gat um, 4½ millj. kr. og á vegum Hjálparstofnunar kirkjunnar 2.1 millj. kr. Nam söfnunin á Íslandi samkvæmt því 8.1 millj. kr. þann dag, þegar framlag ríkisins er með talið.

Ég vona, að þessar upplýsingar séu fullnægjandi.