22.03.1972
Efri deild: 61. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 27 í C-deild Alþingistíðinda. (2867)

228. mál, fiskvinnsluskóli

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Ég er nú sízt því mótfallinn, að ríkisstofnunum og skólum sé valinn staður úti um hinar dreifðu byggðir. Hins vegar finnst mér ekki óeðlilegt, þegar valinn skal staður fyrir skóla, að tekið sé tillit til nemendanna.Þá er ekki vafi á því, að leita ber eftir því, að sem flestir geti haft heimangöngu til þess skóla. Þá held ég, að væri ekki úr vegi að nefna Suðurnesin. Suðurnesin hafa þá sérstöðu, að þar kemur á land mesti bolfiskur á einu svæði, á svæði sem gæti verið heimangöngusvæði fyrir fiskvinnsluskóla. Þar búa um 10 þús. manns. Þar er mikil fjölbreytni í fiskvinnslustöðvum og vinnsla árið um kring. Þess vegna var mín ástæða til að koma hingað í ræðustólinn fyrst og fremst sú, að vekja athygli þeirrar n., sem fær þetta mál til meðferðar, á því, að mikils er um vert, að okkar fyrsti aðalfiskvinnsluskóli heppnist vel, þá ekki hvað sízt að hann fái næg verkefni, nóga nemendur. Ég held, að varla sé á öðrum stað utan Reykjavíkur meira úrval, lengri og betri bakgrunnur en einmitt á Suðurnesjum, stað, sem hefur stundað fiskveiðar frá ómunatíð, stað, þar sem fiskvinnsla er fjölbreytt, stað, sem sjáanlega er í miklum vexti og örum. Ég verð að segja, þótt það sé mjög mikilvægt, að skólar rísi úti um landið, þar sem fiskvinnsla fer fram, þá held ég, að með þann fyrsta skóla sé okkur mikilvægt, að hann sé á sem heppilegustum stað og þar sem hann nýtist okkur öllum sem bezt.