07.02.1972
Neðri deild: 38. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 40 í C-deild Alþingistíðinda. (2893)

154. mál, fiskeldi í sjó

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson) :

Herra forseti. Samkvæmt þessu frv. er gert ráð fyrir, að sjútvrn. geti veitt leyfi einstökum aðilum til þess að hafa með höndum fiskeldi í sjó. Gert er ráð fyrir í frv., að slík leyfi verði aðeins veitt að fenginni sérstakri umsögn frá Fiskifélagi Íslands, Hafrannsóknastofnuninni og veiðimálastjóra. Ýmsar almennar reglur eru settar í þessu frv. um starfsemi af þessu tagi. Þannig er gengið út frá því, að leyfi verði allajafna veitt til 10 ára til fiskræktar samkv. þessu frv., en þó ekki lengur en til 20 ára. Að sjálfsögðu er síðan gert ráð fyrir því, að hægt sé að samþykkja framlengingu á leyfistímanum.

Gengið er út frá því í frv., að slík leyfi skuli veita á nöfn eða til tilgreindra aðila og það sé ekki leyfilegt að færa slík leyfi á milli aðila, án þess að til komi sérstakt samþykki rn. í hverju einstöku tilviki.

Eins og kunnugt er, hefur allmikið verið um það rætt á síðari árum, að rétt væri að hefjast handa um fiskrækt í sjávarlónum og fjörðum, sem þykja til þess sérstaklega vel fallnir, og nokkrir áhugamenn á þessu sviði hafa óskað eftir að fá heimildir til þess að koma upp þvílíkri starfsemi. En það hefur komið í ljós, að ekki er að finna í íslenzkum lögum nein ákvæði, sem geta talizt viðhlítandi og hægt væri að veita slík leyfi samkvæmt, og því hefur verið horfið að því ráði að taka saman þetta frv. og gera þannig ráð fyrir föstu skipulagi í þessum efnum, þannig að þeir, sem áhuga hefðu og teldu sig hafa aðstöðu til þess að koma upp fiskrækt í sjó, gætu þá samkv. ákveðnum lagabókstaf sótt um leyfi og fengið rétt sinn verndaðan til þessarar starfsemi.

Það hefur þótt rétt í þessu tilfelli að ganga út frá því, að bæði Fiskifélag Íslands og Hafrannsóknastofnunin væru í rauninni aðilar að þessu máli, vegna þess að þetta eru aðilar, sem eiga að fylgjast nákvæmlega með því, sem er að gerast í sjónum hér við strendur landsins, og eins og kunnugt er, þá getur verið um slíkt líf að ræða í ýmsum fjörðum og í lónum, sem þættu sæmilega álitleg til fiskræktar, að fiskifræðingum þyki ástæða til þess að fylgjast þar nákvæmlega með, hvernig með verður farið.

Það er ekki gert ráð fyrir því samkv. þessu frv., að fiskrækt af þessu tagi geti á neinn hátt rekizt á ákvæði um fiskrækt í ám og vötnum, en um hana gilda önnur lagaákvæði.

Ég tel ekki nauðsynlegt að fjölyrða frekar um þetta frv. hér á þessu stigi málsins, en vil vænta þess, að sú n., sem tekur málið til athugunar, kynni sér alla málavexti gaumgæfilega og hafi samráð við þá aðila, sem eðlilegast er, að fjalli um þessi mál, þannig að örugglega verði frá öllu gengið, þegar farið er inn á þessa braut, að veita aðilum sérstök réttindi og þar með einkaréttaraðstöðu í vissum tilfellum, til þess að hafa með hönd.um fiskrækt á tilteknum svæðum.

Ég vil svo, herra forseti, óska eftir því, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og sjútvn. til fyrirgreiðslu.