22.11.1971
Efri deild: 14. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 208 í B-deild Alþingistíðinda. (271)

86. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Ég vil nú aðeins nota tækifærið, meðan hæstv. forsrh. hlýðir hér á umr., að gera nokkrar fsp., vegna þess að ég er í n., sem fær þetta mál til meðferðar. Það er þá fyrst, að í 4. gr. segir svo: „Ríkisstj. skipar þriggja manna framkvæmdaráð, er annast daglega stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins,“ og hæstv. forsrh. bætti við: „í eðlilegu samráði við forstöðumenn deilda.“ Ég tók ekki eftir því, sé ekki í 8. gr. frv., að neitt sé fjallað um menntun þessara manna né ráðningartíma. Það er þó allra manna mál, að áætlanagerð hlýtur aðeins að ná árangri, séu til þess ráðnir hæfir menn. Það hlýtur því að vakna sú spurning, hvaða menn eigi þar að starfa eða hvaða menntun og hverja starfsreynslu þessir menn eigi að hafa, sem þessi 4. gr. fjallar um. Að vísu er nú tekið fram nokkuð, hvaða verksvið þetta framkvæmdaráð á að hafa, en engu að síður finnst mér þetta nokkuð stangast á í kaflanum síðar um lánadeildina, en í 12. gr. stendur: „Framkvæmdastofnunin getur sett almennar reglur“ o.s.frv. Ég hefði persónulega talið í betra samræmi við það, sem segir í 3. gr., að „stjórn stofnunarinnar getur sett almennar reglur“ o.s.frv. Þetta skiptir e.t.v. ekki miklu máli. Þó tel ég, að rétt sé að hafa þetta á hreinu.

Eins má segja, að eilítið ósamræmi sé á milli 15. og 17. gr. Í 17. gr. stendur skýlaust: „Stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins skal“, þar er það ákveðið og eðlilegt, en í 15. gr. er fjallað um, að framkvæmdaráð skuli hafa náið samstarf. Ég mundi persónulega telja, að þessir menn, forstjórar deildanna, hljóti að vera lykilmenn við stjórnina. Hins vegar hlýtur, eins og fram hefur komið í umr., hæstv. ríkisstj. á hverjum tíma að vera sá aðili, sem endanlega setur stimpil sinn á þetta, ef stjórn efnahagsmála og peningamála á að vera í samræmi við stefnu viðkomandi ríkisstj. hverju sinni.

Annað atriði vil ég fá upplýsingar um. Það er mjög vitnað í, að Rannsóknaráð ríkisins skuli vera þarna ráðgefandi aðili. Er það heppilegasti aðilinn í mörgum tilfellum? Er þetta ekki of þröngt, því að þar segir, að það skuli leita til annarra aðila, en þeir hafa ekki verið nefndir. Það eru í landinu mörg samtök, sem eðlilegt er að leita til og hefur verið leitað til undanfarið við áætlanagerðir og við mat á aðstæðum, og þessir aðilar eru í athafnalífinu til og frá. Þess vegna varpa ég fram þessari spurningu: Er það heppilegt að vitna oft í Rannsóknaráð ríkisins, nema þegar um sérstakar stórframkvæmdir er að ræða og stórmiklar undirbúningsrannsóknir þarf að framkvæma, áður en til ákveðinnar fyrirtækjastofnunar kemur?

Ég sé ekki, síðan í kaflanum um Framkvæmdasjóð Íslands, hvort honum eru skaffaðar beinar tekjur umfram það, sem vextir gefa honum og svo lántaka til ráðstöfunar. Hins vegar er Byggðasjóði ætlað ákveðið fjármagn, og er það vel. Það væri ekkert á móti því að fá nánari upplýsingar um það, hvernig ætti að fjármagna Framkvæmdasjóð.

Svo vil ég aðeins minna á það, að sú var tíðin í sambandi við Atvinnujöfnunarsjóð, — hann hét nú annað þá, — að dregin var ákveðin bannlína, og yfir þessa bannlínu fékk ekkert fjármagn að fara. Nú er það svo, að þegar jafnmikilvægur sjóður og Byggðasjóður starfar hér á landi og á að fá jafnmikið fjármagn og segir í 33. gr., lánsfé allt að 300 millj. kr. á ári umfram beint framlag, sem er að lágmarki 100 millj., og síðar fær hann ýmsar aðrar tekjur, þá vildi ég gjarnan vita það, hvort nokkur maður hefur í huga að draga ákveðna bannlínu og segja: Handan þessarar línu rennur ekkert fjármagn frá þessum sjóði, vegna þess að staðreyndir sýna okkur það, að atvinnuleysi stingur sér víða niður og enginn mannlegur máttur ræður við það. Það veltur á árferði til lands og sjávar. Og í umr., sem urðu um þetta vandamál 1969 á hv. Alþ., gerði ég sömu fsp. til hæstv. þáv. forsrh., Bjarna heitins Benediktssonar, og viðurkenndi hann þá, að það væri í eðli sínu engin lausn að færa fjármagn til og frá í landinu, þannig að það lyfti annars vegar undir atvinnulíf, en skildi auðn eftir hins vegar. Því miður hefur umdæmi mitt oft verið undir þessari bannlínu, og vil ég fá skýr svör um það, hvort Reykjanesumdæmið er nokkuð í sviðsljósinu í þessu efni. Það veltur á miklu.

Hæstv. forsrh. vitnar í, að handahóf hefði ríkt um stefnumið fyrrv. stjórnarflokka í þessum efnum. Það er oft gott að vera vitur eftir á, en ég man eftir því, að allir voru sammála um að reísa Síldarverksmiðjur ríkisins bæði norðanlands og austan, og má segja í dag, að það hafi verið misráðið með sumar hverjar, en engu að síður er það eðlilegt, að menn séu bjartsýnir, þegar vel viðrar og vel aflast. Þá kemur að því, að einmitt sjóður eins og Byggðasjóður sé til ráðstöfunar frjáls um allt landið, en honum sé ekki ætlað algerlega bindandi hlutverk, þannig að ákveðin svæði séu í banni. Hitt er jafneðlilegt, að hlutfallslega aukið fjármagn úr þessum byggðasjóði renni í þau svæði, sem eiga jafnan við erfiðleika að búa, ég segi, jafnan við erfiðleika að búa. Það vitum við af langri reynslu, að er fyrir hendi á vissum stöðum á landinu, því miður.

Umr. hafa orðið alllangar um frv., og skal ég ekki fara að deila um það hér, en ég held, að allir geti verið sammála því, — það voru fyrrv. ríkisstj.- flokkar, og það eru menn almennt í dag, — að gott skipulag fram í tímann, hvort sem það er eitt ár eða þrjú ár, er æskilegt, bæði hér á landi og víða annars staðar, og að því stefnir þetta frv. En það verður aðeins góður árangur, — ég vil endurtaka það, — ef uppbygging er skynsamleg, og til þess að ná árangri, þarf vel að takast um þá menn, sem eiga að bera jafnmikla ábyrgð á herðum sér og frv. gerir ráð fyrir.