04.05.1972
Efri deild: 75. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 173 í C-deild Alþingistíðinda. (2973)

271. mál, hafnalög

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson) :

Herra forseti. Frv. það til hafnalaga, sem hér er nú tekið til umr., er samið af n., sem samgrh. skipaði hinn 19. maí 1971 til þess að endurskoða gildandi hafnalög, sem eru nr. 48 frá 1967. Í þessa n. voru skipaðir Ólafur S. Valdimarsson, skrifstofustjóri í samgrn., sem var formaður n., Gunnar H. Ágústsson hafnarstjóri og Matthías Bjarnason alþm. Með bréfi rn. 22. nóv. 1971 voru einnig skipaðir 4 n. Ragnar Sigurðsson hafnarstjóri og Tryggvi Helgason sjómaður. Þeir skiluðu fljótt og vel störfum, skiluðu þessu frv. áliðnum vetri og er frv. flutt óbreytt frá till. n., að undanskildum ákvæðum til bráðabirgða II.

Frv. fylgja ýmiss konar gögn og upplýsingar. Sjálft er frv. í 6 köflum: I. kaflinn er um yfirstjórn hafnamálanna, II. kafli um greiðslu kostnaðar við hafnargerðir o. fl., III. kafli um framkvæmdaáætlanir, IV. kafli um stjórn og rekstur hafna, V. kafli um Hafnabótasjóð, VI, kafli um ýmis ákvæði, og svo eru tvö atriði sett til bráðabirgða, ákvæði til bráðabirgða I og ákvæði til bráðabirgða II. Frv. fylgja svo margvíslegar upplýsingar, sem aðallega eru fengnar frá Hafnamálastofnuninni og Hafnasambandi sveitarfélaga.

Þær tölulegu upplýsingar, sem hafnamálastofnunin safnaði að ósk n., ná yfir 42 almennar hafnir. Auk þess ná upplýsingar Hafnamálastofnunarinnar yfir fjármál landshafnanna og fjármál Reykjavíkurhafnar, eða yfir 46 hafnir alls. Upplýsingar eru gefnar um rekstrarafkomu almennu hafnanna, og verður ljóst af þeim upplýsingum, að afkoma hafnanna er almennt mjög slæm. Bein rekstrargjöld nema þannig 45.4 millj. kr. af heildarrekstrartekjum, sem eru 82.3 millj. kr. Verða þá eftir 36.9 millj. kr. upp í vaxtagjöld, en þau nema 44.3 millj. kr. Vantar þá, eins og menn sjá, 7.4 millj. kr. á, að hafnirnar geti staðið undir vaxtagjöldum ásamt almennu rekstrargjöldunum. Eru þá ekki teknar með í þetta dæmi afskriftir eða afborganir vegna lána.

Einnig er fjallað í upplýsingum Hafnamálastofnunarinnar um greiðslustöðu hafnanna og kemur enn í ljós, að greiðslustaða einstakra hafnarsjóða 1970 er mjög miklu verri en 5 árum fyrr, þegar athugun var gerð á stöðu þeirra. Afborganir og vextir af lánum hafnanna árið 1970 námu alls 86.6 millj. kr., en rekstrartekjurnar voru nettó 36.9 millj. Sé sú upphæð dregin frá þessari fjárhæð, kemur út, að almennu hafnirnar vantar 49.7 millj. kr. til þess að standa undir afborgunum af lánum og vöxtum. Eru þá eingöngu tekin með í dæmið föstu lánin, sem hafnirnar standa undir, en þar við bætast svo afborganir og vextir af skammtímalánum, sem ekki liggja nú fullnægjandi upplýsingar fyrir um, en þar er einnig um verulegar upphæðir að ræða.

Yfirlit hefur verið gert um það, hvernig byrðin komi út varðandi hinar einstöku hafnir, þegar talað er um afborganir af föstum lánum og vaxtagreiðslur og þeim deilt niður á íbúa á hverjum stað,miðað við árið 1970. Af þessu verður ljóst, að á 4 stöðum verður greiðslubyrðin á íbúa yfir 4 þús. kr. á árinu 1970, á 6 stöðum er greiðslubyrðin á milli 3 og 4 þús. kr., á 7 stöðum 2 til 3 þús. kr. og á 14 stöðum 1 til 2 þús. kr. á mann. Þannig eru 17 hafnir í þessu yfirliti, sem eru með greiðslubyrði yfir 2 þús. kr. á íbúa, en 31 höfn, sem ber greiðslubyrði yfir 1 þús. kr. á íbúa. Þetta sýnir mjög ljóslega, hversu þungri byrði er þarna lyft á ýmsum stöðum, þar sem hafnirnar mega heita undirstaða lífs og lífsafkomu fólksins. En þessar byrðar eru að telja má orðnar svo þungar, að ekki verður undir þeim risið.

Áætlun hefur verið gerð um afborganir og vexti af áhvílandi föstum hafnalánum fyrir árin 1971–1980, miðað við föstu lánin eins og þau voru í árslok 1970. Sú tafla sýnir, að greiðslubyrðin á yfirstandandi ári er áætluð rúmlega 93 millj. kr., hækkar jafnvel úr þessu fyrst í stað, en fer svo mjög hægt lækkandi á næstu árum og kemst ekki fyrr en árið 1979 niður fyrir 60 millj. kr. Úr því fer hún verulega að lækka.

Með tilliti til þessa ástands var niðurstaða n., sem frv. samdi, að það þyrfti að gera verulegt átak til þess að létta af hafnarsjóðunum þeirra þungu byrði, og eru till. um það í frv., auðvitað með aukinni þátttöku ríkisins í hafnaframkvæmdum og sérstökum ráðstöfunum af hendi ríkissjóðs til þess að taka að sér að greiða niður hluta af áhvílandi skuldum hafnanna. Það er með tilliti til þessa bágborna efnahagsástands hafnarsjóðanna mjög víða á landinu, sem n. kemst að þeirri niðurstöðu, að eftirfarandi breytingar verði að gera:

Það er þá í fyrsta lagi, að framkvæmdir, sem styrktar eru nú með 75% framlagi úr ríkissjóði, eru talsvert auknar frá því sem áður var og jafnframt eru gerð skýrari mörk milli þeirra framkvæmda, sem njóta 75% framlags, og hinna, sem njóta 40% ríkisstyrks. Aðalbreytingin er fólgin í því, að bryggjur og viðlegukantar, sem áður nutu aðeins 40% ríkisstyrks, munu nú samkv. frv. njóta 75% ríkisstyrks. Samkv. upplýsingum, sem Hafnamálastofnunin hefur gefið, nemur meðalframlag ríkissjóðs til hafnaframkvæmda, síðan núverandi lög tóku gildi, 60%. Meðaltalsþátttaka ríkisins á árinu 1971 hefur verið 63% og er talið, að nú samkv. frv. verði meðaltalsútgjöld ríkisins til hafnaframkvæmda 72–74%, en þó stendur það eftir, að nokkuð verður enn af framkvæmdum varðandi hafnirnar, þar sem ríkissjóður greiðir eins og áður aðeins 40% af stofnkostnaði. Þar eru dráttarbrautir aðalliðurinn, en þær eru enn þá í þessum gjaldstiga. Þetta er í raun og veru meginbreytingin í frv. um hlutföllin milli framlaga hafnarsjóðanna og ríkisins, að miklu meira en áður fellur í 75% framlög.

Þá telur n. í öðru lagi óhjákvæmilegt, að Hafnabótasjóður verði efldur, og er gert ráð fyrir sérstöku framlagi til sjóðsins, sem nú er ekki ákveðin upphæð, heldur breytist með breyttum framlögum ríkisins til hafnamála, og verði framlag til sjóðsins 12% af árlegum framlögum ríkisins á fjárlögum til hafnarmannvirkja og lendingarbóta. Þó er í frv. sett lágmarksupphæð, sem ekki megi fara niður fyrir, og er það lágmark 25 millj. kr. Auk þess koma svo auðvitað til eigin tekjur Hafnabótasjóðs, en þær eru fremur rýrar enn sem komið er. Þessa till. í frv., um hækkun ríkisframlags og eflingu Hafnabótasjóðs, mundu, miðað við framlögin á fjárlögum ársins 1972, hafa í för með sér útgjaldaaukningu fyrir ríkissjóð, sem talið er að mundi nema 30–35 millj. kr.

Í þriðja lagi er svo lagt til í frv., í fyrra bráðabirgðaákvæðinu, að gerðar verði sérstakar ráðstafanir til að létta greiðslubyrði þeirra hafnarsjóða af langtímalánum, sem allra verst eru settir. Þótti ekki ástæða til að setja það í frv. sjálft, þar sem það á ekki að vera varanlegt, heldur á að gera átak til þess að létta þessa byrði hafnarsjóðanna.

Eins og kunnugt er, eru helztu tekjustofnar hafnarsjóðanna vörugjöld, lestagjöld og bryggjugjöld, og auk þess hafa svo ýmsar hafnir verulegar leigutekjur af lóðum og mannvirkjum, t. d. reka einstaka hafnir dráttarbrautir og enn aðrar hafnir hafa nokkrar tekjur af hafnsögu. Lestagjöldin eru að meðaltali um 8.2% af heildartekjum, bryggjugjöldin 5.3%, en vörugjöldin eru langþýðingarmest, 49.8%. Hafnsögugjöld, þar sem þau eru, eru um 5%. Þetta er meðaltal af þeim 42 höfnum, sem Hafnamálastofnunin tók til sérstakrar skoðunar og gerði yfirlit um.

Samtals eru rekstrartekjur þeirra 42 hafna, sem könnun Hafnamálastofnunarinnar náði yfir að upphæð 82.3 millj. kr. Auk þess hefur verið aflað upplýsinga um tekjur Reykjavíkurhafnar og landshafnanna þriggja, Þorlákshafnar, Rifshafnar og Keflavíkur- og Njarðvíkurhafnar. Heildartekjur þessara hafna eru um 85.8 millj. kr. og eru tekjur Reykjavíkurhafnar þar af um 72.5 millj. kr., en landshafnanna samtals 13.3 millj. kr.

Um greiðslustöðu hafnanna tel ég rétt að upplýsa það, að heildarupphæð fastra lána, sem á höfundum hvíla, er 868 millj. kr. og afborganir af þeim 86.8 millj., eða um það bil 1/10 hluti af lánsupphæðinni fer til greiðslu á ári hverju. Vaxtabyrði af föstum lánum nemur 78.1 millj. kr., eða um 9% af lánsupphæðinni.

Um greiðslujöfnuð hafnanna er það að segja, að greiðslustaða hafnanna í heild er mjög slæm. Þar eru aðeins örfáar undantekningar, þar sem sæmileg útkoma er, og það er um 111 millj. kr., sem skortir á það, að þessar 46 hafnir geti staðið undir vaxtagjöldum og afborgunum af föstum lánum. Vantar þá 49.7 millj. kr. til þess, að þær geti staðið undir því, þessar 42 hafnir, sem í yfirlitinu eru. Meira að segja hefur Reykjavíkurhöfn vantað 13.5 millj. kr. upp á slétta greiðslustöðu. Greiðslujöfnuðurinn er vitanlega mjög mismunandi hjá höfnunum, en þó aðeins örfáar, sem eru með jákvæðan greiðslujöfnuð. Af þeim 46 höfnum, sem upplýsingar liggja fyrir um, er greiðslujöfnuður einungis jákvæður hjá 5 höfnum, hjá 4 þeirra er hann þó aðeins smámunir einir, innan við 200 þús. kr., þær eru Búðakauptún, Grindavík, Húsavík og Hvammstangi, og Akureyri er í þessum hópi með 750 þús. kr. jákvæðan greiðslujöfnuð. Hér er einungis talað um föstu lánin, en þessi jákvæða útkoma á þessum fáu stöðum er horfin, þegar lausaskuldir eru teknar með, og er Akureyrarhöfn með 30.1 millj. kr. í skammtímalánum og lausaskuldum.

Þrjár hafnir eru þannig staddar, að greiðslujöfnuður er neikvæður um meira en 10 millj. kr., þ. e. Þorlákshöfn, Reykjavíkurhöfn og Keflavík-Njarðvík. Hjá Rifshöfn og Neskaupstað er þessi skuldabyrði milli 5 og 10 millj. kr. og hjá 18 höfnum milli 1 og 5 millj. kr.

Ég minntist áðan á greiðslubyrðina, sem hvíldi á hverjum einstaklingi varðandi nokkrar hafnir, og það er nákvæmara sagt þannig, að Neskaupstaður er með 4895 kr. á hvern íbúa sem greiðslubyrði. nærri 5 þús. kr. á mann, Bakkafjörður 4683, Þingeyri 4577, Þórshöfn 4477, Bolungarvík 3928, rétt við 4 þús., Eyrarbakki 3907, Sandgerði 3748, Suðureyri í Súgandafirði 3597, Ólafsvík 3073 kr., Hrísey 3041 kr. Lengra skal ég nú ekki fara niður eftir listanum, en sem sé, þetta eru þær 10, þar sem greiðslubyrðin er langþyngst, og þetta er þung byrði hjá nærri 40 höfnum, það er megintalan af þeim öllum á skránni allt niður í 1 þús. kr. á mann.

Heildarskuldir hafnanna, þegar lagt er saman bæði föstu lánin, skammtímalánin og lausaskuldirnar, þá er heildarupphæðin rúmur milljarður. Þetta væri kannske allt saman þolanlegt, ef þetta væri að lagast, en það er þveröfugt, byrðin virðist vera að þyngjast með ári hverju og yfirlitið yfir 5 síðustu árin sýnir það, að þetta hefur breytzt á þennan veg. Rekstrartekjur árið 1965 voru 58.1 millj. kr., en árið 1970 var þetta komið upp í 82.3 millj., eða aukningin 41.7%. Bein rekstrargjöld voru 196.5 23.6 millj. kr., en 1970 var þetta komið upp í 45.4 millj., hækkun í prósentum 92.4%. Afborganir og vextir af föstum lánum voru 1965 35 millj. kr., 1970 var þetta komið upp í 77.8 millj. kr., hækkun um 122.3%. Bráðabirgðalán og lausaskuldir, og það talar nú kannske skýrustu máli, sú upphæð var 1965 aðeins 40.5 millj. kr., en 1970 var þetta komið upp í 121 millj. kr., eða hækkun um 198.7%. Vangreitt ríkisframlag hefur hins vegar lækkað nokkuð, var 1965 39.3 millj. kr., en 1970 37.7 millj., hafði lækkað um 4%, og ekki vegur það nú þungt til bóta.

Niðurstaðan af þessari töflu er sem sé sú, að bein rekstrarútgjöld hafa vaxið rúmlega helmingi örar en rekstrartekjurnar á þessu 5 ára tímabili. Rekstrartekjurnar hafa sem sé vaxið um 41.7%, en bein rekstrargjöld um 92.4%. Þannig virðist halla áfram á ógæfuhliðina varðandi efnahagsstöðu hafnanna.

Þær hafnir, sem mestu fé hafa varið til umbóta hjá sér, eru þessar: Í mestan kostnað hefur verið lagt í Akureyrarhöfn eða fyrir 105.5 millj. kr., í Akraneshöfn 89.1 millj. kr. og Vestmannaeyjahöfn 87.6 millj. kr.

Ég held, að rétt sé að gefnum þessum upplýsingum, þessum óhugnanlega lestri um báglega fjárhagsafkomu hafnanna og þannig hina augljósu og brýnu þörf til þess að létta þeirra byrði og koma þeim til hjálpar, þá sé rétt, að ég fari nokkrum orðum um hinar einstöku greinar frv. eða einkanlega þær, sem breytingar felast í.

Það er ekkert að segja um 1. og 2. gr., en í 3. gr. er heimild til handa ráðh. til að veita bæjar- og sveitarfélögum leyfi til að hafa á hendi eigin hafnarframkvæmdir undir tækni- og fjárhagslegu eftirliti Hafnamálastofnunarinnar. Ég hygg, að það sé rétt að opna þessa leið og heimila þannig höfnunum sjálfum meiri þátttöku í framkvæmd umbóta á sínu sviði. Þá er í þessari grein meginreglan sú, að það sé heimilt að bjóða út hafnarmannvirki og fela framkvæmdina verktökum. Þó eru vissir þættir starfa þannig vaxnir, að þá verður að framkvæma með sérstökum tækjum, sem ekki eru í eigu annarra en vita- og hafnamálastjórnarinnar, og eru allýtarlegar upplýsingar um þau sérstöku tæki, sem eðlilegt þykir að hafnamálastjórnin eigi til slíkra framkvæmda. Það er t. d. dýpkunarskipið Grettir, dæluskipið Hákur og fleiri slík tæki, og mundi þá ekki vera aðstaða til að bjóða slík verk út.

Í 4. gr. eru litlar breytingar. Þar er skilgreining á, hvað telst til hafnargerða samkv. lögunum: Hafnargarðar, bryggjur og viðlegukantar, dýpkanir og uppfyllingar til hafnarbóta, siglingamerki, dráttarbrautir, flot- og þurrkvíar, löndunarkranar, hafnsögubátar og hafnarvogir. Í þessari upptalningu hafa ekki verið í gildandi lögum flotkvíar og hafnarvogir, en talið er rétt að telja það með styrkhæfum hafnarmannvirkjum.

Í 6. gr. er aðeins 4. tölul. nýr. Hann er um það, að fyrir skuli liggja athugun á því, hvort hafnarsjóður geti staðið undir greiðslu eigin kostnaðarhluta, hvort sem er í formi framlags eða greiðslu á lánum. Þessi breyting er gerð til þess að skapa aukið aðhald, svo að ekki sé hlaupið í að ákveða framkvæmdir, sem viðkomandi sveitarfélag geti fyrirsjáanlega ekki risið undir. Þetta ætti því aðeins að vera spor í lagfæringarátt og fyrirbyggjandi, að út í ófærur sé farið.

Í 7. gr. er að finna meginbreytinguna, þá langþýðingarmestu í þessu frv. Hún er um það, að ríkissjóður skuli greiða 75% stofnkostnaðar við bryggjur og viðlegukanta og einnig við siglingamerki. Í greininni segir, að hafnargarðar (öldubrjótar), bryggjur og viðlegukantar, dýpkanir á aðalsiglingaleið að og frá höfn og á hafnarsvæði innan marka, sem ákveðin eru af rn., þó ekki að bryggjum annarra en hafnarsjóðs, nauðsynlegar uppfyllingar vegna framkvæmda við hafnargarða, bryggjur og öldubrjóta og siglingamerki, allt þetta falli undir 75% framlag ríkisins, og er það miklu víðtækara en áður hefur verið. Innifalinn í ofangreindum stofnkostnaði hafnargarða, bryggna og viðlegukanta er kostnaður við vatnslagnir um mannvirkin og raflýsingu þeirra samkv. nánari reglugerð. Hins vegar greiðir svo ríkissjóður aðeins 40% áfram af stofnkostnaði við dráttarbrautir og við flot- og þurrkvíar. Þessar framkvæmdir ern taldar hafa sérstöðu að því leyti, að þær komi ekki til greina nema á örfáum stöðum. Undir 40% liðinn heyra sem sé dráttarbrautir, flot- og þurrkvíar, löndunarkranar, hafnsögubátar og hafnarvogir.

Litlar sem engar umtalsverðar breytingar eru á 8., 9. og 10. gr., 11. gr. ekki heldur, og er þá næst ástæða til að víkja nokkrum orðum að 12. gr.

12. gr. fjallar um álagningu hafnargjalda og segir, að til þess að standast kostnað við hafnargerðir og árlegan rekstrarkostnað hafnar eða í þágu hafnarinnar, eftir að hafnargerð er hafin, er heimilt að leggja á eftirtalin gjöld:

1. Skipagjöld á skip þau og báta, sem nota höfnina: a) Lestagjald, miðað við brúttóstærð skipa og viðstöðutíma, fyrir að koma á hafnarsvæðið og hafa þar dvöl. b) Bryggjugjald, miðað við brúttóstærð skipa og legutíma, fyrir að hafa not af bryggjum og hafnarbakka. c) Fastagjald fiskiskipa fyrir hafnarafnot. d) Hafnsögugjöld. e) Önnur þjónustugjöld.

2. Vörugjöld af vörum, sem umskipað er, útskipað eða uppskipað í höfn, þ. á m. sjávarafla, sem lagður er á land á hafnarsvæðinu.

3. Leigur fyrir afnot annarra mannvirkja eða tækja hafnarinnar.

4. Leyfisgjald eftir bryggjur eða önnur mannvirki, sem gerð hafa verið samkv. 17. gr.

5. Lóðargjöld.

Þetta eru tekjur hafnanna. Undanþáguákvæðum hefur verið breytt lítillega. Gert er ráð fyrir, að bryggjugjald verði innheimt af skemmtiferðaskipum, þegar þau koma að bryggju, en hins vegar ekki lestagjöld af þeim. Þá er bætt við heimild í greininni fyrir hafnarstjórn til þess að halda eftir skráningar- og þjóðernisskírteini skips til tryggingar greiðslu skipagjalda. Þessi heimild hefur verið sett í ýmsar hafnarreglugerðir, enda þótt hún eigi ekki enn stoð í hafnalögum. Enn fremur er sett inn heimild til þess að auðvelda innheimtu vörugjaldanna.

Samkvæmt síðustu mgr. 12. gr., er stefnt að því að samræma gjaldskrár hafnanna eftir því sem unnt er, en þær eru mjög ósamræmdar og full þörf á, að þær séu færðar til betra samræmis. Á þetta mál hefur verið lögð gífurlega þung áherzla af Hafnasambandi sveitarfélaga og verið unnið í því sambandi að því að samræma hafnarreglugerðirnar.

Þá tel ég ekki ástæðu til þess að minnast á næstu greinar, það er þá 16. gr. helzt. Þar segir í upphafi, að óheimilt sé án samþykkis rn. að selja, veðsetja eða leigja til langs tíma fasteignir hafnarsjóðs, nema þær húseignir, sem ekki hafa notið ríkisstyrks. Talið er eðlilegt, að menn geti látið heima fyrir eins og þá lystir og sé ekki bundið þessari kvöð.

Í 16. gr. er smáatriði, sem kannske er ástæða til að vekja athygli á. Það er sett inn að eindreginni ósk hafnamálastjóra og er á þá lund, að hafnarstjórnir séu skyldugar að senda Hafnamálastofnuninni afrit af fundargerðum þeirra, ef þess er óskað. Þetta er gert til þess að auðvelda stofnuninni að fylgjast með því, að ákvæði greinarinnar séu haldin.

17. gr. er óbreytt frá gildandi lögum, en 18. gr. er um Hafnabótasjóð. Í 3. tölul. 19. gr. er ákvæði um það, að sjóðnum sé heimilt að veita styrk til nýrra hafnarframkvæmda, sem nemi allt að 15% umfram ríkisframlag af heildarframkvæmdakostnaði, til staða, sem eiga við verulega fjárhagsörðugleika að stríða vegna dýrrar mannvirkjagerðar, fólksfæðar eða annarra gildra orsaka. Þegar þessu er bætt við 75% framlögin, þá kemur þarna heimild, að vísu mjög þröng, til þess að fara upp í allt að 90% af kostnaðinum. Ríkisstyrkur til hafnarframkvæmda í sérstökum undantekningartilfellum getur þannig komizt upp í 90% af framkvæmdakostnaði samkv. ákvæðum 19. gr.

Í 20. gr. er önnur sú meginbreyting, sem í þessu frv. felst, þ. e. varðandi Hafnabótasjóð, og minntist ég á það áðan. Þar segir, að árlegt framlag ríkissjóðs sé 12% af framlagi til hafnarmannvirkja og lendingarbóta á fjárl. hvers árs, en þó aldrei lægra en 25 millj. kr. Breytingin er því sú, að í stað þess að miða framlög ríkissjóðs við ákveðna upphæð, þá skuli nú miðað við ákveðinn hundraðshluta af árlegum fjárveitingum til hafnargerða. Frv. opnar þannig leið til þess að fylgja breytingum á hafnarfjárveitingum frá ári til árs og að framlagið sé hlutfallslegt, en enn fremur er lagt til, að þetta hlutfall verði 12%, eins og ég áðan sagði, en lágmarkið sett 25 millj. kr. Með þessu verður Hafnabótasjóður verulega efldur og mun honum sízt af veita.

Í 21. gr. er Hafnabótasjóði heimilt að taka lán til starfsemi sinnar innanlands eða utan allt að 350 millj. kr., og ríkissjóði er heimilt að ábyrgjast þau lán. Þessar heimildir hafa auðvitað verið notaðar, og af þessari heimild er nú fullnotað fyrir árslok 1971 120 millj. kr.

Í 25. gr. er það nýmæli, að heimilt er að kyrrsetja skip, en það hefur ekki verið heimilt áður. Öllum höfnum er heimill lögtaksréttur, og síðan segir: „Heimilt er að taka skipsskjöl og kyrrsetja skip fyrir tjóni eða mengun, sem þau kunna að valda í höfnum, unz fullnægjandi trygging hefur verið sett: Talið er óhjákvæmilegt að veita þessa heimild, ekki sízt með tilliti til erlendra skipa, sem annars gætu horfið brott án þess að gegna skyldum sínum. Ólíklegt er, að það kæmi til framkvæmda undir öðrum kringumstæðum.

Þá tel ég, að á frv. sjálfu séu ekki aðrar umtalsverðar breytingar en þær, sem ég nú hef skýrt frá. En ástæða er til þess að vekja athygli á efni bráðabirgðaákvæðanna, sem merkt eru I og II. Í bráðabirgðaákvæði I segir, að gera skuli sérstakar ráðstafanir til að létta greiðslubyrði þeirra hafnarsjóða af löngum lánum, sem verst eru settir, og skal þá miða við lánin eins og þau eru, þegar lög þessi taka gildi. Við fjárlagagerð fyrir árið 1973 skal samgrn. gera Alþ. sérstaka grein fyrir fjárþörf í þessu skyni. Ráðh. skal þá gera till. til fjvn. og Alþ. um skiptingu fjárins, og skal við skiptinguna hafa hliðsjón af tekjum og gjöldum hafnarsjóðs, framlagi sveitarfélags til hafnarsjóðs, fólksfjölda og öðrum þeim atriðum, sem hafa áhrif á greiðslugetu hafnarsjóðsins.

Hversu ríflega Alþ. kann að koma þarna til hjálpar hinum báglega stöddu hafnarsjóðum, vitum við auðvitað ekkert um, en þarna er sem sé heimild til þess að fara fram á sérstaka aðstoð og undirbúa það undir setningu næstu fjárl., enda óumdeilanlega brýn nauðsyn að gera það til þess að geta hafnarsjóðanna til nauðsynlegra framkvæmda verði ekki áfram lömuð. Ég held, að ég hafi vikið að því áðan, að það þótti réttara að hafa þetta ekki inni í frv., heldur aðeins sem bráðabirgðaákvæði, þar sem gert væri ráð fyrir því, að því, sem úrskeiðis hefur farið, verði kippt í liðinn á örfáum árum, tveimur, þremur árum væntanlega. Með þessu ákvæði er stefnt að því að reyna að koma fjármálum þeirra hafnarsjóða, sem allra verst eru settir, á réttan kjöl.

Varðandi bráðabirgðaákvæði II er sjálfsagt að vekja athygli á því, að þar er ekki í einu og öllu farið eftir till. n., heldur aðeins vikið frá, þó að meginefni í till. n. sé þar fyrir. Bráðabirgðaákvæði II er á þessa leið:

„Heimilt er að greiða úr ríkissjóði allt að 40% af stofnkostnaði þeirra dráttarbrauta, sem byggðar hafa verið frá árinu 1960 til gildistöku þessara laga af einstaklingum og félögum, eftir því sem fé er veitt til á fjárl. Skilyrði fyrir greiðslu slíks framlags sé: 1. Eigi sé nema ein dráttarbraut í sveitarfélaginu. 2. Jafnframt dráttarbrautinni sé rekin skipasmíðastöð. 3. Í sveitarfélaginu sé rekin veruleg útgerð að dómi samgrn. 4. Viðkomandi hafnarsjóður eða sveitarsjóður leggi fram a. m. k. 10% stofnkostnaðar á móti framlagi ríkissjóðs: Þetta er allt saman í nákvæmu samræmi við till. n., en í 5. liðnum er frá þeim vikið, þar segir: „5. Um dráttarbrautina sé stofnað hlutafélag, þar sem framlög ríkis og sveitarfélags verði eignarhluti þeirra, enda nemi hann a. m. k. 50% hlutafjár:

Með þessu er heimiluð aðstoð við dráttarbrautir í einkaeign, en sveitarfélögin eiga þá að fá a. m. k. 50% eignaraðild að mannvirkjunum. Þetta var ekki alveg ótvírætt, það var aðeins heimild, að sveitarfélögin yrðu eignaraðilar að þessum dráttarbrautum samkv. till. n. Það þótti ekki nægilega skýrt kveðið á um það í till. n., að framlög ríkis og sveitarfélags skuli skilyrðislaust verða eignarhluti þeirra í dráttarbrautunum, og þannig er að þessu eina leyti vikið frá upphaflegu till. n., sem frv. samdi.

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til þess að hafa þessi orð miklu fleiri. Ég tel æskilegt, að þetta frv. til hafnalaga fái afgreiðslu áður en þingstörfum lýkur, vegna þess að sé það ekki orðið að lögum og liggi aðeins í frv. formi fyrir næsta þingi í upphafi þings, þá er minna svigrúm fyrir Hafnamálastofnunina að undirbúa till. sínar til fjvn., miðað við þessa löggjöf, en sé frv. samþ. nú, þó að ekki sé ætlazt til þess, að það taki gildi fyrr en 1. janúar 1973, þá yrði allur hafnamálaundirbúningur af hendi Hafnamálastofnunarinnar miðaður við þessa löggjöf og rýmra svigrúm fengist þannig til þess að ganga frá þeim undirbúningi með eðlilegum hætti. Ég legg ekki höfuðkapp á það, að frv. nái fram að ganga á þessu þingi, en þar sem mér finnst litlar líkur til þess, að um það verði ágreiningur í grundvallaratriðum, þá tel ég sem sagt æskilegt, að n., sem fær málið til meðferðar, hraði störfum og miðað væri við það að takast mætti að afgreiða það á þessu þingi.

Ég legg til, herra forseti, að frv. verði að umr. lokinni vísað til hv. samgn.