16.05.1972
Neðri deild: 81. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 149 í C-deild Alþingistíðinda. (2946)

285. mál, dvalarheimili aldraðra

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Það hefur því miður verið nokkuð títt í þingsölum, sérstaklega þó í stjórnartíð fyrrv. hæstv. ríkisstj., að stjórnarandstaðan gagnrýndi kannske án þess að athuga til hlítar, hvað verið væri að gagnrýna. Ég tel, að það sé til heiðurs fyrir núv. stjórnarandstöðu á yfirstandandi þingi að hafa tekið upp aðra stefnu heldur en þá var í framkvæmd og hafa reynt að skoða mál málefnalega og koma fram með sína gagnrýni á þeim grundvelli.

Mér þykir rétt nú þegar við 1. umr. þessa máls, sem auðvitað, eins og hæstv. ráðh. sagði, mun ekki ganga fram á þessu þingi, heldur koma til afgreiðslu haustþings eða næsta Alþ., að lýsa ánægju minni yfir því, að þetta frv. skuli vera fram komið. Ég tel, að hér sé um gagnmerkt mál að ræða, sem reyndar hefði átt að hafa sézt hér á Alþ. fyrir löngu. Ég geri ráð fyrir því, að það komi fram þó nokkrar aths. við einstakar greinar þess, þ. á m. við 7. gr. frv., sem hæstv. ráðh. vitnaði í, en hitt veit ég, að þeir aðilar, sem þarna er getið um, bæði sveitarfélög og aðrir aðilar, sem fengizt hafa við og hyggjast standa í slíkum framkvæmdum, munu af heilum hug fagna því, að þetta frv. sé fram komið.