10.11.1971
Neðri deild: 11. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 239 í C-deild Alþingistíðinda. (3038)

64. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Flm. (Karvel Pálmason) :

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr., er um breyt. á lögum nr. 51 frá 10. júní 1964, um tekjustofna sveitarfélaga, og er svo hljóðandi:

„1. gr.

20. gr. laganna orðist svo:

Félmrn. annast úthlutun framlaga Jöfnunarsjóðs til sveitarfélaganna samkv. ákvæðum þessarar greinar.

Fjórðungur landsútsvara, sem til falla í hverju sveitarfélagi, skal koma í hlut þess, 3/4 hlutum landsútsvara ásamt söluskatti, samkv. 16. gr. a, skal skipt á milli sveitarfélaganna þannig, að fyrst skal úthluta til hvers sveitarfélags fé, er svari til þess, sem útsvör þess verða lægri en þau ella hefðu orðið vegna sérstaks frádráttar sjómanna samkv. 14. gr. laga um tekju- og eignarskatt.“

Ég tel ástæðulaust að lesa meira úr þessu frv. hvað þetta efni varðar, en vil víkja að því nokkrum orðum.

Frv. þetta gerir ráð fyrir þeirri breytingu frá núgildandi lögum, að Jöfnunarsjóði sveitarfélaga verði skylt að bæta hinum ýmsu sveitarfélögum þann tekjumissi, er þau verða fyrir vegna sérstaks frádráttar sjómanna samkv. 14. gr. laga um tekju- og eignarskatt.

Í grg., sem frv. fylgir, er gerð grein fyrir þeirri mismunandi aðstöðu, sem hin ýmsu sveitarfélög hafa gagnvart tekjustofnum eftir því, hvort þau eru með sjómenn sem stóran hluta gjaldenda eða ekki. Ég vænti þess, að hv. þdm. hafi gert sér ljóst, hversu geysilegt misræmi er hér um að ræða í þessum efnum milli hinna ýmsu sveitarfélaga og misræmi, sem felst í því, að sveitarfélög, sem byggja tekjustofn sína að miklu leyti á gjöldum sjómanna, missa tekjur sem skipta hundruðum þús. eða millj. kr. árlega hjá hverju sveitarfélagi. Þetta gerist á sama tíma og önnur sveitar- og bæjarfélög, er hafa aðrar starfsstéttir sem gjaldendur, halda öllum sínum tekjustofnum að fullu.

Ég vænti þess, að hv. þm. séu mér sammála um það, að slík tekjumismunun milli hinna ýmsu sveitarfélaga sé óæskileg og beinlínis óviðunandi og því beri löggjafarvaldinu að afnema slíkt ranglæti. Hvaða rök mæla með því, að þjóð, sem byggir tilveru sína að langmestu leyti á fiskveiðum, hegni þeim sveitarfélögum, þar sem slíkur undirstöðuatvinnurekstur er stundaður? Ég tel, að engin rök mæli með slíkri mismunun og því beri að afnema þetta, og því fyrr því betra.

Frv. það. sem hér er til umr., er flutt vegna fenginnar reynslu, og sem dæmi um þessa reynslu vil ég leyfa mér að benda hv. þdm. á þá staðreynd, að í sjávarþorpi eins og t. d. í Bolungarvík, sem hefur um 1000 íbúa og nokkuð stór hluti gjaldenda sveitarsjóðs eru sjómenn, þá er tekjumissir þessa sjávarþorps vegna sjómannafrádráttar hvorki meira né minna en 1.6 millj. kr. á síðasta álagningarári, þ. e. a. s. sem svarar 1600 kr., á hvern íbúa sveitarfélagsins. Ef við tækjum aftur samanburð í öðru tilfelli, á Reykjavíkurborg, og gerðum ráð fyrir, að líkt væri ástatt í þessum málum hér í höfuðborginni, og miðuðum að sjálfsögðu við mannfjölda, þá væri þarna um að ræða tekjustofa hjá Reykjavíkurborg upp á ca. 128 millj. kr., sem höfuðborgin missti vegna gildandi laga í þessu efni.

Rétt er í framhaldi af þessu að hugleiða, hvort líklegt sé, að höfuðborgin missi eitthvað í líkingu við þær tölur, sem ég nefndi, vegna þeirra laga, sem í gildi eru. Ég held, að það sé aðeins brot af nefndri upphæð, sem borgarsjóður missir vegna þessa. Það, að ég nefni Bolungarvík sem dæmi, er vegna þess að ég þekki þar bezt til, en fjöldi annarra sjávarþorpa er álíka illa og kannske verr settur hvað þetta atriði varðar. Það eru líka margir aðrir staðir en höfuðborgin, sem verða fyrir lítilli eða engri tekjuskerðingu vegna lagaákvæðisins um frádrátt sjómanna. En það er einmitt þetta misrétti, sem frv. gerir ráð fyrir að leiðrétt verði, misrétti, sem ég tel til vansæmdar fyrir þjóð, sem byggir svo að segja allt sitt á sjávarútvegi og sjósókn, þeim atvinnuvegi, sem skapar Íslandi þann auð, sem svo að segja allt annað byggist á.

Ég vil taka sérstaklega fram, að með frv. er ekki verið að amast við þeim skattfríðindum, sem sjómenn nú njóta. Það er síður en svo. Það er skoðun mín, að sé einhver stétt þjóðarinnar verðug slíkra fríðinda, þá sé það sjómannastéttin. Hins vegar tel ég óeðlilegt, að sjávarþorpum sé gert skylt að bera þann tekjumissi, sem af slíkum fríðindum leiðir, heldur sé það þjóðin í heild, sem þann mismun eigi að bæta.

Ég vil í framhaldi af áður sögðu geta þess, að á þingi Fjórðungssambands Vestfjarða á s. l. hausti var samþ. einróma ályktun þess efnis, að skora á Alþ. að breyta téðum lögum á þann veg, sem frv. þetta gerir ráð fyrir.

Ég vil svo að loknu þessu vona, að hv. þm. sjái sér fært að styðja þetta frv. og veita því brautargengi. Það eitt er víst, að eftir því mun verða tekið, hvaða afgreiðslu þetta mál fær hér í þinginu, og af þeirri afgreiðslu munu verða dregnar ályktanir um, hversu mikill hugur fylgir máli í sambandi við allt tal um jafnrétti öllum þegnum þessa þjóðfélags til handa án tillits til búsetu.

Herra forseti. Ég vil svo að lokum leyfa mér að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og fjhn.