13.05.1972
Efri deild: 80. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 186 í C-deild Alþingistíðinda. (2983)

279. mál, dagvistunarheimili

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson) :

Herra forseti. Það mál, sem hér er lagt fyrir hið háa Alþ., er svo merkt að mínum dómi, að ástæða væri til að tala fyrir því alllangt mál og ýtarlegt. Ég mun þó ekki hafa þann hátt á í þessum framsöguorðum, þar sem málið kemur svo síðla fram á þingi, að borin von er, að það hljóti nú afgreiðslu, en sjálfsagt þótti að leggja það þó fram til kynningar, úr því að það var frá gengið, áður en þingi lauk.

Þetta mál er borið fram af ríkisstj. í samræmi við ákvæði í málefnasamningi hennar um, að hún muni beita sér fyrir, að sett verði löggjöf um hlutdeild ríkisins í byggingu og rekstri barnaheimila. Hinn 20. des. var skipuð n. til að undirbúa frv.-smíðina, og sátu í henni Stefán Ólafur Jónsson fulltrúi í menntmrn., formaður, en aðrir nm. voru Guðrún Jónsdóttir félagsráðgjafi, Gyða Sigvaldadóttir forstöðukona, Svava Jakobsdóttir alþm. og Þóra Þorleifsdóttir. Frv., sem hér er lagt fram, er árangurinn af starfi þessarar nefndar:

Ástæður fyrir því, að málinu er hreyft, eru margar, og ég get í þessum orðum aðeins drepið lauslega á hinar helztu. En segja má, að þær séu samslungnar úr uppeldislegum, félagslegum og þjóðhagslegum þáttum.

Með þeim breytingum, sem orðið hafa á búsetu og atvinnulífi í landinu á síðustu áratugum, hefur betur og betur komið í ljós, hversu mikil þörf er á því, að samfélagið sjái börnum innan skólaaldurs fyrir stöðum, þar sem þau geta dvalið óhult í hollu umhverfi þá tíma dags, sem foreldrar eiga erfitt með eða geta alls ekki veitt þeim gæzlu og umönnun. Sömuleiðis er það raunin, að eftir því sem fólki fækkar á heimilum verður brýnna, að börnin hljóti uppeldi og kynni við aðra fullorðna en heimilisfólkið og aðra jafnaldra en systkini á stofnunum, sem til þess eru búnar, og hjá starfsfólki, sem til þess er menntað að sjá um þarfir barnanna.

Loks fer það sífellt í vöxt, að báðir foreldrar vinni launuð störf utan heimilis, og þar sem svo er ástatt er afar brýnt, að fjarvera foreldra frá heimilum verði ekki til þess, að börn á ungum aldri séu umhirðulaus eða þeim verði að koma fyrir til bráðabirgða í misjafnlega traustri gæzlu. Kannanir, sem gerðar hafa verið, hafa leitt í ljós, að geysilegur skortur er á, hvar sem borið er niður, að þörfinni fyrir dagvistun barna sé fullnægt. Það er reynsla annarra þjóða og er fullreynt hér, að úr þörfinni fyrir dagvistun barna verður alls ekki bætt, svo að í lagi sé, nema ríkið komi þar til skjalanna, leggi fé af mörkum, bæði til stofnkostnaðar dagvistunarstofnana og til rekstrarkostnaðar þeirra. Í frv., sem hér er lagt fyrir, er það sameinað að kveða á um hlutdeild ríkisins í stofn- og rekstrarkostnaði heimilanna og að setja lagaákvæði, sem tryggi eins og unnt er, að starfsemi þessara stofnana fullnægi þörfum og eðlilegum kröfum og að starfsfólk þeirra sé þeim vanda vaxið, sem í því er fólginn að taka að sér til umönnunar og uppeldis annarra manna börn í töluverðum hópum. Gert er ráð fyrir, að hlutdeild ríkisins í stofnkostnaði dagheimila og skóladagheimila, þ. e. a. s. heimila, þar sem gert er ráð fyrir, að börnin séu vistuð í heils dags vist obbann af deginum, sé 50% af áætluðum stofnkostnaði eða hinn sami og við skólahúsnæði, en til leikskóla, þar sem börn eru vistuð skemmri tíma, 3 stundir eða þar um bil, er gert ráð fyrir, að ríkið leggi fram 25% stofnkostnaðar. Hlutdeild ríkisins í rekstrarkostnaði er samkv. frv. allt að 30% til dagheimila og skóladagheimila, en til leikskóla allt að 20%.

Auk þeirra ástæðna, sem ég hef lítillega drepið á og gera það knýjandi, að ríkisvaldið leggi af mörkum fé og hafi með lagasetningu forustu um starf og innri gerð þessara uppeldisstofnana, vil ég enn nefna eina mjög sterka röksemd fyrir setningu þeirra laga, sem hér er um að ræða. Það er yfirlýst stefna flestra, sem láta sig félagsleg málefni skipta, að stefna beri að sem fyllstu jafnrétti kynjanna í nútímaþjóðfélagi. Skortur á félagslegri aðstoð við uppeldisstörf kemur í veg fyrir, að þetta jafnrétti kynjanna verði raunverulegt, hversu sem reynt er að lögfesta það að öðru leyti. Til þess að móðir geti rækt nám eða starf jafnframt móðurhlutverkinu, verður hún að eiga kost á dagvistunarheimilum fyrir börn sín. Án slíkrar aðstöðu er allt tal um jafnrétti kynjanna til náms eða starfs orðin tóm.

Ég mun svo ekki að þessu sinni hafa fleiri orð um þetta mál, en vil leyfa mér að leggja til, að því verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. menntmn.