04.05.1972
Efri deild: 75. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 3 í C-deild Alþingistíðinda. (2830)

34. mál, mannanöfn

Frsm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Menntmn, hefur haft til athugunar frv. til l. um mannanöfn, en þetta er allmikill lagabálkur um meðferð og notkun eiginnafna og ættarnafna. Alllangt er síðan lögum hefur verið breytt um mannanöfn og núgildandi lög eru frá árinu 1925. Rétt er að láta þess getið, að þau lög vísa til fyrri laga frá árinu 1913, þegar heimilað var, að menn gætu tekið upp ættarnöfn, og það var sem sagt leyfilegt um 12 ára skeið, frá 1913 til 1925. En þegar lög voru sett um þetta efni 1925, var ákveðið, að þeir, sem borið hefðu gild ættarnöfn fyrir setningu daga 1913, mættu halda þeim með óskertum rétti, en þeir, sem tekið hefðu upp ættarnöfn á tímabilinu 1913–1925, skyldu fá að bera þau áfram sjálfir persónulega og börn þeirra, en þar með ekki aðrir, þannig að þau ættarnöfn, sem tekin voru upp á tímabilinu 1913–1925, áttu raunverulega að hverfa úr sögunni með þeim, sem þá voru á lífi og báru ættarnöfn, og með börnum þeirra. Það er skemmst frá að segja, að lög þessi hafa verið að litlu höfð á landi okkar og þeim hefur ekki verið framfylgt nema í mjög litlum mæli, raunverulega alls ekki, þar til þjóðskrá var upp tekin 1952, en eftir tilkomu þjóðskrár hefur verið reynt að sögn hagstofustjóra að tryggja, að þar væru ekki tekin inn önnur ættarnöfn en þau, sem væru lögum samkv., en að öðru leyti hefur lögum ekki verið framfylgt, þannig að menn hafa getað haft hvort heldur lögleg eða ólögleg ættarnöfn hvar sem var annars staðar og í öðrum skrám.

Menntmn. er sammála um, að nauðsyn beri til, að frá þessu lögleysisástandi verði horfið og að sett verði ný löggjöf um mannanöfn, sem síðan verði reynt að framfylgja með aðstoð þjóðskrár, þannig að ákveðnar reglur gildi á þessu sviði.

Í því frv., sem hér liggur fyrir, er meginatriðið það, að leyft er, að tekin séu upp ættarnöfn, og það eru raunverulega opnaðar allar gáttir fyrir því, að menn geti fengið að taka upp ættarnöfn. Vafalaust eru margir, sem telja þetta sjálfsagt og eðlilegt, að ættarnöfn hafi unnið sér þá hefð í íslenzku þjóðlífi, þannig að ekki þýði annað en að viðurkenna þá staðreynd. En ekki er síður vafi á því, að fjöldamargir eru algjörlega öndverðrar skoðunar og leggja á það kapp, að ættarnöfnum sé algjörlega útrýmt. Menntmn. er þeirrar skoðunar, að það sé ekki raunsætt, hver sem vilji einstakra manna kunni nú að vera í þeim efnum, að ættarnöfnum manna verði útrýmt með lögum, eins og einu sinni var gerð tilraun til án árangurs. N. telur eðlilegast, að í þessum efnum verði valin einhver millileið milli hinna öndverðu skoðana, sem uppi eru um þetta efni í þjóðfélaginu, þannig að það sé einhver von til þess, að þeim reglum og þeim lögum, sem sett verða um þetta efni, verði framfylgt og eining skapist um það. Hún er þeirrar skoðunar, að það sé raunverulega ekki ástæða til þess að opna allar dyr til fjölgunar ættarnafna, eins og gert er ráð fyrir í þessu frv. Hún telur eðlilegra, að settar séu strangari skorður og raunverulega sé þá reiknað með því í lögum, sem sett yrðu í þessu efni, að þeim, sem bera ættarnöfn í dag, lögleg ættarnöfn, sé leyfilegt að halda þeim, en það sé ekki leyfilegt að taka upp ný ættarnöfn. Það verði sem sagt dregið strik á þeim punkti, sem við stöndum nú á. Jafnframt telur n. æskilegt, að áður en endanlegar ákvarðanir séu teknar um það efni, sé það rannsakað, hvort ættarnöfn hafa raunverulega verið að vinna á, hvort þeim hefur verið að fjölga á seinustu áratugum, en um þetta ætti að vera hægt að fá nokkuð góðar niðurstöður og áreiðanlegar, og hagstofustjóri hefur tjáð n., að hann væri fús til þess að láta gera slíka rannsókn.

Að öllu þessu athuguðu telur n. eðlilegast, að frv., sem hér liggur fyrir, verði tekið til nýrrar athugunar, áður en Alþ. tekur það til endanlegrar meðferðar, og að það verði endurskoðað á næstu mánuðum, m. a. með það sjónarmið í huga, að fyrrnefnd rannsókn fari fram og að því stefnt, að ættarnöfn verði raunverulega ekki algjörlega gefin frjáls og öllum leyfilegt að taka upp ný ættarnöfn, heldur verði slegið strik við það, sem nú er.

Í frv., sem hér liggur fyrir, eru ýmis ákvæði, sem óneitanlega hljóta að orka nokkuð tvímælis. Ég nefni sem dæmi, að í 13. gr. frv. segir: „Nú ber maður löglegt ættarnafn, og hafa þá niðjar hans í karllegg rétt til að nota nafnið. Sama gildir um kjörbörn: Ekki fer á milli mála, að hér er um mismunun kynjanna að ræða að því leyti, að það eru aðeins niðjar í karllegg, sem hafa rétt til að halda ættarnafninu, en ekki niðjar í kvenlegg. Benda má á fjöldamörg önnur ákvæði í frv., sem eru af sama tagi. Þannig er t. d. gert ráð fyrir því í 14. gr., að af eiginkonu sem tekið hefur upp ættarnafn manns síns og kannske borið það um langt skeið, kannske nokkurra áratuga skeið, en síðan hafi þau slitið samvistum, skilið, þá geti eiginmaðurinn heimtað ættarnafn sitt með dómi, svipt hana nafninu, sama rétt hafi ekkja mannsins. Þarna er greinilega um nokkra mismunun að ræða. Eins er um ákvæði í 9. gr. og 7. gr. og viðar í f:v.

Menntmn, hefur komizt að þeirri niðurstöðu, að rétt sé, að fram fari endurskoðun á þessu frv. og auk þeirrar stefnu, sem ég hef nú vikið að hvað ættarnöfnin snertir almennt, verði við það miðað, að karlar og konur hafi sömu réttindi að öllu leyti hvað ákvæði um mannanöfn snertir, endurskoðunin miðist við það. Í trausti þess, að ríkisstj. leggi fyrir næsta Alþ. endurskoðað frv. um mannanöfn, leggur sem sagt n. til. að frv. verði vísað til ríkisstj.