22.03.1972
Efri deild: 61. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 24 í C-deild Alþingistíðinda. (2864)

228. mál, fiskvinnsluskóli

Flm. (Steingrímur Hermannsson) :

Herra forseti. Það er fjarri mér að taka upp deilur við hv. 4. þm. Sunnl. um ágæti Vestmannaeyja annars vegar og Vestfjarða hins vegar, báðir eru hinir ágætustu landshlutar. Þó eru fáein atriði í máli hans, sem ég vil leyfa mér að minnast á.

Hv. þm. taldi, að í núgildandi lögum væri heimild til þess að stofnsetja fiskvinnsluskólann sem slíkan — og á ég þar við fullkominn skóla — í Vestmannaeyjum þar sem Vestmannaeyjar tilheyra Suðvesturlandi. Ég hef aldrei heyrt þá staðsetningu á Vestmannaeyjum, sem betur fer. Þetta er stærsta fiskvinnslustöð landsins, og ég held, að Sunnlendingar hljóti að vera stoltir af henni og gefi seint Suðvesturlandi.

Ég skil lögin þannig, að skólinn eigi að vera staðsettur á höfuðborgarsvæðinu, þ. e. a. s. Suðurnesjum eða við Faxaflóa. Ég hygg, að um það geti varla verið nokkur deila.

En í þessu sambandi er afar mikilvægt, að þegar málið var til umr. hér á hinu háa Alþ., þá var, að því er ég bezt veit, enginn ágreiningur eða raddir uppi um það, að skólinn skyldi staðsettur í Vestmannaeyjum. Ekki varð ég a. m. k. var við það, heldur skildist mér, að fulltrúar Suðurlands og Vestmannaeyja ekki sízt væru fyllilega ánægðir með lögin, eins og þau eru nú, sem heimila stofnsetningu fiskvinnsluskóla í Vestmannaeyjum, sem útskrifi fiskiðnaðarmenn og fiskvinnslumeistara samkv. 1. og 2. tölul., eins og nánar er fram tekið í lögunum, þ. e. a. s. ekki fullkominn fiskvinnsluskóla, sem vitanlega gæti þó smám saman orðið það. Það er því í fyrsta sinn, sem ég verð var við ágreining að þessu leyti.

Í öðru lagi kemur mér það mjög spánskt fyrir sjónir, að stofnsetning aðalskólans á Ísafirði þurfi að tefja fyrir stofnsetningu þessarar fullkomnu deildar í Vestmannaeyjum. Hvers vegna tefur þá ekki stofnsetning fiskvinnsluskólans í Reykjavík framkvæmd þessa máls í Vestmannaeyjum? Ég get ekki séð þar neinn mun á. Það er verið að leita að húsnæði fyrir fiskvinnsluskólann í Reykjavík nú. Það er rætt um húsnæði t. d. í Hafnarfirði. Sé ég því ekki, að málið þurfi að valda neinum vandræðum eða ágreiningi við fulltrúa Vestmannaeyja.

Hv. þm. ræddi nokkuð um og gerði nokkurn samanburð á fiskvinnslu í Vestmannaeyjum og á Ísafirði. Ég skal með ánægju viðurkenna það, að Vestmannaeyjar eru líklega, þó að Grindavík sé nú æði ofarlega, stærsta verstöð landsins. En ég vil vekja athygli á því, að þegar rætt er um staðsetningu á Ísafirði, þá má ekki einblína á Ísafjörð sem slíkan. Þar eru í næsta nágrenni aðrar mjög stórar og mikilvægar fiskvinnslustöðvar. Þar er Bolungarvík með þeim stærri, Súðavík, Suðureyri, Flateyri, Þingeyri, Patreksfjörður, og að sjálfsögðu mundi fiskvinnsluskóli á þessu svæði bæði draga til sín nemendur frá öllum þessum stöðum sem og vitanlega landinu öllu og njóta í kennslunni þeirrar gífurlegu fjölbreytni, sem þarna er fáanleg, sem ég leyfi mér að fullyrða, að sé töluvert meiri en er í Vestmannaeyjum. Og ég hygg raunar, að það væri nokkuð varasamur samanburður fyrir fulltrúa Vestmannaeyja og hv. þm. Sunnl. að fara út í samanburð á stærð verstöðva, þegar landshlutinn sem slíkur er tekinn fyrir í einu. Því er ekki að neita, að mér sýnist nokkur annmarki á staðsetningu í Vestmannaeyjum, að Vestmannaeyjar eru æðifráskildar frá meginlandinu og samgöngur þar á milli iðulega erfiðar, og mjög er vafasamt, að nemendur skólans gætu notið t. d. reynslu í fiskvinnslustöðvum á meginlandinu.

Ég vil fyrst og fremst leggja áherzlu á það, að með þessu frv. er alls ekki ætlunin að tefja á nokkurn máta stofnsetningu þess fiskvinnsluskóla, sem lögin gera ráð fyrir í Vestmannaeyjum, — alls ekki. Þvert á móti mundi ég með mikilli ánægju standa að því, að þeirri framkvæmd yrði flýtt. Og ég sé ekki, að nokkur rök yrðu færð fyrir því, að þessi flutningur skólans frá Reykjavík til Ísafjarðar geti tafið það mál. Ég vil leyfa mér að vona, að framkoma þessa frv. stuðli fyrst og fremst að því, að litið verði á þetta mál af raunsæi og vandlega og niðurstaða fengin um staðsetningu skólans úti í dreifbýlinu, áður en hann hefur fest rætur, svo að hann verði naumast fluttur. Það er megintilgangur frv. En að sjálfsögðu er það von okkar, sem frv. flytjum, að samkomulag náist um staðsetningu hans á Ísafirði.