08.11.1971
Neðri deild: 10. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 204 í C-deild Alþingistíðinda. (3009)

52. mál, Jafnlaunadómur

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. flm. þessa frv. fyrir greinargóða og yfirgripsmikla ræðu með ýmsum athyglisverðum upplýsingum um það, hvernig launamálum kvenna er háttað nú í dag. Sömuleiðis gleðst ég yfir því, að hennar fyrsta þingmál miðar að því að fá leiðréttingu á þeim þætti þessara mála, sem raunverulega hefur ekki náð þeirri framkvæmd, sem íslenzk lög hafa ætlað að ná. Í þessu frv. eru þó nokkur atriði, sem mig langar til að vekja athygli bæði hv. flm. og þeirrar n., sem fær þetta mál til meðferðar, á.

Það er þá fyrst og fremst í sambandi við, hvort nákvæmlega sú leið, sem bent er á í þessu frv., sé hin heppilegasta til að ná því takmarki, sem þarna er stefnt að. Að því er mér skilst og mér virðist vera höfuðkostur við þetta mál er hugmyndin að baki þessu sú, að um verði að ræða einhvern aðila, sem þær konur, sem telja sig misrétti beittar í launamálum, geta með vissu vitað, að þær eigi rétt á að snúa sér til og geti með einhverjum hætti leyst þeirra mál. Nú er það svo, að eðlilegasta leiðin virðist í fljótu bragði vera sú, að konur snúi sér til stéttarfélags síns í slíkum tilvikum. Viss hætta er þó á því, að það stéttarfélag taki e. t. v. ekki málið samstundis upp eða málið sé ekki lagt á þann hátt upp í hendurnar á stéttarfélagi, að það hefjist handa að fá mál viðkomandi launþega leiðrétt. Hver sem orsökin er, er það staðreynd, að atvinnurekendum hefur hætt til að sniðganga á vissan hátt íslenzk lög um launajafnrétti, þ. e. a. s. á þann hátt, að sömu störf séu í sumum tilfellum nefnd mismunandi nöfnum.

Ágreiningur um laun og ráðningarsamninga á, eins og kunnugt er, heima að miklu leyti undir lögum um stéttarfélög og vinnudeilur og þeim kafla þeirra sérstaklega í mörgum tilfellum, sem fjallar um félagsdóm, en í öðrum tilvikum, ef um er að ræða vangreidd laun og slíkt og bætur fyrir þess konar brot á samningum, hafa menn oft farið í mál fyrir venjulegum dómstólum. Sú leið er, eins og kunnugt er, allseinfær, og því getur þessi hugmynd, sem liggur fyrir í þessu frv., virzt í fljótu bragði vera leið til að leysa slík mál með nokkuð einföldum hætti. En mér sýnist á þeim kafla laga um stéttarfélög og vinnudeilur, nr. 80 frá 1938, þeim kafla, sem fjallar um félagsdóm, að þar sé atriði, sem er nokkuð hliðstætt því, sem hér er um að ræða. Þetta mál, sem við erum nú að ræða um, gæti með lítilli einfaldri breyt. á lögum um félagsdóm náð tilgangi sínum. Það ákvæði, sem ég er hér að ræða um, er í niðurlagi 44. gr. þessara laga, nr. 80 frá 1938, að stéttarfélögum, félögum meistara, iðnrekenda og öðrum atvinnurekendum sé heimilt að leita úrskurðar félagsdóms um það, hvort tiltekin starfsemi falli undir 1. og 2. kafla laga um iðju og iðnað, svo og um það, til hvaða löggiltra iðngreina hún taki. Og svo eru í 39. gr. þessara sömu laga nánari ákvæði um það, hvernig þetta sé framkvæmt fyrir dómnum, hvernig sérstakir dómendur eru til kvaddir, þegar svona mál eru lögð fyrir félagsdóm. Mér sýnist, að það gæti verið nokkuð greiðfær og áhrifarík lausn á þessum málum, að sett væri inn í þessi lög svipað ákvæði um það, að félagsdómur gæti úrskurðað, hvort t. d. tiltekið starf teldist vera ritarastarf eða bókarastarf. Ég veit, að hv. flm. skilur og veit, að það er einmitt það átriði, sem við rekum okkur oftast á, að er tvísýnt um, hvort nákvæmlega er í samræmi við þær réttarreglur, sem við höfum í huga. Þetta atriði vildi ég benda hv. n. á að athuga við meðferð málsins.

Grunntónninn í þessu frv. er vitanlega atriði, sem allir hv. alþm. eru sammála um, svo oft hefur þetta mál verið áréttað hér á Alþ. á undanförnum áratugum, vil ég segja, fyrst með till. um fullgildingu alþjóðasamþykktar um jöfn laun karla og kvenna árið 1953, að mig minnir, fremur en 1952, svo með ákvæði í lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, þá með samþykkt þál. um fullgildingu alþjóðasamþykktarinnar um jöfn laun karla og kvenna fyrir jafnverðmæt störf og síðan með jafnlaunalögunum frá 1961. Í öll þessi skipti hefur nákvæmlega þessi hugmynd og þessi lagastefna náð fram að ganga hér á Alþ., þannig að það, sem ógert er, virðist vera að tryggja, að þetta sé framkvæmt. Þeirri hugmynd er ég vissulega fylgjandi, en vildi aðeins benda á, að það eru viss atriði í þessu frv., sem leiða hugann að því, að það mætti e. t. v. gera þetta með einfaldari hætti. Auk þess eru nokkur smærri atriði í því, sem mér sýnist ekki vera alveg ljóst, hvernig framkvæma eigi. Það er nefnt, að dómur jafnlaunadóms gæti verið annaðhvort ráðningasamningur eða þá sektardómur. Nú er það svo, að í málum um brot á ráðningarsamningum kemur mjög oft til greina og er oft eitt aðalatriði máls krafa um bætur, og þá er spurning, hvort þarf sérstaklega að taka það fram í lagafrv., að það mætti gera bótakröfu fyrir þessum dómi, eða hvort flm. hugsar sér, að eftir sem áður eigi að reka slíkt mál fyrir venjulegum dómstólum. Það má vel vera, að flm. hafi hugsað sér, að ráðningarsamningur, sem ákveðinn væri af þessum dómi, væri afturvirkur og bætur kæmu á einhvern hátt fram í slíkum dómi. Mér er ekki alveg ljóst, hvort þetta atriði hefur verið hugsað, en ég tel, að taka þurfi tillit til þess. Ekki sýnist mér heldur alveg skýrt, hvað hugsað er í 2. tölulið 5. gr., þar sem minnzt er á starfshópa og félagssamtök sem kærendur eða sóknaraðila. Við fyrsta lestur þessa frv. hélt ég, að þar væri um að ræða einhvers konar hópa úr stéttarfélagi launþegans eða slíkt, en mér hefur skilizt á framsöguræðu hv. flm., að hér sé um að ræða það, að hópur manna, einhver ótiltekinn hópur manna, geti tekið sig saman og litið á sig sem starfshóp í kvenréttindamálum og kært til refsingar, að mér skilst, fremur en til þess að treysta ráðningarsamningi. Mér er ekki alveg ljóst, hvort heldur er eða hvort flm. á við, að hvort tveggja sé heimilt slíkum hópi. Mér skilst, að það sé ekki nauðsynlegt, að þetta sé með vilja eða vitund launþegans sjálfs. Ég hygg, að þetta sé atriði, sem þarf að athuga, ég skal engan dóm á það leggja, hvernig það kemur út.

Eins og raunar kom fram í framsöguræðu hv. flm., er það náttúrlega alveg nýtt í íslenzku réttarfari á síðari öldum, að þetta sé þannig gert, að hver eigi sök sem vill í refsimálum. Heyrir það undantekningum til í okkar rétti, að einstaklingar eigi aðild að refsimálum. Þó er þetta ekki ótítt, eins og við vitum, að það er hægt að sækja til refsingar í einkamálum, í meiðyrðamálum. Ég sé nú framan í einn hv. dómara á landi okkar hér og sé, að hann þylur það utan að í huga sínum, í hvaða tilvikum þetta er, og man hann sjálfsagt mjög glögglega, að það er í meiðyrðamálum, bótum fyrir ýmiss konar fjárhagslegt tjón, líkamslýti o. fl. Á þessu sviði er þetta alveg nýtt atriði, og verður að sjálfsögðu einnig að athuga, hvernig það samræmist öðrum reglum í íslenzkum lögum, og ég skal heldur engan dóm á það leggja. Ég er ekki að segja, að ég sé þessu mótfallin, en þetta er atriði, sem þarf mjög vandlega að hugsa.

Loks er eitt atriði enn, og það er um reglugerðarákvæði. Mér er ekki heldur alveg ljóst, hvaða atriði eða hvers konar atriði er hugsað að verði sett í reglugerð um þennan dómstól. Að vísu man ég ekki til þess, að yfirleitt séu í okkar rétti settar reglugerðir um dómstóla, og mér sýnist æskilegra, ef að einhverju slíku yrði horfið, sem þetta frv. ræðir um, að það væri þá fremur nákvæmlega tilgreint í dögunum sjálfum heldur en að setja þyrfti reglugerð um störf dómstólsins, a. m. k. um hvað reglugerð ætti að fjalla.

Þessi atriði vildi ég aðeins taka fram, af því að gerð var hér till. um, að málið færi í allshn. Ég hafði við fyrstu sýn talið, að þetta mál ætti e. t. v. heima í heilbr.- og félmn., og þar sem ég sit í þeirri n., hafði ég ekki hugsað mér að taka til máls um frv. En ég mun ekki gera till. um, að það fari í þá n. Ég skil mætavel það sjónarmið hv. flm., að hún vilji gjarnan, að það fari í þá n., þar sem hún skilur sjálf í, og ég hef enga tilhneigingu til að bregða fæti fyrir það.