11.11.1971
Sameinað þing: 12. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 28 í B-deild Alþingistíðinda. (28)

71. mál, innlent lán

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég skal nú ekki fara að þreyta kappræður um þetta. Það leiðir af eðli málsins, að fyrst á eftir að vinna verkið, þá hef ég ekki tök á því eða neinn áhuga á því að fara að gefa út einstaka þætti, þó að til margs mætti grípa í því skyni, því að það eru heldur ekki eðlileg vinnubrögð. Ég hef skýrt hv. þingheimi frá því, að þetta verk á eftir að vinna. Honum er hins vegar kunnugt um það, að mörgum liðum frá framkvæmdaáætlun fyrra árs er ekki lokið, og þar verður haldið áfram, og til þess þarf verulegt fjármagn. Hvort verður gefið út eða reynt að selja meira af spariskírteinum á árinu 1972, skal ég ekkert fullyrða um nú. Það fer eftir aðstæðum, bæði fjárþörfinni og markaðinum, sem kann að verða, og t.d. salan á þessum bréfum getur gefið til kynna, hvort eðlilegt og rétt er að halda áfram á þeirri braut. Og það er af minni hendi hvorki slegið neinu föstu um það né þeirri leið lokað.

Ég held, að ég gæti fundið mörg dæmi um það, að leitað hefur verið eftir slíkri heimild til fjáröflunar, án þess að um leið hafi verið ákveðið, hvernig fénu yrði varið, og skal ég nú afla mér betri upplýsinga um það, áður en málið kemur hér til 2. umr. eða til þess að láta n. í té, en þess munu vera mörg dæmi. Hins vegar er það alltaf svo, að Alþ. ráðstafar fjármununum, og það er mergurinn málsins. Ég sé t.d. hér í Alþt. frá 1964, þar sem þáv. fjmrh., hv. 5. þm. Reykv., var að gera grein fyrir slíku máli, sem mun hafa verið fyrsta frv., sem kom hér fyrir um spariskírteini, og þegar hann er búinn að lýsa eðli málsins og tilgangi, þá nefnir hann nokkur dæmi um möguleika til þess að nota þetta fé, ef salan gefur góða raun. Þar segir hv. 5. þm. Reykv., þáv. hæstv. fjmrh., svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Um það er auðvitað ómögulegt að fullyrða á þessu stigi, hver verði reynslan, en þetta er tilraun, sem verður gerð, m.a. í þessu skyni, að auka sparifjármyndun almennings. Það fé, sem fengist inn fyrir þessa skuldabréfasölu, mundi ríkissjóður fyrst og fremst nota til opinherra framkvæmda, en varðandi framkvæmdaáætlun fyrir árið 1964, sem aflað hefur verið fjár til með margvislegum hætti, vantar nokkurt fé enn til þess að ljúka þar öllu. Nefni ég þar sérstaklega ráðhúsframkvæmdir, sjúkrahúsbyggingar, og nefna má fleiri liði í opinberum framkvæmdum.“

Ég get með sama hætti sagt, að okkur vantaði fé í rafmagn, okkur vantaði fé í vegi, okkur vantaði fé í hafnir, svo að ég kviði því ekki, að það verði ekki verkefni til þess að nota í þessar 200 milljónir, heldur mundi ég nú frekar segja, að okkur mundi skorta meira fé til þess að ljúka þeim verkefnum, sem við þurfum að ljúka á árinu 1972. En ég vil endurtaka það, að auðvitað verður það Alþ., sem afgreiðir málið með eðlilegum hætti, þegar það liggur fyrir, svo sem venja er til með þinghald.